Patrekur Jóhannesson
Patrekur Jóhannesson
Eftir Ívar Benediktsson iben@mbl.is Patrekur Jóhannesson, þjálfari karlaliðs Stjörnunnar í handknattleik, liggur nú undir feldi og veltir fyrir sér tilboði um að taka við þjálfun þýska 2. deildarliðsins TV Emsdetten.

Eftir Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Patrekur Jóhannesson, þjálfari karlaliðs Stjörnunnar í handknattleik, liggur nú undir feldi og veltir fyrir sér tilboði um að taka við þjálfun þýska 2. deildarliðsins TV Emsdetten. „Ég hef bara ekki hugmynd um hvað ég á að gera og er mjög tvístígandi,“ sagði Patrekur í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi.

Með TV Emsdetten leikur m.a. Hreiðar Levy Guðmundsson landsliðsmarkvörður. Liðið situr í öðru sæti norðurriðils 2. deildar og fer í umspilskeppni um sæti í 1. deild á næsta keppnistímabili. Núverandi þjálfari Emsdetten, Daninn Lars Walther, sem lék með KA fyrir um áratug, hefur fyrir nokkru ráðið sig til félagsliðs í Póllandi á næsta keppnistímabili.

Patrekur segist hafa velt tilboði félagsins fyrir sér síðustu 10 daga og rætt við marga utan lands sem innan. „Það gefa allir þessu félagi fyrstu einkunn og segja vel staðið að öllum málum hjá því og mikinn metnað vera fyrir hendi.

Vissulega freistar það að fara utan í þjálfun en á móti kemur að ég er í fínu starfi í Garðabæ og er auk þess í miklu uppbyggingarferli hjá Stjörnunni. Þar af leiðandi togar margt í mann um þessar mundir og ég veit hreinlega ekki hvort ég á að hrökkva eða stökkva. En ég verð að svara félaginu fljótlega. Ég get ekki dregið það mikið lengur,“ sagði Patrekur sem þekkir vel til í Þýskalandi eftir að hafa leikið þar um margra ára bil með Tusem Essen og GWD Minden.