Græddur er geymdur eyrir Mikill munur er á vaxtamun í rekstri stóru bankanna þriggja hér á landi samkvæmt ársreikningum þeirra.
Græddur er geymdur eyrir Mikill munur er á vaxtamun í rekstri stóru bankanna þriggja hér á landi samkvæmt ársreikningum þeirra. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Örn Arnarson ornarnar@mbl.is Miðað við ársreikninga Arion, Íslandsbanka og Landsbankans er verulegur munur á þeim vaxtamun sem bankarnir þrír unnu með í fyrra.

Fréttaskýring

Örn Arnarson

ornarnar@mbl.is

Miðað við ársreikninga Arion, Íslandsbanka og Landsbankans er verulegur munur á þeim vaxtamun sem bankarnir þrír unnu með í fyrra. Á meðan vaxtamunurinn var í kringum 2% hjá Arion og Landsbanka var hann tæplega 5% í rekstri Íslandsbanka.

Vaxtamunur er lykilkennitala í rekstri banka og tekur til þess munar sem er á vöxtum innlána og útlána banka. Þrátt fyrir að bankar keppi eðli málsins samkvæmt að því að njóta sem mests vaxtamunar er reglan sú að hagræðing, skilvirkni og mikil samkeppni í bankarekstri leiðir til lítils vaxtamunar. Samkvæmt ársreikningum Arion og Landsbankans var meðalvaxtamunur bankanna í fyrra 1,9% annars vegar og 2,1% hins vegar. Íslandsbanki sker sig algerlega úr en samkvæmt upplýsingum frá bankanum var vaxtamunurinn 4,7% í fyrra. Í þessu samhengi má nefna að arðsemi eigin fjár Íslandsbanka í fyrra nam 30% á meðan hún var 10% hjá Landsbankanum og 16,7% hjá Arion.

Íslensku bankarnir eru í dag að stærstum hluta fjármagnaðir með innlánum. Landsbankinn sker sig þó úr þar sem hann er einnig fjármagnaður með gengistryggðu skuldabréfi að andvirði 260 milljarða króna sem ber 290 punkta ofan á LIBOR-vexti. Þetta skýrir þó ekki að fullu þann mun sem er á vaxtamun bankanna, þar sem Seðlabankinn býður þeim upp á mjög hagstæða vexti á viðskiptareikningum innlánastofnana. Með öðrum orðum geta bankarnir notið ríflegs vaxtamunar með því að taka við innlánum og leggja þau svo inn á reikning í Seðlabankanum án nokkurrar áhættu. Samkvæmt tölum frá Seðlabankanum námu innlánsvextir á almennum sparisjóðsbókum í janúar hjá bönkum og sparisjóðum að meðaltali 0,8%. Miðað við vexti á innistæðum innlánastofnana í Seðlabankanum í janúar var vaxtamunurinn þá því 720 punktar. Vextirnir á innistæðum bankanna hjá SÍ eru nú 7% en að sama skapi hafa vaxtalækkanir leitt til lægri vaxta á innlánareikningum.

Lítill eða mikill vaxtamunur

Í ljósi þessa má spyrja hvers vegna vaxtamunurinn í rekstri Arion og Landsbanka sé ekki meiri en raun ber vitni, frekar en af hverju vaxtamunurinn sé svo mikill í Íslandsbanka. Ekki síst vegna þess að ekki er hægt að tala um mikla samkeppni á íslenskum bankamarkaði á meðan ríkið tryggir allar innistæður að fullu. Slík trygging dregur úr samkeppnishvata milli bankanna. Ein möguleg skýring er að Íslandsbanka hafi tekist að hækka vaxtaálag á útlánum sínum í meira mæli en hinir bankarnir tveir. Eins og sagt var frá í Morgunblaðinu í febrúar hugðist Landsbanki hækka vaxtaálag á erlend lán til útflutningsfyrirtækja í 400 punkta. Miðað við kjörin á gengistryggða skuldabréfinu sem tryggir erlenda fjármögnun bankans er ekki um gríðarlegan vaxtamun að ræða miðað við þessa hækkun.

VAXTAMUNUR

Kjarni rekstrar

Vaxtamunur í bankastarfsemi er einfaldlega munurinn á þeim vöxtum sem bankinn borgar fyrir innlán annars vegar og á þeim vöxtum sem hann rukkar fyrir útlán. Segja má að þetta sé kjarninn í hefðbundinni bankastarfsemi og skiptir hann miklu þegar þóknunartekjur af annarri þjónustu eru ekki miklar.