Skriffinnska
Ég hef í nokkur ár haft á póstkassanum mínum miða með áletrun, sem hefur nær alveg verndað mig gegn tugum kílóa af gagnslausu prentverki. En svo bar það til að miði þessi hvarf, en hann var límdur á, hver sem þar hefur verið að verki.Því rölti ég á pósthúsið, sem er hinum megin við götuna, að fá nýjan miða. Það var allt í lagi og alúðleg afgreiðslustúlka tók mér vel, en rétti mér A4-örk þar sem ég skyldi útfylla ákveðna reiti. Þegar ég hváði svaraði hún að þessir miðar væru ekki á pósthúsinu, heldur afgreiddir, að mér skildist, frá einhverjum stað utan Reykjavíkur.
Sem sagt að ég þyrfti að útfylla blað með nafni, kennitölu, húsnúmeri, póstsvæði, heimasíma, gsm-síma, netfangi og held ég að þá sé allt talið. Ég þurfti ekki að geta um skónúmer, sem að mig minnir er 42, eða fatanúmer, sem er 50 eða 51, en þið þurfið ekki að segja frá því. Skýringin á þessari skriffinnsku væri að miðinn er eign póstsins og hann þarf að vita hvar eigur hans eru hverju sinni. Miðinn kæmi svo í pósti eftir um tvær vikur.
Því er ekki hægt að afhenda miðann á staðnum? Hvað kostar þetta blað sem þarf að útfylla, og pósturinn þarf að taka við og senda á sinn stað? Þarf fólk til þess að taka á móti, líklega að skrá umsóknina, taka til miðann, setja hann í umslag, koma eyðublaðinu í sína möppu, því varla er því hent strax, síðan að senda miðann og starfsmaður þarf svo að bera bréfið út og þá loks get ég límt miðann á sinn stað og vona innilega að hann tolli þar. Ég hef ekki reynt að reikna út hvað pappírskostnaður, vinnulaun og flutningskostnaður er mikill, en auðvitað fær ríkið sinn vsk og jafnvel smáskatt og veitir nú víst ekki af. En hvað með mengunina sem ég held að vísu að sé orðin skattlögð og hvað með eyðingu skóga sem ég hélt að væri nóg af?
Þetta er sennilega ekki eitt af stóru málunum um þessar mundir, en samt eins og einhver sagði: margt lítið gerir eitt mikið. Það er allt í lagi að minnast á svona mál líka og vita ástæðuna að baki þessum fáránleika.
Guðmundur.
Svarað í síma 5691100 frá 10-12