Glaðbeittur Gordon Brown brosir á leið til þinghússins í London í gær.
Glaðbeittur Gordon Brown brosir á leið til þinghússins í London í gær. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Kristján Jónsson kjon@mbl.is Gordon Brown var í breskum blöðum í gær líkt við persónu í harmleikjum Shakespeares.

Fréttaskýring

Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Gordon Brown var í breskum blöðum í gær líkt við persónu í harmleikjum Shakespeares. Aðrir voru grimmari og sögðu hann hafa reynt að rísa upp frá dauðum, beitt slíkum örvæntingarbrögðum til að halda flokknum við völd að hagsmunir þjóðarinnar hefðu greinilega ekki verið í fyrirrúmi. Og margir flokksmenn risu upp gegn áformum hans.

Ekki verður sagt að yfirlýsing Browns á mánudag um að hann myndi segja af sér á flokksþinginu í september hafi komið verulega á óvart. Dagar hans voru taldir og sumir sögðu fyrir löngu. Meiri furðu vakti þegar hann skýrði frá því að hafnar væru viðræður við Frjálslynda um samstarf, flokk Nicks Cleggs sem þegar var á kafi í viðræðum við David Cameron.

En stjórnmálaskýrendur bentu á að í reynd væri nær útilokað fyrir Clegg og Brown að berja saman meirihluta á þingi. Þá yrðu þeir að skrapa saman lið úr þingflokkum skoskra þjóðernissinna og norður-írskra jafnaðarmanna og jafnvel reyna að fá Sinn Fein-menn til að taka þau sæti sem þeir hlutu en flokkurinn hefur ávallt hafnað setu á þinginu í London.

Og átti Brown að leiða þessa stjórn, maður á leið úr leiðtogasætinu? Átti hann að stýra stjórn sem tækist á við einhvern mesta efnahagsvanda sem þjóðin hefur kynnst? Brown hefur síðustu árin þurft að kljást við mikla andstöðu í eigin flokki og það gerðist einnig núna þegar hann vildi sýna meistaratakta á pólitískri banasæng sinni.

Urgur var meðal flokksmanna sem sögðu að ráðherrann neitaði að horfast í augu við þá staðreynd að Verkamannaflokkurinn hefði tapað kosningunum. John Reid, sem gegndi háum ráðherraembættum en dró sig í hlé 2007, líkti tilraunum Browns og Cleggs við „gagnkvæma sjálfstortímingu“.

EFTIRMAÐURINN?

Velmenntað glæsimenni

Líklegasti eftirmaður Browns í leiðtogasæti Verkamannaflokksins er sagður vera David Miliband utanríkisráðherra sem er 44 ára. Hann lauk háskólanámi í heimspeki auk stjórnmála- og hagfræði í Oxford, einnig stundaði hann nám við MIT í Bandaríkjunum í eitt ár. Miliband er talinn til vinstri í flokknum en varð ungur að aldri náinn samstarfsmaður Tonys Blairs og varð utanríkisráðherra 2007. Yngri bróðir hans er Ed Miliband umhverfisráðherra.

Miliband er af pólskum gyðingaættum en er yfirlýstur guðleysingi. Eiginkonan Lousie Shackelton er fiðluleikari og þau eiga tvö ættleidd börn.