Kristján Jónsson
kjon@mbl.is
Yfirmenn öryggismála í Írak sæta nú harðri gagnrýni og eru sakaðir um vanrækslu eftir blóðugasta daginn í landinu á þessu ári en liðlega hundrað manns féllu í tugum tilræða víða um landið í fyrradag. Stjórnvöld kenndu liðsmönnum al-Qaeda um hryðjuverkin. En aðstoðarinnanríkisráðherra Íraks, Hussein Ali Kamal, sagði eftirliti hafa verið mjög ábótavant og hafin yrði rannsókn á málinu.
Iyad Allawi, fyrrverandi forsætisráðherra og leiðtogi Iraqiya, fylkingarinnar sem hlaut flest þingsæti í þingkosningunum fyrir rúmum tveim mánuðum, segir hættu á nýju borgarastríði í landinu en ekki hefur enn tekist að mynda nýja stjórn. „Þessi átök munu ekki halda áfram að einskorðast við landamæri Íraks,“ sagði Allawi sem taldi alþjóðasamfélagið hafa brugðist þjóðinni.
Hann sagði í viðtali við breska blaðið Guardian að flokkur Nouri al-Maliki, sjíta-múslíma og starfandi forsætisráðherra og fylking heittrúaðra sjíta-múslíma klerksins Moqtada al-Sadrs reyndu nú að einangra Iraqiya til að halda völdum. Flokkana tvo skortir aðeins fjögur þingsæti til að geta myndað meirihluta. Iraqiya er veraldlega sinnaður og nýtur mikils stuðnings meðal súnní-múslíma en meirihluti Íraka er úr röðum sjíta.
Kosningadeilur
» Flokkur Allawis hlaut 91 sæti af alls 325 á íraska þinginu en flokkur al-Malikis forsætisráðherra var með 89 sæti.» Alþjóðlegir eftirlitsmenn töldu að þingkosningarnar 7. mars hefðu að mestu leyti farið vel og lýðræðislega fram.
» Deilt var ákaft um atkvæðatalninguna en búist er við að endurtalningu ljúki í höfuðborginni Bagdad á föstudag.