Liggur Einar Pétursson miðvörður Fylkis situr eftir í þessu návígi við Jón Daða Böðvarsson, sóknarmanninn unga í liði Selfyssinga.
Liggur Einar Pétursson miðvörður Fylkis situr eftir í þessu návígi við Jón Daða Böðvarsson, sóknarmanninn unga í liði Selfyssinga. — Ljósmynd/Guðmundur Karl
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á vellinum Kristján Jónsson kris@mbl.is Rúmlega 1.400 manns mættu á gervigrasvöllinn á Selfossi í gærkvöldi þegar tímamót urðu í íþróttasögu bæjarins.

Á vellinum

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Rúmlega 1.400 manns mættu á gervigrasvöllinn á Selfossi í gærkvöldi þegar tímamót urðu í íþróttasögu bæjarins. Selfoss lék sinn fyrsta leik í efstu deild í knattspyrnu karla þegar liðið tók á mót Fylki í Pepsi-deildinni. Stemningin var mikil og góð en heimamenn fengu þó ekki það sem vonast var eftir: 3 stig.

Það myndi ekki felast mikil sanngirni í því að ætla að dæma Selfossliðið út frá þessum leik. Þar kemur ýmislegt til. Í fyrsta lagi er spennustigið miklu hærra en í venjulegum deildaleikjum þar sem um sögulegan viðburð er að ræða. Leikmenn liðsins hafa beðið eftir þessu augnabliki síðan í fyrrahaust og bæjarbúar einnig. Það mátti því búast við taugaveiklun og spennu hjá leikmönnum liðsins, sérstaklega framan af leik. Í öðru lagi voru aðstæður ekkert of skemmtilegar, rigning og talsverður vindur. Selfyssingar komust þó klakklaust frá fyrri hálfleiknum því staðan var markalaus í hálfleik. Einbeitingarleysi í upphafi síðari hálfleiks gerði það hins vegar að verkum að Fylkismenn tóku forystuna í leiknum og sigruðu 3:1. Lið Fylkis hefur ekki tekið miklum breytingum á milli ára og er því orðið nokkuð rútínerað. Liðið kom einna mest á óvart í deildinni í fyrra með góðri frammistöðu og þjálfarinn Ólafur Þórðarson ætlar vafalaust að fylgja því eftir í sumar. Fylkir hefur kannski ekki ýkja mikla breidd en það eru jákvæð teikn á lofti í Árbænum eftir innkomu Jóhanns Þórhallssonar. Hann var mjög ferskur og sýndi skemmtileg tilþrif þegar hann skoraði síðasta mark leiksins. Hann gæti reynst Árbæingum dýrmætur ef hann kæmist í stuð eins og hann átti til að gera fyrir nokkrum árum. Einnig var Ólafur Stígsson mjög góður og hvíldin í vetur virðist hafa gert honum gott. Þriggja manna miðja Fylkis er afar sterk með reynsluboltana Ólaf, Val Fannar Gíslason og baráttujaxlinn Ásgeir Börk Ásgeirsson sem er vaxandi leikmaður.

Hjá heimamönnum átti markvörðurinn Jóhann Ólafur Sigurðsson góðan dag við erfiðar aðstæður. Vert er fyrir knattspyrnuáhugamenn að fylgjast með tveimur kornungum leikmönnum Selfoss í sumar. Það eru þeir Guðmundur Þórarinsson og Jón Daði Böðvarsson sem virðast mjög flinkir með tuðruna og eiga vafalaust eftir að vekja athygli.

Selfoss – Fylkir 1:3

Selfossvöllur, Pepsi-deild karla, 1. umferð, 11. maí 2010.

Skilyrði : Rigning, gola og fremur kalt. Leikið á gervigrasi.

Skot : Selfoss 5 (1) – Fylkir 12 (8).

Horn : Selfoss 4 – Fylkir 4.

Lið Selfoss : (4-5-1) Mark : Jóhann Ólafur Sigurðsson Vörn : Kjartan Sigurðsson, Agnar Bragi Magnússon, Stefán Ragnar Guðlaugsson, Andri Freyr Björnsson (Ingólfur Þórarinsson 86.). Miðja : Jón Daði Böðvarsson, Henning Eyþór Jónasson, Jón Guðbrandsson (Ingi Rafn Ingibergsson 64.), Guðmundur Þórarinsson, Davíð Birgisson (Arilíus Marteinsson 64.). Sókn : Sævar Þór Gíslason.

Lið Fylkir : (4-3-3) Mark : Fjalar Þorgeirsson. Vörn : Andrés Már Jóhannesson, Kristján Valdimarsson, Einar Pétursson, Tómas Þorsteinsson. Miðja : Ólafur Ingi Stígsson (Ásgeir Örn Arnþórsson 72.), Valur Fannar Gíslason, Ásgeir Börkur Ásgeirsson Sókn : Ingimundur Níels Óskarsson, Albert Ingason (Þórir Hannesson 86.), Pape Mamadou Faye (Jóhann Þórhallsson 64.).

Dómari : Magnús Þórisson – 4.

Áhorfendur : Rúmlega 1.400 sem er met á Selfossi.

„Ein stærsta stundin á ferlinum“

Selfyssingurinn Sævar Þór Gíslason er heldur betur búinn að rita nafn sitt rækilega í sögu Íslandsmótsins í knattspyrnu. Eftir að hafa skorað fyrsta og eina mark Selfyssinga í efstu deild til þessa þá er hann markahæstur í efstu deild hjá þremur félögum.

„Eins og staðan er núna þá er ég markahæsti leikmaður hjá þremur félögum í efstu deild, ÍR, Fylki og Selfossi. Það er snilld og það er gaman að taka þátt í þessu. Ég er allur að braggast og er að komast í form,“ sagði Sævar í samtali við Morgunblaðið að leiknum loknum. Nokkuð létt var yfir Sævari og hann hefur ákveðið að njóta þessarar sögulegu stundar í stað þess að svekkja sig of mikið á úrslitunum en Sævar var byrjaður að leika með meistaraflokki Selfoss fyrir um 20 árum. „Þetta er ein stærsta stundin á mínum ferli. Ég fékk að leiða liðið út á völlinn í fyrsta úrvalsdeildarleiknum. Allt starfið í kringum boltann hefur verið alveg frábært og sýnir bara uppganginn á Selfossi. Okkur er spáð því versta en við bara tökum því og reynum að gera okkar besta. Mér fannst við eiga fínan leik og úrslitin gefa ekki alveg rétta mynd þó svo að betra liðið hafi unnið. Mér fannst óneitanlega gaman að skora á móti Fylki og það hefur kannski yljað einhverjum í Árbænum,“ sagði Sævar léttur. kris@mbl.is

Fær leyfi til að stjórna álaginu

Sá leikmaður sem kom kannski mest á óvart í leiknum í gærkvöldi er engu að síður einn sá leikreyndasti, Ólafur Ingi Stígsson. Eftir farsælan feril ákvað Ólafur að láta gott heita í boltanum í vetur en sneri aftur skömmu fyrir mót og var virkilega sprækur gegn Selfyssingum.

„Þetta var bara mjög fínt. Leikurinn var mjög erfiður og þessir strákar í liði Selfoss eru mjög frískir. Þeir eru með skemmtilegt lið. Þetta var baráttuleikur og aðstæðurnar voru svolítið erfiðar. Mér fannst þetta þokkalegur leikur hjá okkur. Svolítið hrátt ennþá en góðir kaflar í þessu hjá okkur,“ sagði Ólafur sem var á skotskónum þegar hann skoraði fyrsta markið sem skorað er á Selfossi í efstu deild og skoraði annað sem var dæmt af. Ólafur vildi þó ekki kannast við að hafa hlaupið eins og unglamb um völlinn.

„Ég hef fengið að spila nokkra æfingaleiki en þetta tekur tíma. Þetta var fínt í dag en maður sýnir smáskynsemi og ég fór til dæmis út af í þessum leik,“ bætti Ólafur við en hann hefur glímt við erfið hnémeiðsli árum saman. „Ég er ekkert allt of góður eftir svona leiki og maður þarf að taka þátt á blöndu af hörku og skynsemi. Óli Þórðar leyfir mér svolítið að stjórna álaginu sem er nauðsynlegt,“ sagði Ólafur við Morgunblaðið. kris@mbl.is

Þetta gerðist á Selfossi

0:1 47. Fylkismenn fengu skyndisókn og reyndu skot sem fór í varnarmann Selfoss. Boltinn hrökk til Ólafs Stígssonar sem afgreiddi hann af öryggi í netið.

0:2 56. Pape Mamadou Faye skoraði með góðu skoti af stuttu færi eftir hornspyrnu.

1:2 69. Varnarmönnum Fylkis mistókst að hreinsa frá og Sævar Þór Gíslason slapp inn fyrir eftir sendingu frá Guðmundi Þórarinssyni. Fjalar var nálægt því að verja skotið en boltinn skrúfaðist í netið.

1:3 90. Jóhann Þórhallsson fékk boltann á vinstri kantinum. Lék á tvo varnarmenn og smellti boltanum í fjærhornið. Vel gert.

Gul spjöld:

Jón Daði (Selfossi) 55. (brot), Andri Freyr (Selfossi) 65. (brot), Stefán Ragnar (Selfossi) 76. (brot).

Rauð spjöld:

Enginn.

MMM

Enginn.

MM

Enginn.

M

Jóhann Sigurðsson (Selfossi)

Guðmundur Þórarinsson (Selfossi)

Sævar Þór Gíslason (Selfossi)

Tómas Þorsteinsson (Fylki)

Ásgeir Ásgeirsson (Fylki)

Ólafur Stígsson (Fylki)

Jóhann Þórhallsson (Fylki)

*Fylkismenn áttu helstu marktækifærin í markalausum fyrri hálfleik en markvörðurinn Jóhann Ólafur Sigurðsson sá við þeim. Ásgeir Börkur Ásgeirsson komst í gott færi á 15. mínútu en Jóhann kom út á móti og lokaði á hann. Einnig átti Valur Fannar Gíslason skalla af frekar stuttu færi á 28. mínútu eftir aukaspyrnu frá Andrési Má Jóhannessyni en Jóhann varði.

* Jóhann Þórhallsson skoraði sitt 30. mark í efstu deild þegar hann innsiglaði sigur Fylkis í lok leiksins.

* Selfyssingar léku án fyrirliða síns Jóns Steindórs Sveinssonar sem er meiddur og hefur glímt við meiðsli meira eða minn í allan vetur og óvíst hvenær hann verður tilbúinn í slaginn. Sævar Þór Gíslason bar fyrirliðabandið í stað Jóns.

*Fimm leikmenn í byrjunarliði Selfoss léku sinn fyrsta leik í efstu deild, þeir Kjartan Sigurðsson, Stefán R. Guðlaugsson, Andri Freyr Björnsson, Jón Daði Böðvarsson og Guðmundur Þórarinsson . Einnig varamennirnir Arilíus Marteinsson og Ingólfur Þórarinsson .

* Morgunblaðið gefur leikmönnum M, eitt fyrir góðan leik, tvö fyrir mjög góðan leik og þrjú fyrir frábæran leik.

* Dómarar fá einkunn fyrir frammistöðu sína, frá 1 til 6 .