„Þetta var mjög tilkomumikið. Ég sá bergið klofna við efstu brún og falla svo áttatíu til hundrað metra niður.

„Þetta var mjög tilkomumikið. Ég sá bergið klofna við efstu brún og falla svo áttatíu til hundrað metra niður. Því fylgdi síðan mikil gusa,“ segir Haraldur Sverrisson, skipstjóri á Sporði VE, sem varð vitni að því þegar mikil fylla féll úr norðausturhorni Bjarnareyjar um þrjúleytið aðfaranótt þriðjudags.

Haraldur, sem er á strandveiðum, var kominn út að Klettsnefinu í innsiglingunni í Eyjum þegar hann sá þetta gerast, en frá Klettsnefinu út að Bjarnarey er um það bil ein og hálf sjómíla.

„Ég sigldi út að Bjarnarey og sá þar sem kominn er tangi þar undir sem fyllan kom fram, enda féllu þarna niður björg sem eru tugir ef ekki hundruð tonna. Þarna var áður þverhnípt í sjó fram. Það var mjög sérstakt að sjá þetta gerast,“ segir Haraldur, sem telur að þessar hræringar megi rekja til frostsprungna.

Björg féllu úr Bjarnarey fyrir nokkrum dögum og telur Haraldur að tæplega sé hægt að setja þessar hræringar í samhengi við eldgosið í Eyjafjallajökli.

Gunnlaugur Erlendsson, skipstjóri á Þór, björgunarskipi Björgunarfélags Eyjamanna, sigldi frá Eyjum upp í Bakkafjöru um nóttina en á leiðinni til baka sigldu skipverjar fram hjá eynni.

„Eyjan hefur öðlast alveg nýjan svip með þessu. Það hafa ábyggilega þúsundir tonna fallið þarna niður. Þetta er ótrúlegt,“ sagði Gunnlaugur. sbs@mbl.is