Hefur nóg að gera Ástþór Óðinn rekur sitt eigið hljóðver og sendi frá sér plötu nýverið. Á myndinni er Ástþór Óðinn til vinstri og Kristinn F. Birgisson eða Ká eff bé úr Stjörnuryki.
Hefur nóg að gera Ástþór Óðinn rekur sitt eigið hljóðver og sendi frá sér plötu nýverið. Á myndinni er Ástþór Óðinn til vinstri og Kristinn F. Birgisson eða Ká eff bé úr Stjörnuryki.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jónas Margeir Ingólfsson jonasmargeir@mbl.is „Ég byrjaði að fikta í tónlist þegar ég var átján ára, en fór að taka þessu alvarlega um tvítugt.

Jónas Margeir Ingólfsson

jonasmargeir@mbl.is

„Ég byrjaði að fikta í tónlist þegar ég var átján ára, en fór að taka þessu alvarlega um tvítugt. Þá gaf ég út mína fyrstu plötu, Operation on the Mic , undir nafninu Iceberg,“ segir hipphopp-tónlistarmaðurinn Ástþór Óðinn Ólafsson. „Eftir það stofnaði ég hljómsveitina 2 Leikmenn með Sigurði Ingólfssyni. Við gáfum út plötuna Í sitthvoru horninu .“ Hann hefur nú sagt skilið við listamannsnafnið Iceberg og gaf út nýjustu plötu sína Both Ways undir eigin nafni „Ég vann að þessari plötu í tvö ár. Mér fannst þá nafnið Iceberg bara orðið kjánalegt, ef ég á að segja alveg eins og er. Það var bara tímabundið,“ segir hann og hlær.

Ástþór Óðinn semur sína eigin tónlist og tekur hana upp sjálfur, enda menntaður í hljóðblöndun. „Ég lauk diplómanámi í upptökustjórn og hljóðblöndun við SAE í London. Platan var tekin upp í litlu stúdíói heima hjá mér í Njarðvík. Ég annaðist því sjálfur upptökustjórn á Both Ways, en Axel Árnason í Sýrlandi sá um lokahljóðblöndun.“ Plötuna er hægt að nálgast á netinu, til dæmis á vefnum Gogoyoko.com. „Ég hef ekki haldið eiginlega útgáfutónleika því ég gaf plötuna út rafrænt, þá hefur maður ekki plötur sem má selja á staðnum til að kynna efnið og koma því á framfæri. En ég hef komið fram víða í vetur,“ segir Ástþór og bætir við að hann hafi nóg að gera í tónlistinni, bæði við að spila og stjórna upptökum í hljóðveri. „Ég kom fram á rokkhátíðinni Aldrei fór ég suður með hljómsveitinni Stjörnuryki frá Ísafirði. Svo spilaði ég í Smáralind á styrktartónleikum ABC barnahjálpar.

Ég hef líka komið fram á minni stöðum eins Glóðinni. En samhliða þessu rek ég einnig mitt eigið hljóðver í Kópavogi, On and on studio.“

Ekki algeng tónlistarblanda á tónleikum.

Ástþór Óðinn stendur nú fyrir tónleikum í samstarfi við Sódómu Reykjavík þann 13. maí. Þeir bera yfirskriftina Hipphopp vs. rokk . Þar koma fram hljómsveitirnar Nögl, Stjörnuryk, Narfur, Orri Err, No Matches ásamt Ástþóri Óðni. ,,Rokkhljómsveitin Nögl spilaði með mér á tónleikum í vetur.

Mér fannst það koma skemmtilega út og ákvað því að smala nokkrum hljómsveitum saman til að halda sameiginlega hipphopp- og rokktónleika, enda ekki algeng tónlistarblanda á tónleikum. Það hefur kannski ekki alltaf verið neitt rosalega gott á milli hipphopps og rokks,“ segir Ástþór sposkur og bætir fljótt við: „En Orri Err er góður vinur minn og strákarnir í Stjörnuryki líka. Við Orri gáfum út lagið „Elsku vinur“ saman og ég hef áður komið fram með Stjörnuryki.“

Ákváðu að styrkja ABC barnahjálp

Hljómsveitirnar tóku þá ákvörðun í sameiningu að láta allan ágóða af tónleikunum renna til ABC barnahjálpar. „Við tókum þessa ákvörðun að láta ágóðann renna til ABC. Tónleikarnir eru samt ekki á þeirra vegum, við viljum bara láta gott af okkur leiða. Ég fékk þessa hugmynd eftir að hafa komið fram ásamt Stjörnuryki á tónleikum á vegum ABC barnahjálpar fyrr í vetur. Við ákváðum því að endurtaka leikinn. Þó svo að ABC standi ekki fyrir þessum tónleikum þá verða starfsmenn á þeirra vegum sem rukka inn. Það kostar því fimm hundruð krónur inn og fólk getur þannig verið visst um að peningurinn renni örugglega til ABC,“ segir Ástþór hlæjandi og hvetur sem flesta til að mæta og styrkja málefnið.

TÓNLEIKAR TIL STYRKTAR ABC BARNAHJÁLPAR

Hipp-hopp vs. rokk

Fimmtudaginn 13. maí verða haldnir tónleikar á vegum Ástþórs Óðins í samstarfi við Sódómu Reykjavík. Eins og yfirskrift tónleikanna gefur til kynna koma fram rokkhljómsveitir ásamt hipp-hopp tónlistarmönnum. Það eru heldur ólíkar tónlistarstefnur og því má búast við áhugaverðum tónleikum.

Ástþór Óðinn hefur getið sér gott orð í íslenskri hipp-hopp tónlist og gefið út þrjár plötur. Lög hans, á borð við Mamma , ásamt söngkonunni Margréti Eddu Jónsdóttur , Í gegnum tímans rás og Windows hafa komist í spilun í sjónvarpi og útvarpi. Ásamt Ástþóri Óðni koma einnig fram hljómsveitirnar Nögl, Stjörnuryk, Narfur, Orri Err og No Matches.

Hljómsveitin Stjörnuryk samanstendur af fjórum röppurum frá Ísafirði sem kalla sig Ká Eff Bé, Prinsinn, Rattó og Geira. Þeir vinna nú að plötu en á henni má finna lagið Hættum að borga , sem vakti einhverja athygli á netinu.

Orri Err er ungur rappari sem hefur starfað með Ástþóri Óðni og hafa þeir félagar m.a. gefið út lagið Elsku vinur.

Af rokksveitum tónleikanna eru strákarnir í Nögl eflaust þekktastir. Þeir gáfu nýlega út plötuna I proudly present sem inniheldur lögin Promise og My World sem hafa verið í töluverðri spilun á X-inu 97,7. Sveitin er þekkt fyrir fjöruga og kraftmikla sviðsframkomu sem veldur tónleikagestum sjaldnast vonbrigðum.

Rokksveitirnar No Matches og Narfur tóku báðar þátt í Músíktilraunum 2010. No Matches eru fjórir drengir úr Reykjavík sem vöktu helst athygli fyrir líflega sviðsframkomu á Músíktilraunum. Hljómsveitin Narfur samanstendur af fimm strákum frá Eyrarbakka. Þeir hafa starfað í fjögur ár þrátt fyrir einhverjar mannabreytingar .

Það má því búast við fjölbreyttum tónleikum á Sódómu hinn 13. maí. Miðaverð er fimm hundruð krónur og ágóðinn rennur óskiptur til ABC barnahjálpar.