Byggið vex Jónatan Hermannsson ber saman vöxt í mismunandi jarðvegi.
Byggið vex Jónatan Hermannsson ber saman vöxt í mismunandi jarðvegi. — Morgunblaðið/RAX
Eldfjallaaskan hefur jákvæð áhrif á spírun og vöxt plantna, samkvæmt tilraun sem gerð er á tilraunastöðinni Korpu.

Eldfjallaaskan hefur jákvæð áhrif á spírun og vöxt plantna, samkvæmt tilraun sem gerð er á tilraunastöðinni Korpu. Bygg sem sáð var sumardaginn fyrsta í hreina ösku undan Eyjafjöllum og öskublandaðan jarðveg vex heldur betur en korn sem sáð var í hreinan mýra- eða mójarðveg.

Eftir að askan úr Eyjafjallajökli féll á jarðir undir Eyjafjöllum tóku vísindamenn Landbúnaðarháskóla Íslands sýni í tilraunir sem gerðar eru í gróðurhúsi á Korpu. Sáð var byggi og vallarfoxgrasi sumardaginn fyrsta. Byggið tók strax við sér en grasið hefur enn ekki náð upp úr jarðveginum.

Byggið vex vel í öllum tegundum af jarðvegi og ösku nema í sýnum sem tekin voru af túnum í Önundarhorni af leðjunni sem Svaðbælisá skildi þar eftir. Hins vegar vex byggið vel þegar leðjan hefur blandast.

Jónatan Hermannsson tilraunastjóri segir að tilraunin gefi vísbendingar um að vel sé hægt að rækta í ösku og öskublönduðum jarðvegi. Hún hafi jafnvel jákvæð áhrif á gróðurinn. Hann segir að vandinn sé hins vegar sá að aska sé enn að falla. Telur hann ekki að fóður fáist af túnum í sumar þar sem öskulagið er þykkast en telur meiri líkur að vel takist til með kornrækt. helgi@mbl.is