Háloftabardagi Keflvíkingurinn Magnús Þórir Matthíasson og Blikinn Guðmundur Kristjánsson í hörðum slag á Kópavogsvellinum.
Háloftabardagi Keflvíkingurinn Magnús Þórir Matthíasson og Blikinn Guðmundur Kristjánsson í hörðum slag á Kópavogsvellinum. — Ljósmynd/Steinn Vignir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á vellinum Ívar Benediktsson iben@mbl.is Keflvíkingar unnu sanngjarnan en fullnauman sigur á Breiðabliki á Kópvogasvelli í gærkvöldi. Eina mark leiksins skoraði Slóveninn Alen Sutej á 36. mínútu en mörkin hefðu svo sannarlega getað orðið fleiri.

Á vellinum

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Keflvíkingar unnu sanngjarnan en fullnauman sigur á Breiðabliki á Kópvogasvelli í gærkvöldi. Eina mark leiksins skoraði Slóveninn Alen Sutej á 36. mínútu en mörkin hefðu svo sannarlega getað orðið fleiri. Leikmenn Keflavíkur fengu nokkur upplögð færi til þess að bæta við mörkum en aðeins ónákvæmni í bland við frábæran leik Ingvars Þórs Kale, markvarðar Breiðabliks, kom í veg fyrir fleiri mörk að þessu sinni.

Undir stjórn nýs þjálfara, Willums Þór Þórssonar, er óhætt að fullyrða að lið Keflavíkur fari vel af stað og lofi hreinlega mjög góðu sé tekið mið af þessum eina leik og hann borinn saman við leiki liðsins á síðustu leiktíð. Mikið og gott skipulag er komið á leik liðsins, e.t.v. á kostnað ákveðins léttleika í spilinu sem var undir stjórn Kristjáns Guðmundssonar. Varnarleikurinn er mjög traustur og Ómar Jóhannsson sömuleiðis í markinu. Það var ekki nema rétt undir lokin sem hann lenti í vandræðum í einu úthlaupi.

Breiðabliksliðið virtist ekki vera eins til í slaginn og Keflavíkur liðið og mátti eins og fyrr segir teljast heppið að sleppa með aðeins eins marks tap.Vörnin átti í erfiðleikur en Ingvar var góður í markinu. Illa gekk að byggja upp sóknir og þegar það heppnaðist vantaði upp á að sendingar væru vandaðar.

Blikar sköpuðu sér fá marktækifæri. Guðmundur Pétursson var æði oft rangstæður. Einna næst því að skora var Haukur Baldvinsson á 76. mínútu. Hann var einn og lítt valdaður rétt fyrir framan markteigshorn hægra megin þegar hann skallaði knöttinn í fang Ómars, markvarðar Keflavíkur. Fyrstu 15-20 mínútur leiksins voru fremur daufar. Síðan juku Keflavíkingar á sóknarþungann. Sóknir þeirra voru allan fyrri hálfleik mun beittari en heimamanna. Markið á 36. mínútu var því fyllilega sanngjarnt.

Nokkur stöðubarátta var framan af síðari hálfleik en eins og í fyrri hálfleik voru Keflvíkingar líklegri. Sutej skallaði boltann með mínútu millibili að marki Breiðabliks eftir rúmlega 60 mínútna leik. Ingvar varði í annað skiptið en varnarmaður Keflavíkur í hitt skiptið á marklínu. Síðustu tíu mínúturnar reyndu Blikar að auka sóknarþungann en án árangurs. Sóknir Keflavíkur voru hættulegri og sigurinn verðskuldaður.

Breiðablik – Keflavík 0:1

Kópavogsvöllur, Pepsi-deild karla, 1. umferð, 11. maí 2010.

Skilyrði : Logn, 10 stiga hiti og súld. Völlurinn leit út fyrir að vera fínn.

Skot : Breið. 11(4) – Keflav. 14(9).

Horn : Breiðab. 9 – Keflavík 4.

Lið Breiðabliks : (4-5-1) Mark : Ingvar Þór Kale. Vörn : Arnór Sveinn Aðalsteinsson (Elvar Páll Sigurðsson 88.), Elfar Freyr Helgason, Kári Ársælsson, Kristinn Jónsson. Miðja : Alfreð Finnbogason, Olgeir Sigurgeirsson (Haukur Baldvinsson 65.), Guðmundur Kristjánsson, Finnur Orri Margeirsson (Andri Rafn Yeoman 73.), Kristinn Steindórsson. Sókn : Guðmundur Pétursson.

Lið Keflavíkur : (4-4-2) Mark : Ómar Jóhannsson. Vörn : Alen Sutej, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Haraldur F. Guðmundsson, Guðjón Antoníusson. Miðja : Magnús S. Þorsteinsson, Hólmar Örn Rúnarsson, Paul McShane (Brynjar Guðmundsson 87.), Magnús Þ. Matthíasson (Ómar K. Sigurðsson). Sókn : Guðmundur Steinarsson (Jóhann B. Guðmundsson 46.), Hörður Sveinsson.

Dómari : Þorvaldur Árnason – 3.

Áhorfendur : 1.680.

Þetta gerðist á Kópavogsvelli

0:1 36. Hólmar Örn Rúnarsson sendi stutt úr hornspyrnu frá hægri á Guðmundur Steinarsson. Hann hafði góðan tíma og sendi boltann inn á markteigshorn Breiðabliks vinstra megin þar sem Alen Sutej var óvaldaður og skallaði knöttinn í hægra markhornið án þess að Ingvar Kale fengi vörnum við komið.

Gul spjöld:

Haraldur Freyr (Keflavík) 15., (brot), Olgeir (Breiðabliki) 58., (brot), Magnús Þórir (Keflavík) 87., (brot).

Rauð spjöld:

Enginn

MMM

Enginn.

MM

Ingvar Þór Kale (Breiðabliki).

M

Kristinn Jónsson (Breiðabliki)

Arnór S. Aðalsteinsson (Breiðab.)

Kári Ársælsson (Breiðabliki)

Ómar Jóhannsson (Keflavík)

Alen Sutej (Keflavík)

Haraldur F. Guðmundsson (Kefl.)

Guðjón Árni Antoníusson (Keflavík)

Paul McShane (Keflavík)

Magnús Þ. Matthíasson (Keflavík)

* Guðmundur Steinarsson er orðinn annar leikjahæsti Keflvíkingurinn í efstu deild frá upphafi með 181 leik. Hann fór í gærkvöld fram úr Þorsteini Bjarnasyni , fyrrverandi landsliðsmarkverði, sem lék 180 leiki. Sigurður Björgvinsson á leikjamet félagsins, 214 leiki í efstu deild.

* Elvar Páll Sigurðsson hjá Breiðabliki og Ómar Karl Sigurðsson hjá Keflavík, sem komu báðir inn á sem varamenn, léku báðir sinn fyrsta leik í efstu deild.

* Guðmundur Steinarsson lék aðeins fyrri hálfleik með Keflavík á Kópavogsvelli í gær vegna veikinda.

* Arnór Sveinn Aðalsteinsson missir hugsanlega af næsta leik Breiðabliks eftir að hafa orðið fyrir ljótri tæklingu undir lok leiks.

Löng bið eftir útivallarsigri er á enda

Sigur Keflvíkinga á Kópavogsvelli í gær er fyrsti sigur þeirra á útivelli frá 13. september 2008. Þá lagði Keflavíkurliðið Fjölni, 2:1, með mörkum Guðmundar Steinarsson og Jóhanns Birnis Guðmundssonar. Guðmundur, sem lagði upp eina markið í leiknum í gær, fór veikur af leikvelli í hálfleik og Jóhann Birnir leysti hann af og var nærri því að skora rétt undir leikslok þegar fast skot hans fór rétt framhjá marki Breiðabliks.

Þrátt fyrir sigurleysi á útivelli á síðasta keppnistímabili gekk Keflavíkurliðinu nokkuð vel. Það gerði átta jafntefli í ellefu viðureignum, m.a. 4:4 í miklum markaleik í Kópavogi. vs@mbl.is/iben@mbl.is

Tapið þýðir alls ekki heimsendi

„Himinn og jörð ferst nú ekki þótt maður tapi í fyrsta leik,“ sagði Ólafur H. Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks, í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi. „Fyrirfram var tap einn af þremur möguleikum sem var fyrir hendi þegar flautað var til leiks. Fyrirfram vissi ég að það yrði mjótt á munum í þessum leik. Keflvíkingar voru einfaldlega einbeittari og duglegri við að verja sitt mark en við og loks tókst þeim það sem okkur lánaðist ekki að gera og það var að skora. Það skildi liðin að,“ sagði Ólafur.

„Framkvæmdin á leiknum var ekki eins og við viljum helst. Við viljum leika boltanum á milli okkar á ákveðinn hátt. Í byrjun tókst það ekki sem skyldi og þar var ef til vill um að kenna ákveðnum póker sem var á milli okkar þjálfaranna þar sem menn voru að freista þess að koma hver öðrum á óvart. Það tókst að hluta til hjá okkur en samt án þess að við næðum að skapa hættuleg færi. Við lögðum upp með að vinna ákveðin svæði á vellinum. Þegar það tókst þá tókust sendingar ekki nægilega vel og móttaka boltans var heldur ekki viðunandi, að minnsta kosti ekki nógu góð til þess að okkur lánaðist að opna vörn Keflavíkur.“

Spurður hvort Willum, þjálfara Keflavíkur, hafi tekist að koma Ólafi og Breiðabliksliðinu á óvart svaraði Ólafur því neitandi. „Það er enginn tangó stiginn lengur þegar þessi tvö lið mætast. Ég er alls ekki að fetta fingur út í það en það er ljóst að Keflavíkurliðið tók tillit til þess við hvern það var að leika að þessu sinni. Það lék sterka vörn og beitti skyndisóknum.“ iben@mbl.is

Lokuðum á allt flæði í leik Blika

„Mér fannst þetta bara mjög fínn leikur af okkar hálfu. Allir leikmenn voru mjög agaðir og skipulagðir. Það var kannski fyrst og fremst það atriði sem skóp þennan sigur okkar,“ sagði Willum Þór Þórsson, þjálfari Keflavíkur, glaður í bragði með góðan sigur í leikslok á Kópavogsvelli í gærkvöldi.

„Það er alls ekki heiglum hent að vinna Breiðabliksliðið því það er öflugt og heldur boltanum mjög vel og er mjög beitt í öllum sínum sóknaraðgerðum. Okkur tókst að loka á allt flæði leik Breiðabliksliðsins sem var afar mikilvægt,“ sagði Willum Þór sem sagði hafa verið þægilegt að vera marki yfir í hálfleik.

„Síðan mættum við mjög beittir inn í síðari hálfleikinn og náðum fyrir vikið að skapa fullt af marktækifærum en því miður tókst okkur ekki að nýta neitt þeirra. Af þeim sökum var maður alls ekki í rónni fyrr en flautað var til leiksloka. Blikaliðið er einfaldlega þannig að það getur alltaf komið í bakið á manni. Þeir hafa svo marga góða miðju- og sóknarmenn Annað mark hefur svo sannarlega gert leikinn þægilegri fyrir okkur,“ sagði Willum Þór.

„Barátta og vinnusemi var mikil innan Keflavíkurliðsins þegar á leikinn leið auk þess sem Ómar [Jóhannsson] steig ekki feilspor í markinu.

Ég get ekki verið annað en ánægður með að fara héðan með þrjú stig eftir sigur á góðu liði Breiðabliks,“ sagði Willum Þór Þórsson, þjálfaði Keflavíkur.