Mótmæli í Grikklandi Schiff segir að með aðgerðunum sé tapið þjóðnýtt.
Mótmæli í Grikklandi Schiff segir að með aðgerðunum sé tapið þjóðnýtt. — Reuters
Ívar Páll Jónsson ivarpall@mbl.

Ívar Páll Jónsson

ivarpall@mbl.is

Peter Schiff, fjárfestirinn sem sá fyrir að skuldabólan í heiminum myndi springa, segir að björgunaraðgerðir Evrópusambandsins vegna Grikklands og fleiri skuldsettra ríkja á evrusvæðinu sanni að evrópskir stjórnmálamenn séu jafn óábyrgir og bandarískir. Hann hefur áður gagnrýnt stjórnvöld vestanhafs fyrir að hafa haldið vöxtum lágum og aukið peningamagn í umferð gríðarlega, til að bjarga fjármálarisum og öðrum fyrirtækjum.

„Evrópubúar ákváðu núna að bjarga lánardrottnum Grikkja og hugsanlega annarra evrópskra skuldsettra þjóða. Það besta sem Evrópusambandið hefði getað gert hefði verið að leyfa Grikklandi að fara í greiðsluþrot. Það hefði verið best fyrir almenning í Grikklandi og það hefði verið best fyrir alla Evrópubúa. Þá hefðu kröfuhafar Grikklands tapað peningum og fjármál Grikkja hefðu verið endurskipulögð.

Í staðinn er Grikkjum bjargað – tapið þjóðnýtt, ekki bara á kostnað almennings í Grikklandi heldur alls almennings í evrulöndunum,“ segir hann. Þá segir Schiff að aðgerðirnar sendi þau skilaboð til annarra skuldsettra ríkja, á borð við Spán og Portúgal, að þau geti haldið áfram að hlaða upp skuldum. Þær sendi líka skilaboð til lánardrottna þessara þjóða um að halda áfram að lána þeim peninga – ekki þurfi að hafa áhyggjur af endurgreiðslum þar sem von sé á björgunaraðgerðum sambandsins, ef illa fari.

Schiff segir að á endanum muni almenningur austan hafs og vestan gjalda fyrir þessa stefnu dýru verði í gegnum verðbólgu, kaupmáttarrýrnun og kjaraskerðingu.