Á vellinum
Guðmundur Hilmarsson
gummih@mbl.is
Auðun Helgason, reynsluboltinn í liði Grindvíkinga, hefur eflaust ekki sofið vel í nótt en í fyrsta leik sínum með Suðurnesjaliðinu í Pepsi-deildinni gerði miðvörðurinn sterki sig sekan um slæm mistök sem reyndust vendipunktur leiksins í viðureigninni gegn Stjörnumönnum á gervigrasinu í Garðabænum. Strax á 2. mínútu rændi Auðun hinn mjög svo skæða Steinþór Frey Þorsteinsson upplögðu marktækifæri og hlaut að launum rautt spjald og Garðbæingar fengu vítaspyrnu sem Halldór Orri Björnsson skoraði úr.
Þetta reyndist Grindvíkingum rothögg því þeir náðu ekki að rakna úr rotinu og afar frískir Stjörnustrákar höfðu tögl og hagldir allan tímann og áður yfir lauk höfðu þeir skorað fjögur mörk.
„Þetta var óskabyrjun. Þeir fengu tvöfalda refsingu strax í byrjun og við nýttum okkur liðsmuninn og þessa frábæru byrjun. Auðvitað var maður smeykur eftir fyrri hálfleikinn þar sem munurinn var aðeins eitt mark en við höfðum misnotað mörg góð færi. En strákarnir héldu áfram og spiluðu seinni hálfleikinn vel. Við hleyptum Grindvíkingum aldrei inn í leikinn,“ sagði Bjarni Jóhansson, þjálfari Stjörnumanna, við Morgunblaðið eftir leikinn.
Það verður ekki af Stjörnumönnum tekið að þeir léku lengst af mjög vel en vissulega er erfiðara að dæma um getu liðsins þar sem það lék manni fleiri nánast allan leikinn.
Steinþór fór á kostum
Menn voru ekkert værukærir í herbúðum Garðabæjarliðsins og það er styrkleikamerki og enginn vafi leikur á að Stjörnuliðið er betur mannað en í fyrra, breiddin meiri og meiri reynsla komin í hópinn. Að öllum öðrum ólöstuðum var Steinþór Freyr Þorsteinsson besti maður vallarins. Þessi snaggaralegi miðju- og sóknarmaður átti margar glæsilega rispur og með hann í þessum ham verða Stjörnumenn skeinuhættir en Steinþór var maðurinn á bak við flestar sóknir Garðbæinga. Halldór Orri Björnsson átti fínan leik og hefur greinilega haft gott að dvöl hjá Pfullendorf í Þýskalandi seinni hluta vetrar. Þá mun Marel Jóhann Baldvinsson örugglega reynast hinu unga liði góður liðsauki og Eyjamaðurinn Atli Jóhannsson og Dennis Danry náðu vel saman á miðjunni.Grindavíkurliðið verður ekki dæmt af þessari frammistöðu en það náði ekki að rífa sig upp eftir það mikla mótlæti sem það varð fyrir í byrjun leiks. Suðurnesjamennirnir hentu einfaldlega hvíta handklæðinu inn á eftir tveggja mínútna leik en þeir virtust ekki hafa neina trú á því að rétta sinn hlut eftir rothöggið strax í fyrstu lotu.
Stjarnan – Grindavík 4:0
Stjörnuvöllur, Pepsi-deild karla, 1. umferð, 11. maí 2010.Skilyrði : Hægur vindur, smá rigning með köflum og um 9 stiga hiti.
Skot : Stjarn. 16 (8) – Grind. 5 (0).
Horn : Stjarnan 7 – Grindavík 7.
Lið Stjörnunnar : (4-3-3) Mark : Bjarni Halldórsson. Vörn : Baldvin Sturluson (Bjarki Páll Eysteinsson 71.), Tryggvi S. Bjarnason, Daníel Laxdal, Hafsteinn Helgason (Hilmar Þór Hilmarsson 86.). Miðja : Jóhann Laxdal, Dennis Danry, Atli Jóhannsson. Sókn : Steinþór Þorsteinsson, Marel Baldvinsson (Þorvaldur Árnason 74.), Halldór Orri Björnsson.
Lið Grindavíkur : (4-4-2) Mark : Óskar Pétursson. Vörn : Ray Anthony Jónsson, Auðun Helgason, Marko V. Stefánsson, Jósef K. Jósefsson (Sveinbjörn Jónasson 78.). Miðja : Matthías Friðriksson, Orri Freyr Hjaltalín, Jóhann Helgason, Alexander Magnússon (Loic M. Ondo 46.). Sókn : Scott Ramsay (Óli Baldur Bjarnason 78.), Gilles M. Ondo.
Dómari : Valgeir Valgeirsson – 4.
Áhorfendur : 780.
„Ekkert annað en að henda mér útaf“
Auðun Helgason gat ekki óskað sér verri byrjun í búningi Grindvíkinga í Pepsi-deildinni en þessi öflugi varnarmaður var rekinn af velli eftir aðeins tveggja mínútna leik í Garðabænum í gær þegar hann rændi Steinþór Frey Þorsteinsson upplögðu færi. Stjarnan fékk í kjölfarið vítaspyrnu sem þeir skoruðu úr.,,Það kom löng sending inn á teiginn. Ég á að Marel ætlaði að láta boltann fara svo ég bakkaði inn í teiginn og var svona að bíða eftir að markvörður okkur kæmi út. Hann var hins vegar kyrr og ég mat stöðuna rangt. Þegar ég ætlaði svo að hreinsa var ég úr jafnvægi og kiksaði en fór í staðinn í fótinn á Steinþóri. Það var því ekkert um annað að gera en að dæma víti og henda mér útaf,“ sagði Auðun við Morgunblaðið en hann gekk í raðir Grindavíkur frá Fram fyrir tímabilið.
Mikið kjaftshögg
,,Þetta var auðvitað gríðarlega svekkjandi og mikið kjaftshögg í fyrsta leiknum mínum í deildinni með Grindavík. Ég ætla að vona að ég nái að bera þetta. Ég er í fínu standi og liðið er það líka en þessi skelfilega byrjun sló liðið gjörsamlega út af laginu. Stjörnumenn unnu auðveldan sigur á vænbrotnu Grindavíkur liði,“ sagði Auðun, sem verður í banni í Suðurnesjaslagnum gegn Keflavík á mánudaginn sem og Gilles Mbang Ondo.,,Við verðum bara að draga lærdóm af þessum leik. Vendipunkturinn var þegar ég var rekinn útaf. Maður er víst alltaf að læra eitthvað nýtt í þessum bolta. Ég hef aldrei lent í því að vera rekinn útaf eftir rúmlega einnar mínútu leik. Nú verða menn bara að stíga upp í leiknum á móti Keflavík og ég veit að þeir gera það,“ sagði Auðun. gummih@mbl.is
Með betra lið en í fyrra
,,Þetta var skínandi góð byrjun en auðvitað breytti það miklu að Grindvík missti mann út af eftir tvær mínútur og við fengum líka víti sem við skoruðum úr,“ sagði Steinþór Freyr Þorsteinsson, besti maður vallarins, við Morgunblaðið eftir sigur Stjörnunnar á Grindavík í gær.,,Auðun var óheppinn. Boltinn skoppaði illa og í stað þess að sparka í boltann fór hann í fótinn á mér. Þetta var klárlega vítaspyrna en mér finnst svolítið hart að reka út af fyrir svona. Þetta er regla sem mér finnst að mætti breyta,“ sagði Steinþór, sem skoraði eitt mark og átti stóran þátt í tveimur mörkum sinna manna.
,,Eftir þessa byrjun var enginn neisti til staðar hjá Grindvíkingum en við héldum sem betur fer haus og náðum að gera vel út um leikinn í seinni hálfleik.“
Spurður hvort hann hafi ekki verið ánægður með eigin frammistöðu sagði hann: ,,Jú jú, en ég átti að skora í það minnsta þrjú mörk. Ég klúðraði tveimur upplögðum færum en þetta var fín byrjun hjá liðinu. Nú ætlum við að halda út allt mótið og vera með menn heila. Við erum með betra lið og breiðari hóp en í fyrra og þennan sigur vil ég tileinka föður Bjarna þjálfara sem lést í gær,“ sagði hinn skemmtilegi Steinþór Freyr.
gummih@mbl.is
Þetta gerðist í Garðabænum
1:0 3. Halldór Orri Björnsson skoraði úr vítaspyrnu sem dæmd var á Auðun Helgason fyrir að fella Steinþór Freyr Þorsteinsson innan vítateigs.2:0 64. Há sending barst inn á vítateig Grindvíkinga og þar var Halldór Orri Björnsson fyrstur til að átta sig og náði að pota boltanum framhjá Óskari Péturssyni af stuttu færi.
3:0 77. Steinþór Freyr Þorsteinsson komst inn í skallasendingu frá Matthíasi Friðrikssyni aftur til markvarðar og skoraði með því að vippa boltanum yfir markvörð Grindvíkinga.
4:0 83. Steinþór Freyr átti glæsilega stungusendingu inn fyrir vörnina á Jóhann Laxdal sem skoraði af miklu öryggi.
Gul spjöld:
Rauð spjöld:
Gilles Ondo (Grindavík) 85. (annað gula spjaldið fyrir brot).
MM
Steinþór Þorsteinsson (Stjörnunni).
M
Daníel Laxdal (Stjörnunni)
Jóhann Laxdal (Stjörnunni)
Tryggvi S. Bjarnason (Stjörnunni)
Baldvin Sturluson (Stjörnunni)
Atli Jóhannsson (Stjörnunni)
Halldór Orri Björnsson (Stjörnunni)
Ray Anthony Jónsson (Grindavík)
* Auðun Helgason og Gilles Mbang Ondo hjá Grindavík, sem voru reknir af velli, verða í banni næsta mánudag þegar Grindavík fær Keflavík í heimsókn í Suðurnesjaslag..
*Þeir Matthías Örn Friðriksson og Alexander Magnússon í liði Grindavíkur léku báðir sinn fyrsta leik í efstu deild. Matthías kom frá Þór og Alexander frá Njarðvík. Loic Mbang Ondo þreytti líka frumraun sína í deildinni.
* Hilmar Þór Hilmarsson kom inn á hjá Stjörnunni og lék sinn fyrsta leik í efstu deild.