Vigdís Hauksdóttir
Vigdís Hauksdóttir
Eftir Vigdísi Hauksdóttur: "Sparnaði meginþorra Íslendinga hefði mátt bjarga með tryggingu að upphæð fimm milljónir króna á hvern reikning."

Alltaf vex hún sú tilfinning að ójafnt sé gefið í heimi hér, og sérstaklega á Íslandi. Munnlegt loforð um að tryggja skyldi allar innistæður sem gefið var af ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks haustið 2008 virðist hafa komið efnafólki mest til góða en að sjálfsögðu einnig hinum sem minna áttu. Sparnaði meginþorra Íslendinga hefði mátt bjarga með tryggingu að upphæð fimm milljónir króna á hvern reikning. Er þessi aðgerð góðra gjalda verð, enda hefði yfirlýsing um tryggingu innistæðna ekki komið til hefði það getað leitt til ófyrirsjáanlegra afleiðinga. Þetta leiðir þó hugann að hinum almenna Íslendingi – þeim sem ekki lögðu sparnað sinn fyrir í banka – heldur keypti sér þak yfir höfuðið. Af hverju verndar ríkið ekki eign hans með einhverjum hætti? Eru peningar svona miklu göfugri en steinsteypa?

Þegar ríkið verndar einn hóp í þjóðfélaginu, á kostnað annars, er það óréttlæti, mismunun og brot á jafnræði. Lítur ríkisvaldið kannski svo á að ákveðinn hluti þjóðarinnar eigi að vinna til að viðhalda eignastöðu annarra, bara vegna þess að í hlut eiga peningar, en ekki aðrar eignir. Íbúðareigendur gera sér grein fyrir því að ríkið getur ekki greitt þeim að fullu til baka það sem þeir hafa tapað frá hruni. En að ríkið skuli ekki létta undir með almenningi með húsnæðisskuldir stríðir gegn jafnræði og sanngirni. Líti ríkisstjórnin svo á að refsa beri almenningi fyrir að verða sér úti um húsnæði er eitthvað mikið að hjá ráðamönnum. Norræna vinstri velferðarstjórnin er að verða Íslendingum þungbærari en nokkurn óraði fyrir.

Höfundur er lögfræðingur og þingmaður Framsóknarflokksins í Reykjavík.

Höf.: Vigdísi Hauksdóttur