Þá eru vorverkin hafin. Hjálmar Freysteinsson þreif bílinn sinn „lauslega“. Þótti honum ástæða til að hrósa sjálfum sér fyrir dugnaðinn: Ég iðinn bóna bílinn bæði snemma og seint, (flest ég færi í stílinn en fáu lýg ég beint).

Þá eru vorverkin hafin. Hjálmar Freysteinsson þreif bílinn sinn „lauslega“. Þótti honum ástæða til að hrósa sjálfum sér fyrir dugnaðinn:

Ég iðinn bóna bílinn

bæði snemma og seint,

(flest ég færi í stílinn

en fáu lýg ég beint).

Hjálmar bætti við að bíllinn yrði bónaður seinna. Sigrún Haraldsdóttir fiktaði smávegis, eins og hún komst að orði:

Þorgrímur við Bugðu býr

bæði er hann vænn og hýr

jakkinn hans er næstum nýr

notalegur, grænn og hlýr

hann á gæsir, hænsn og kýr

hesta, kött og fleiri dýr

karlinn er í kolli skýr

kroppur hans er ekki rýr

burt frá keldum snöggt hann snýr

sneypu hverja alveg flýr

vinnur eins og þrælar þrír

þykir sterkur eins og Týr

gjarnan hann með gaddavír

girðir fyrir vegi og brýr

er um grundir ferðast frír

fylgir honum nokkur gnýr

bílinn sinn af krafti knýr

keyrir helst í fimmta gír

Reynir Axelsson orti á sínum tíma:

Það krefst átaks og töluverðs kjarx

og kannski sálarlegs sparx

til að byrja

fyrir alvöru að spyrja

hvort að Lenin missti ekki Marx.

Og rifja má upp úr stafsetningarorðabók:

Fax og uxi, x og lax,

æxli, texti, pex og vax.

Jaxl og víxill, víxl og ax,

vaxa, öxi, buxur, sax.