Þegar bankarnir hrundu voru spunameistarar fljótir að kenna frjálshyggju um. Nú þegar hallarekstur gríska ríkisins hefur komið því í greiðsluvandræði munu þessir meistarar ekki komast að þeirri augljósu niðurstöðu að ríkisrekstur sé orsök vandans, þ.e. skortur á frjálshyggju. Þeir munu bara komast að þeim fyrirframgefnu niðurstöðum sem þjóna hagsmunum þeirra og trú á ríkið.
Raunveruleikinn er sá að ríki, hvort sem um er að ræða hið gríska eða hið íslenska, lenda ekki í greiðsluvandræðum nema vegna ríkisrekstrar – þ.e. skorts á frjálshyggju. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var kallaður til á Íslandi vegna skuldavanda ríkisins. Ef frjálshyggja er við lýði er skuldavandi ríkja ekki til.
Eins og skuldavandi gríska ríkisins er til kominn af ríkisrekstri er skuldavandi íslenska ríkisins til kominn af ríkisábyrgð á bönkum og útgáfu ríkismyntar í gegnum ríkisseðlabanka, sem er eitt form skuldsetningar ríkisins. Við öllu þessu hefur frjálshyggjan varað, sem og þeirri bólumyndun og áhættusækni banka sem þetta hefur í för með sér. Frjálshyggjan er andsnúin skuldasöfnun og ábyrgðaryfirlýsingum ríkja.
Eins einfalt og þetta er, hafa svokallaðir fræðimenn á vegum meints háskóla boðað að hvítt sé svart og svart sé hvítt, eins og fram kom í grein Sveins Tryggvasonar í Morgunblaðinu fyrir nokkrum dögum. Meintur háskóli hleypir ekki einu sinni að gagnstæðum sjónarmiðum, þótt varla geti hann borið við vanþekkingu á því að þau séu til.
Almenningur þarf að vakna til vitundar um að það sem honum er sagt í fjölmiðlum um bankahrunið er rangt. Það er nauðsynlegt til þess að ekki sé áfram haldið í þveröfuga átt við það sem kreppan ætti að kenna.
Höfundur er framkvæmdastjóri.