Viktoría Lind Hilmarsdóttir fæddist í Reykjavík hinn 1. nóvember 2004. Hún lést á Ullevaall-sjúkrahúsinu í Osló 4. maí 2010.

Foreldrar Viktoríu Lindar eru hjónin Hilmar Þór Sævarsson, f. 6. október 1974, og Guðrún Elvíra Guðmundsdóttir, f. 10. október 1976, til heimilis á Siriusvei 16, 1407, Vinterbro í Noregi. Systur Viktoríu Lindar eru Ída María, f. 13. júní 2002, og Emilíana, tvíburasystir hennar, f. 1. nóvember 2004.

Útför Viktoríu Lindar fer fram í Norby-kirkju í Ási í dag, 12. maí 2010. Minningarathöfn verður haldin á Íslandi og verður hún auglýst síðar.

Elskan litla hún Viktoría Lind hefur kvatt okkur. En hún mun aldrei hverfa okkur sem fengum að vera henni samferða þau fáu ár sem henni hlotnuðust.

Persónuleiki Viktoríu og útgeislun hefur grópað sig djúpt í hugskot okkar. Aldrei munum við gleyma brosinu, gleðinni og glettninni í andlitinu né heldur eftirvæntingunni sem birtist okkur þegar við komum til hennar hvort heldur sem var á heimili fjölskyldunnar, á Barnaspítala Hringsins eða í Rjóðrinu, hvíldarheimili fyrir langveik börn. Ógleymanleg verður þolinmæði hennar og þrautseigja í löngu og ströngu veikindaferli sem hófst strax við fæðingu.

Viktoría litla með löngu augnhárin og þykka, fallega hrokkinkollinn reyndi að fylgja systrum sínum eftir í öllu, enda þótt hún gæti það ekki alltaf. Veikindi hennar voru margvísleg og hún stundum bundin við rúmið langtímum saman. Hún gat aldrei borðað á sama hátt og við hin.

Frá upphafi var henni vart hugað líf, hún oft nær dauða en lífi, en hún lifði á ást og umhyggju foreldra sinna sem lögðu nótt við dag til að hlúa að henni og annast hana. Tvíburasystir hennar og stóra systirin, Emilíana og Ída María, elskuðu hana ofurheitt og spurðu látlaust um hana í hvert sinn sem hún lá veik á sjúkrahúsi. Gleðidagar urðu til allrar hamingju margir og þegar best lét gat Viktoría verið dagparta á leikskóla með systur sinni.

Fjölskyldan flutti úr Mosfellsbæ til Noregs síðastliðið sumar og gott var að Viktoríu entist aldur og heilsa til að kynnast nýja heimalandinu og njóta samvista við afa og ömmu og frændsystkinin þar.

Viktoríu Lindar verður sárt saknað. Megi Guð sefa sársaukann og söknuðinn og geyma vel litla engilinn.

Rúna Gísladóttir, Þórir S. Guðbergsson og fjölskylda.