[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FRÉTTASKÝRING Eftir Ágúst Inga Jónsson aij@mbl.

FRÉTTASKÝRING

Eftir Ágúst Inga Jónsson

aij@mbl.is

Fram kemur að í skýrslu sérfræðinga við Háskólann á Akureyri um áhrif fyrningarleiðar í sjávarútvegi að verð á kvóta hækkaði nær stöðugt frá ársbyrjun 1995 þegar verðið var 260 krónur á kíló til júní 2008 þegar verðið náði hámarki í 3.800 krónur á kíló. Verðið er nú um 1.800 kr/kg og virðist hafa náð botni, að því er segir í skýrslunni.

Helstu ástæður hækkana á verði aflahlutdeildar 1995-2001 eru taldar bætt afkoma fyrirtækjanna og breytingar á úthlutun heildarafla. Ástæður hækkunar á verði 2002-2007 hafi síðan verið vegna bætts aðgengis að lánsfé og ódýrara fjármagns.

„Í samræmi við þetta nær verð aflahlutdeildar hámarki um mitt ár 2008 en fellur mikið í kjölfar bankahrunsins. Verð aflahlutdeildarinnar lækkar seinni part ársins 2008 þrátt fyrir gengishrun krónunnar og aukna framlegð sem hefði undir eðlilegum kringumstæðum átt að leiða til hækkunar. Því hefur aðgengi að fjármagni verið lykilþáttur síðustu árin í þróun á verði aflahlutdeildar. Auk þessa er líklegt að óvissa um framtíð núverandi kvótakerfis hafi leitt til lækkana á verði aflahlutdeildar frá árinu 2008,“ segir í skýrslu Akureyringanna.

Verulegar álögur

Daði Már Kristófersson, dósent við Háskóla Íslands, kannaði einnig áhrif innköllunarleiðarinnar fyrir starfshópinn, sem vinnur að endurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu. „Mínar niðurstöður eru allar á einn veg. Vegna þess hversu þroskað þetta kvótakerfi er og hversu mikið af aflaheimildum hefur skipt um hendur síðan það var sett upp og lítið af aflaheimildum er í upprunalegri eigu í dag hefði innköllun verulegar álögur í för með sér fyrir útveginn,“ segir Daði.

Spurður um áhrif þess að aflaheimildir yrðu innkallaðar á 20 árum með 5% jafnri fyrningu segir Daði að slík aðgerð myndi ríða þeim fyrirtækjum að fullu, sem hafa keypt sig inn í kvótakerfið á síðustu 10 árum.

„Að eiga kvóta hefur verið mikils virði og verð á kvóta hefur verið mjög hátt. Um leið og ákvörðun er hins vegar tekin um 5% árlega fyrningu rýrir það þessa eign um 50%, en sá sem keypti kvóta stóð hugsanlega í þeirri trú að hann hefði 10-15-20 ár til að greiða kostnaðinn niður. Menn geta deilt um hversu skynsamur viðkomandi var að kaupa kvóta miðað við að þetta gæti verið ótrygg eign, en ég var ekki beðinn um að taka afstöðu til þess. Ef meðaltölin um afkomu sjávarútvegsins eins og þau birtast í tölum Hagstofunnar eru skoðuð er ljóst að kostnaðurinn verður mjög mikill og þetta mun valda mörgum fyrirtækjum miklum búsifjum,“ segir Daði.

Veruleg áhrif

Innköllun hefur veruleg áhrif á verðmæti veiðiheimilda, segir í skýrslu Akureyringanna:

„Ef kvóti er ekki innkallaður heldur eilíf eign hefur vísitala á virði kvóta gildið 1,0. Hins vegar við 5% árlega innköllun hefur vísitalan gildið 0,43 þegar núvirt er með 7% ávöxtunarkröfu. Þetta þýðir að kvóti sem hefur virðið 1.000 kr/kg fyrir innköllun á að lækka strax í 430 kr/kg þegar ákveðið er að innkalla núverandi kvóta á 20 árum. Ef innköllun er 10% þ.e. kvótinn er innkallaður á 10 árum er vísitalan 0,25 þ.e. 75% af verðmætum kvótans hverfa strax við ákvörðunina,“ segir í skýrslu HA.

1250 milljónir króna í veiðigjald í ár

Sjávarútvegurinn greiðir á þessu fiskveiðiári um 1250 milljónir króna í veiðigjald. Það er lagt á samkvæmt ákveðnu hlutfalli af framlegð greinarinnar í heild og er núna 9,5%.

Fiskveiðiárið 2008-09 greiddi útvegurinn 170 milljónir í veiðigjald og 436 milljónir fiskveiðiárið 2007-08. Tvö síðarnefndu árin var gjaldið 4,8% af framlegð fiskveiða og var lækkað tímabundið vegna niðurskurðar í þorski.

Aðlögunarhæfni

Í lokaorðum skýrslu Háskólans á Akureyri segja skýrsluhöfundar: „Reynslan hefur sýnt að sveigjanleiki og aðlögunarhæfni íslensks sjávarútvegs er mikil. Líklegt má telja að ef reikningar um rekstrarhorfur sjávarútvegsins hefðu verið gerðir fyrir áratug eða svo og settar inn þær forsendur að eftir nokkur ár myndi þorskkvóti fara lægst niður í 130 þús. tonn samfara því að olíuverð færi upp í 140 USD/tunnur þá hefðu þeir reikningar sýnt fjöldagjaldþrot í greininni og nánast sviðna jörð.

Það gerðist hins vegar ekki. Greininni tókst furðu vel að aðlaga sig nýjum aðstæðum.“