Flestar lokanir sem fyrirhugaðar eru á heilbrigðisstofnunum í sumar eru af svipuðum toga og verið hefur undanfarin sumur, þótt sums staðar sé lokunartímabilið heldur lengra. Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Ragnheiðar E.

Flestar lokanir sem fyrirhugaðar eru á heilbrigðisstofnunum í sumar eru af svipuðum toga og verið hefur undanfarin sumur, þótt sums staðar sé lokunartímabilið heldur lengra. Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Ragnheiðar E. Árnadóttur, Sjálfstæðisflokki, á Alþingi.

Fram kemur að á Landspítalanum hefur verið gefin út áætlun um sumarlokanir og verður starfsemin svipuð og sumarið 2008, sem þýðir að þeim rýmum sem nýtt verða fækkar úr um 700 í um 600 í sjö vikur í sumar. Af 18 skurðstofum Landspítalans verður átta lokað um sjö vikna skeið, en tveimur að auki í skemmri tíma. Göngudeildarþjónusta verður óbreytt sem og fæðingarþjónusta en nokkur samdráttur verður á kvenlækningadeild.

„Á Sjúkrahúsinu á Akureyri verður hefðbundinn samdráttartími vegna sumarleyfa heldur lengri en undanfarin ár. Dregið verður úr starfsemi skurðstofa og hún minnkuð um þriðjung frá miðjum maí og fram í byrjun september en rekin á hálfri getu frá miðjum júlí fram í miðjan ágúst. Aðrar deildir sem tengjast skurðstofum draga úr starfsemi á sama hátt,“ segir meðal annars í svari ráðherrans.