Sigur Framarinn Almarr Ormarsson er kominn framhjá Eyjamanninum Yngva Magnúsi Borgþórssyni.
Sigur Framarinn Almarr Ormarsson er kominn framhjá Eyjamanninum Yngva Magnúsi Borgþórssyni. — Morgunblaðið/hag
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á vellinum Skúli Unnar Sveinsson skuli@mbl.is „Þetta var þrumuskot!“ sagði Ívar Björnsson brosandi út í bæði um síðara mark Fram, sem hann gerði á 56. mínútu gegn ÍBV í gærkvöldi.

Á vellinum

Skúli Unnar Sveinsson

skuli@mbl.is

„Þetta var þrumuskot!“ sagði Ívar Björnsson brosandi út í bæði um síðara mark Fram, sem hann gerði á 56. mínútu gegn ÍBV í gærkvöldi. „Það var bara gamla góða táin, laust og hnitmiðað í bláhornið. Skotin þurfa ekki alltaf að vera föst,“ sagði Ívar réttilega.

Fyrra markið var einnig nokkuð sérstakt, en það gerði Tómas Leifsson strax á fjórðu mínútu með skoti frá vítateigslínu hægra megin. Tómas hló þegar hann var spurður hvort hann hefði ætlað að senda fyrir. „Nei, þetta var klárlega skot. Ég ætlaði að láta hann detta yfir Albert og í markið, en þetta tókst svona rosalega vel hjá mér,“ sagði Tómas.

Framarar virtust til alls líklegir, fengu óskabyrjun og léku vel framan af og komust nokkrum sinnum upp kantana en náðu ekki að nýta það nægilega vel. Það virtist hafa þau áhrif að leikmenn bökkuðu fullmikið í stað þess að halda áfram að leika eins og þeir höfðu gert. „Já, við duttum fullmikið niður þarna í seinni hálfleiknum, en mér fannst við allan tímann vera með þennan leik í höndum okkar. Mér fannst þeir aldrei ógna okkur alvarlega,“ sagði Tómas um leikinn.

Eftir fjörlega byrjun þar sem Framarar sóttu ótt og títt á þremur sprækum leikmönnum, Tómasi, Ívari og Hjálmari Þórarinssyni, datt botninn aðeins úr leiknum. Heimamenn voru nokkrum sinnum nærri því að koma sér í ákjósanleg færi, en voru fulllengi að athafna sig þannig að ekkert varð úr. En liðið er gríðarlega vel skipulagt og menn börðust vel og lögðu sig alla fram. Sérstaklega eru Framarar snöggir að koma sér í stöðu til að verjast þegar þeir missa knöttinn.

Það hljómar sjálfsagt eins og gömul lumma að tala um að vorbragur hafi verið á leik liðanna, en engu að síður varð það raunin. „Við byrjuðum ágætlega og af miklum krafti en síðan duttum við aðeins til baka. Þetta er fyrsti leikur okkar og menn þurfa að venjast grasinu enda höfum við ekki æft mikið á grasi. Völlurinn var líka blautur og nokkuð þungur. Við þurfum að venja okkur á að vera tilbúnir að halda áfram þegar við komumst yfir – drepa bráðina alveg. Mér fannst þessi leikur lofa ágætu hjá okkur, það komu fínir kaflar og við höldum áfram og vinnum okkur áfram út frá því,“ sagði Ívar eftir leikinn.

Varnarlínan hjá Fram virkar traust, miðverðirnir báðir, Kristján Hauksson og Jón Guðni Fjóluson, mjög öruggir og bakverðirnir einnig. Miðjumennirnir áttu einnig alveg þokkalegan dag í gær og liðið er með fínan mannskap til að sækja hratt og skora talsvert af mörkum.

Eyjamenn voru daprir í gær. Denis Sytnik, nýr leikmaður liðsins sem er frá Úkraínu, átti fínan leik, hraður og fylginn sér, en virðist dálítið mikið einfættur. Þórarinn Ingi Valdimarsson átti ágæta spretti á miðjunni en flestir eiga leikmenn liðsins að geta betur en þeir sýndu í gær.

Fram – ÍBV 2:0

Laugardalsvöllur, Pepsi-deild karla, 1. umferð, 11. maí 2010.

Skilyrði : Logn, völlur blautur en annars í ágætu standi.

Skot : Fram 15 (9) – ÍBV 10 (5).

Horn : Fram 6– ÍBV 5.

Lið Fram : (4-3-3) Mark : Hannes Þór Halldórsson. Vörn : Daði Guðmundsson, Kristján Hauksson, Jón Guðni Fjóluson, Samuel Tillen. Miðja : Almarr Ormarsson, Halldór Hermann Jónsson, Jón Gunnar Eysteinsson. Sókn : Tómas Leifsson (Joseph Tillen 66.), Ívar Björnsson (Hlynur Atli Magnússon 80.), Hjálmar Þórarinsson (Guðmundur Magnússon 87.).

Lið ÍBV : (4-5-1) Mark : Albert Sævarsson. Vörn : Eiður Aron Sigurbjörnsson, Yngvi Magnús Borgþórsson, Andri Ólafsson, Matt Paul Garner. Miðja : Eyþór Helgi Birgisson Hjálmar Viðarsson 76.), Tonny Mawejje (Gauti Þorvarðarson 58.), Tryggvi Guðmundsson (Anton Bjarnason 68.), Finnur Ólafsson, Þórarinn Ingi Valdimarsson. Sókn : Denis Sytnik.

Dómari : Jóhannes Valgeirsson – 5.

Áhorfendur : 749.

Þetta gerðist á Laugardalsvelli

1:0 4. Glæsilegt mark hjá Fram. Tómas Leifsson fékk boltann á hægri kantinum, lék upp að vítateignum og sendi boltann í boga yfir markvörðinn og datt boltinn neðst í hornið fjær.

2:0 56. Framarar komust í skyndisókn þrír á móti þremur og Jón Gunnar Eysteinsson renndi boltanum út á Ívar Björnsson vinstra megin. Hann lék áfram að vítateig og sendi boltann með lausu táarskoti í bláhornið hægra megin.

Gul spjöld:

Tonny Mawejje (ÍBV) 15. (brot), Matt Garner (ÍBV) 28. (brot), Denis Sytnik (ÍBV) 40. (brot), Tryggvi Guðmundsson (ÍBV) 55. (brot), Þórarinn Ingi Valdimarsson (ÍBV) 84. (mótmæli).

Kristján Hauksson (Fram) 84. (brot).

Rauð spjöld:

Engin.

MMM

Engin.

MM

Engin.

M

Kristján Hauksson (Fram)

Samuel Tillen (Fram)

Tómas Leifsson (Fram)

Jón Guðni Fjóluson (Fram)

Denis Sytnik (ÍBV)

*Fram eftir degi var óljóst hvort Eyjamenn kæmust í leikinn vegna öskufalls en það tókst.

* Tryggvi Guðmundsson lék nú á ný með ÍBV eftir langa fjarveru, en hann er Eyjamaður.

* Hjálmar Viðarsson kom inn á hjá ÍBV og lék sinn fyrsta leik í efstu deild. Denis Sytnik frá Úkraínu var í liði ÍBV og spilaði fyrsta deildaleik sinn hér á landi. Hann stóð sig ágætlega.

Slappur leikur

„Ég er ágætlega sáttur við leik liðsins. Það gekk upp sem við lögðum upp með, menn lögðu sig fram og voru duglegir og það er það sem maður væntir eftir að vera búnir að æfa allan veturinn,“ sagði Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram, eftir leikinn.

„Okkur tókst að ná í þrjú stig í fyrsta leik og maður er ánægður með það því menn eru oft dálítið hræddir við fyrsta leik og vita ekki alveg hvernig málin þróast. Mér fannst við taka leikinn föstum tökum lengstum þó svo það væri kafli í fyrri hálfleik þar sem við drógum aðeins af okkur.

Við getum þó að sjálfsögðu bætt margt og stefnum að því að gera það og safna fleiri stigum.“

Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV, var að vonum ekki eins ánægður og Þorvaldur. „Mér fannst þessi leikur frekar slappur fótboltaleikur og lítið fyrir augað. Við hittum á Framara sem áttu ekki góðan dag heldur og því er það frekar sárt að ná ekki að leggja þá þegar maður hittir á slakan dag hjá þeim.

Við verðum að gera betur í framhaldinu. Við skoðum þennan leik, hann var alls ekki alslæmur, og reynum að byggja ofan á hann fyrir næsta leik,“ sagði Heimir sem þvertók fyrir að ferðalagið hefði setið í leikmönnum. „Nei, nei, við erum alvanir að ferðast á allan mögulegan hátt,“ sagði Heimir. skuli@mbl.is