Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður VG, bíður í ofvæni þessa dagana. Ástæða eftirvæntingarinnar er ekki aðeins að fá tækifæri til að beygja sig eina ferðina enn fyrir kröfum Samfylkingarinnar.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður VG, bíður í ofvæni þessa dagana.

Ástæða eftirvæntingarinnar er ekki aðeins að fá tækifæri til að beygja sig eina ferðina enn fyrir kröfum Samfylkingarinnar. Það er vitaskuld spennandi og formaður VG er þegar byrjaður að beygja sig vegna ráðuneyta og ráðherramála. Sú beygja er þó ekkert á við þá sem fjármálaráðherra stefnir að á Bretlandseyjum.

Steingrímur J. Sigfússon upplýsti um það í gær að eitt af því fyrsta sem hann mundi gera þegar nýir ráðherrar tækju við í viðskiptaráðuneyti og fjármálaráðuneyti í Bretlandi væri að hafa samband við þá.

Það er ekki fyrir kurteisissakir til að óska nýjum mönnum til hamingju. Nei, Steingrímur hefur fundið út að þá sé „mögulegt að koma hreyfingu á málið“.

Hvaða mál skyldi það nú vera sem íslenski ráðherrann telur að þoli enga bið að koma hreyfingu á? Jú, Steingrímur telur að ekki sé seinna vænna að ná samkomulagi um það við Breta að íslenskir skattgreiðendur taki á sig Icesave-skuldir þrotabús Landsbankans.

Nú er það að vísu svo að lögum að Íslendingum ber ekki að greiða þessa skuld. Það má til dæmis sjá með lestri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Steingrímur er engu að síður staðráðinn í að verða fyrstur á biðstofu kollega síns í Lundúnum til að skuldsetja íslensku þjóðina.