Mark Argentínumaðurinn Diego Milito fagnar marki sínu gegn Barcelona á San Síró þar sem Inter lagði Evrópumeistaranna, 3:1, í Meistaradeildinni.
Mark Argentínumaðurinn Diego Milito fagnar marki sínu gegn Barcelona á San Síró þar sem Inter lagði Evrópumeistaranna, 3:1, í Meistaradeildinni. — Reuters
JOSÉ Mourinho, þjálfari Ítalíumeistara Inter, er hálfnaður með ætlunarverk sitt, það er að slá Bracelona út úr Meistaradeildinni.

JOSÉ Mourinho, þjálfari Ítalíumeistara Inter, er hálfnaður með ætlunarverk sitt, það er að slá Bracelona út úr Meistaradeildinni. Inter fer með tveggja marka forskot í veganesti til Camp Nou eftir að hafa lagt Evrópumeistarana að velli í Mílanóborg í gærkvöldi, 3:1. Leikaðferðin sem Mourinho lagði upp fyrir sína menn heppnaðist fullkomlega og var sigur þeirra verðskuldaður.

Inter gaf Börsungum eftir miðjusvæðið og leyfði Katalóníumönnum að dóla sér með knöttinn en um leið og þeir misstu hann beittu Inter-menn skæðum skyndisóknum sem skiluðu þremur mörkum. Pedro kom Evrópumeisturunum yfir á 19. mínútu eftir sofandahátt í vörn Inter en Wesley Sneidjer, Maicon og Diego Milito tryggðu Mílanóliðinu sætan sigur og í fyrsta sinn í þeim 114 leikjum sem Pep Guardiola hefur stýrt Barcelonaliðinu tapaði það með meira en tveggja marka mun. Til að bæta svo gráu ofan á svart fékk fyrirliði Barcelona að líta gula spjaldið og hann missir af seinni leiknum sem fram fer á Nou Camp í næstu viku.

Mourinho óhress með Börsunga

Hvort 14 klukkustunda rútuferð til Mílanó hafi haft einhver áhrif á leikmenn Barcelona er ekki gott að segja en þrátt fyrir að vera með boltann 67% í leiknum náðu Evrópumeistararnir sér aldrei á strik og argentínski töframaðurinn Lionel Messi lét lítið á sér bera eins og Mourinho hafði lofað fyrir leikinn.

„Við erum ekkert svo nærri úrslitaleiknum því Barcelona á heimaleikinn eftir. Það verður mjög erfitt. Ég var ekki ánægður með markið sem við fengum á okkur. Þar urðu okkur á slæm mistök. En ég vil segja svolítið um leikmenn Barcelona. Þeir hefðu átt að segja að Inter hefði verið sterkara liðið í stað þess að ráðast að dómaranum í göngunum. Eru þeir búnir að gleyma Tom Henning Ovrebo í fyrra?“ sagði Mourinho.

„Við erum mjög ánægðir með þennan sigur. Seinni leikurinn verður erfiður en við munum leggja allt í sölurnar í þeim leik. Liðið varðist frábærlega vel og okkur tókst að halda bæði Messi og Ibrahimovic í skefjum,“ sagði Diego Milito.

Getum gert miklu betur

Pep Guardiola, þjálfari Barcelona, neitaði að kenna rútuferðinni um ófarir sinna manna.

„Svona getur gerst, sérstaklega þegar þú spilar í undanúrslitum Meistaradeildarinnar og gegn Inter. Úrslitin voru ekki góð. Við gáfum of marga bolta frá okkur og það er ljóst að við getum gert miklu betur. Þetta var ekki okkar besti leikur en Inter er lið sem gerir þér ekki auðvelt fyrir,“ sagði Guardiola.

gummih@mbl.is