Músíkant Helgi Júlíus kann vel við sig með gítarinn í fanginu og hann ætlar að halda áfram að semja tónlist og gefa afraksturinn út.
Músíkant Helgi Júlíus kann vel við sig með gítarinn í fanginu og hann ætlar að halda áfram að semja tónlist og gefa afraksturinn út. — Morgunblaðið/Golli
Hann sinnir hjörtum annarra þegar hann mætir í vinnuna en í frítímanum tekur hann til við að sinna sínum eigin hjartansmálum, tónlistinni.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Mér fannst kominn tími til að sinna áhugamálunum betur svo ég ákvað að gefa mér meiri tíma í tónlistina sem er mér mjög kær,“ segir Helgi Júlíus Óskarsson hjartalæknir en hann hefur búið í Bandaríkjunum undanfarin 24 ár ásamt fjölskyldu sinni. Hann gaf nýlega út hljómdisk, Sun for a lifetime. Þar er að finna þrettán lög og texta eftir hann.

„Tónlist hefur alltaf verið stór hluti af lífi mínu. Ég hef spilað svolítið á gítar í gegnum tíðina og lærði um tíma hjá Jóni Páli djassgítarleikara og svo lærði ég líka á píanó þegar ég var krakki. Einnig lærði ég á píanó í þrjá til fjóra mánuði þegar ég var táningur. Ég spila þó í dag eingöngu eftir eyranu og hvorki les né skrifa nótur af neinu viti.“

Blús, djass, kántrí og fleira

Helgi Júlíus segir að gítarinn hafi alltaf verið með í för hér áður fyrr, bæði í ferðalögum og samkvæmum. „Þá spilaði ég gjarnan vinsæla slagara og þessi klassísku útilegulög. Svolítið öðruvísi en lögin á nýju plötunni minni,“ segir hann og hlær. „Í gegnum árin hafa orðið til nokkur lög þegar ég hef verið að söngla með gítarinn. Síðustu tvö ár hef ég þó lagt mig sértaklega eftir því að semja lög og síðan texta líka.“

Stíll tónlistarinnar sem Helgi Júlíus semur er mjög misjafn, allt frá blús og djassi yfir í kántrí, suðurameríska músík og þjóðlagamúsík. Og nóg er til. „Í raun á ég efni á nokkrar plötur og ég er ákveðinn í að gefa út aðra plötu fyrir lok ársins.“

KK birtist mér í draumi

Draumar koma við sögu í tildrögum þess að Helgi Júlíus gaf út diskinn sinn.

„Fyrir ári tók ég að ganni upp nokkur lög og spilaði þau fyrir frænda minn, Grím Helgason klarinettuleikara. Hann stakk upp á að ég gæfi eitthvað af þessu út, en ég hló bara að honum og fannst það eins og hvert annað grín. En svo dreymdi mig draum þar sem ég var að spila sum laga minna með Kristjáni Kristjánssyni, betur þekktum sem KK, en ég tek það fram að ég þekkti hann ekki neitt. Konan mín er áhugasöm um drauma og hún sagði alveg ljóst að þetta væri merki um að ég ætti að biðja KK um að hjálpa mér við að gefa lögin mín út. Ég taldi það af og frá. En þar sem ég vissi að Kristján hefur orð á sér fyrir að vera mjög alþýðlegur maður sló ég til og sendi honum tölvupóst og sagði honum frá þessari hugdettu að gefa út tónlist eftir sjálfan mig. Hann tók vel í að hlusta á nokkrar upptökur og eftir að hafa gert það hittumst við aftur og spjölluðum. Hann var mjög jákvæður og uppörvandi og bauðst til að finna mann til að vinna í þessu með mér og sá maður var Svavar Knútur trúbador, sem ekki aðeins aðstoðaði við útsetningar, heldur sá líka um hljóðfæraleik, söng og fékk aðra hljófæraleikara til að spila eins og þurfti.“

Fjölskyldan tók líka þátt

Eftir það fór boltinn að rúlla og Helgi Júlíus og Svavar Knútur völdu lögin þrettán sem áttu að fara á diskinn. Við bárum saman bækur okkar nokkrum sinnum í stofunni heima í Fossvogi. Ég gerði mér strax ljóst hversu mikill listamaður Svavar er. Hann hefur einstaka tilfinningu fyrir tónlist og útsetningum. Hann var sem betur fer á sömu línu og ég, að hafa hlutina einfalda. Okkur kom mjög vel saman og það var alveg frábært að vinna með Svavari. Ég og Gerða konan mín lítum núna á hann sem vin og félaga meira en nokkuð annað. Þegar kominn var rammi til að vinna eftir var æft með Ingó bassaleikara og Þorvaldi trommara uppi í FÍH og síðan haldið af stað í Stúdíó Sýrland í Hafnarfirði hjá Guðmundi Kristni Jónssyni, eða Kidda.“

Stúdíó Sýrland er ævintýr

Helgi Júlíus segir að það hafi verið alveg ný veröld fyrir hann að koma í Sýrlandið. „Ég hef notast við lítið krúttlegt upptökutæki heima hjá mér en að koma inn í Sýrland er eins og að koma inn í ævintýraland, með öllum þeim tækjum og hljóðfærum sem þar eru. Kiddi tók okkur líka svo vel, hann var afskaplega þægilegur og gott að vinna með honum, bæði jákvæður og uppörvandi. Ég bjóst við stressandi umhverfi en það var nú langt því frá. Þetta var mjög skemmtilegur tími og í lokin var Kiddi farinn að kenna mér alls konar stúdíóprinsipp þegar við vorum að vinna við upptökur og hljóðblöndun. Ég vona að í framtíðinni geti ég gert sumt af þessari stúdíóvinnu sjálfur.“

Helgi Júlíus segir að Svavar Knútur hafi lagt áherslu á að fjölskylda Helga kæmi að gerð disksins. „Það vill svo til að við erum öll að fást eitthvað við tónlist. Hróðmar Helgi sonur minn spilar á gítar á diskinum, Gerða konan mín syngur bakrödd í einu lagi og dóttir mín Unnur Ýrr hannaði umslagið. Eva Björk, systurdóttir Gerðu, syngur líka tvö lög á plötunni.“

Vilja vera meira á Íslandi

Helgi Júlíus segir ástæðu þess að meirihluti laganna er sunginn á ensku einfaldlega vera þá að hann lifir og hrærist í ensku málsamfélagi. „En við Gerða erum að færa okkur meira hingað heim til Íslands og ég er búinn að ákveða að syngja öll lögin á íslensku á næsta diski. Núna eru börnin okkar þrjú öll flutt heim til Íslands og barnabörn farin að bætast í hópinn. Við viljum eyða meiri tíma á Íslandi í nálægð við fjölskyldu og vini. Ég ákvað því að minnka við mig vinnuna úti í Bandaríkjunum. Ég hef verið um tíma í hlutastarfi hér á Íslandi við Hjartamiðstöðina og kynnt mér þannig hvernig væri að vinna hér heima eftir að hafa unnið sem hjartalæknir í Bandaríkjunum í rúma tvo áratugi, en þar er gífurleg vinnuharka. Maður vinnur 12-14 tíma á dag. Þegar maður er kominn á miðjan aldur þá endurmetur maður líf sitt og við hjónin hugsuðum okkar stöðu upp á nýtt. Núna ætlum við að sinna betur þeim málum sem við höfum ekki gefið okkur tíma til, meðal annars að ferðast.“

Helgi Júlíus gefur út plötuna sjálfur og starfar sem sinn eigin umboðsmaður. Hann hefur komið diskinum sínum í sölu hjá Eymundsson, Skífunni, Tólf tónum og Smekkleysu.

„Ég fór ekki út í þetta til að græða, þetta er fyrst og fremst sköpunarþörf hjá mér. En vissulega væri ágætt að fá upp í kostnað að mestu leyti, því það kostar sitt að gefa út disk.“