Guðrún Þórey Jónsdóttir fæddist 30.1. 1924 á Bessastöðum í Fljótsdal. Hún lést 30. apríl sl. Hún var dóttir hjónanna Jóns Jónassonar (1868-1936) smiðs og Önnu Jóhannsdóttur (1877-1954) saumakonu. Guðrún átti átján systkini. Systir hennar Björg Sólveig lifir ein systkini sín.
Guðrún Þórey lagði land undir fót til Reykjavíkur milli tektar og tvítugs og vann þar við ýmis störf. Hún giftist Bergsteini Jónssyni (1926-2006) sagnfræðingi og eignuðust þau þrjú börn. Þau eru: Auður, f. 1950, maki Ólafur Árni Traustason. Þau eiga Ólaf Finnboga. Með fyrri eiginmanni sínum Karli Gunnari Jónssyni á hún Soffíu Sigríði, Hilmar, Guðrúnu Árnýju og Bergstein. Jón, f. 1951, sonur hans og Halldóru Thoroddsen er Bergsteinn. Anna, f. 1954, maki Ólafur Sigurðsson, dætur þeirra eru Oddrún og Björg. Barnabarnabörn Guðrúnar Þóreyjar og Bergsteins eru átta.
Guðrún Þórey og Bergsteinn bjuggu lengst af á Njálsgötu 84 ásamt tengdaforeldrum Guðrúnar, Jóni Árnasyni frá Vatnsdal, Fljótshlíð, og Kristínu Jónsdóttur frá Torfastöðum, sömu sveit. Í húsinu bjuggu einnig Gunnar, bróðir Bergsteins, og fjölskylda hans. 1996 fluttu þau Guðrún og Bergsteinn á Snorrabraut 56b. Guðrún Þórey vann úti þegar börnin komust á legg, inni á Kleppsspítala, uppi á Landspítala, en lengst af með Soffíu, systur sinni, í Breiðholtsskóla. Hún vann líka um tíma á kaffiteríu starfsmanna Verslunarbankans í Bankastræti. 1971 fékk Bergsteinn rannsóknarstyrk og dvaldi fjölskyldan í eitt ár í Norður-Dakota þar sem þau treystu vestra varanleg kynni við Vestur-Íslendinga og heimamenn. Barnabarnabörn Guðrúnar Þóreyjar og Bergsteins eru átta.
Útför Guðrúnar fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 12. maí 2010, og hefst athöfnin kl. 13.
Margs er að minnast og margt að þakka, þegar hún Gunna frænka er kvödd. Í minningum mínum og fram á þennan dag er hún ein af föstu punktunum. Óljósar minningar á ég frá árunum þrem í Dalnum áður en fjölskylda mín fluttist til Reyðarfjarðar. Síðan fórum við systkinin sumar hvert í sveitina og dvöldum þar mislengi eftir atvikum. Jón afi lést 1936, en eftir það stóð amma fyrir búinu ásamt sonum sínum með aðstoð systranna, sem skiptust á um að vera heima fram yfir 1950.
Það er ómetanlegt að eiga minningar frá gömlu bændamenningunni, þegar búið var enn í gamla torfbænum og allt var í föstum skorðum. Best man ég árin frá 1937 til 1943. Nýtt steinhús var svo byggt 1938. Enn var fjölmennt á heimilinu því nokkur yngri systkinin voru enn heima. Börn ömmu og afa voru 19 og það var 26 ára aldursmunur á föður okkar sem var elstur og Guðrúnu sem var yngst. Yngri systkinin voru því lítið eldri en við bróðurbörnin, enda féllum víð brátt vel inn í hópinn. Bessastaðir eru í miðri sveit, og einnig lá þjóðleið frá bænum upp á Fljótsdalsheiði yfir á Efri-Jökuldal, var því oft gestkvæmt og öllum tekið opnum örmum. Afi og amma voru bæði hagleiksfólk og fengu börn þeirra þá hæfileika í arf í ríkum mæli. Allt var unnið af vandvirkni og alúð. Ekki má gleyma söngnum. Það var margt ungt fólk í Dalnum og stutt á milli bæja.Vagga tónlistariðkunarinnar stóð á Valþjófsstað í tíð sr. Þórarins Þórarinssonar og féll í góðan jarðveg í sveitinni um langa tíð. Söngur var mikið iðkaður á Bessastöðum, og oftar en ekki sungið fjórraddað í eldhúsinu stóra á kvöldin. Þetta er bakgrunnurinn hennar Gunnu. Hún var glöð, glettin og smekkvís, hafði yndi af því að vera vel til fara, ýmist í fötum sem hún saumaði sjálf eða valdi sér af kostgæfni.
Árið 1950 flutti hún til Reykjavíkur og þau Bergsteinn Jónsson stofnuðu heimili sitt í fjölskylduhúsinu á Njálsgötu 84. Þangað var gott og gaman að koma, gestrisnin í hávegum höfð og samhent önnuðust þau uppeldi barna sinna og hlúðu að ættingjum og vinum sem best mátti vera. Hver sem erillinn á heimilinu var virtist Bergsteinn alltaf geta útilokað sig frá honum og sinnt sínum störfum við skrifborðið í stofunni.
Lengst af var Gunna heimavinnandi húsmóðir að þeirra tíma hætti. Handavinna af ýmsum toga lék í höndum hennar og prýddi heimilið. Einnig voru þar ásamt öðru fögur blóm í gluggum og bækur ófáar í hillum. Ættliðunum fjölgaði með árunum og allir fengu sinn skerf af ást og umhyggju. Missi eiginmanns síns og erfiðum sjúkdómum af ýmsum toga um árabil tók hún með festu og æðruleysi. Vel studd af dætrum sínum gat hún á sjúkrahúsinu sinnt fallegri handavinnu fram undir síðustu vikurnar og þá bæði lært af öðrum, en líka leiðbeint. Andlegri reisn hélt hún til hinstu stundar og kvaddi umvafin kærleika afkomenda sinna.
Við Frímannsbörnin og fjölskyldur okkar vottum börnum hennar og fjölskyldum þeirra ásamt eftirlifandi systur, Björgu Sólveigu, innilega samúð.
Guð blessi minningarnar.
Anna Arnbjörg Frímannsdóttir.
Það var alltaf gott að koma til þín, fékk stundum pening til að kaupa kók eða appelsín og Síríuslengju í Örnólfi. Svo sagðir þú sögur úr Fljótsdalnum og frá því þegar þú komst fyrst í bæinn og fórst að vinna hjá Marteini Einarssyni þar sem þér líkaði svo vel.
Í dag ylja ég mér við minningar um góða ömmu sem mér þótti vænt um og sakna svo mikið.
Ég finn, hve sárt ég sakna,
hve sorgin hjartað sker.
Af sætum svefni að vakna,
en sjá þig ekki hér;
því svipur þinn á sveimi
í svefni birtist mér.
Í drauma dularheimi
ég dvaldi í nótt hjá þér
(K.N.)
Takk fyrir allt elsku amma.
Þín
Oddrún.
Svo man ég líka eftir sögu af þér sem hún Anna amma sagði mér og hún hljómar svona: Þú varst að fara að lesa og þú geymdir alltaf gleraugun þín á sérstökum stað. Þú varst byrjuð að leita og leita að gleraugunum og svo gafstu alveg upp. Settist niður, sóttir gleraugun á staðinn þinn og fórst að lesa. Þá sagði amma við þig: „Mamma ég held að þú sért búin að finna gleraugun þín.“ Og þá fattaðirðu að þú varst byrjuð að lesa og með gleraugun á nefinu.
Ég samdi ljóð um þig sem ég held að þú hefðir verið glöð með:
Ég man þig, hve þú varst góð.
Ég man þig, hve þú unnir mér.
Ég man hvað þú áttir mikið.
Og við öll elskuðum þig.
Ég man hvað við þörfnuðumst þín.
Og hvað við elskuðum þig!
Þín
Ólöf Sandra.