Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, lagði fram þá tillögu á fundi efnahags- og skattanefndar í gærmorgun að Lára V. Júlíusdóttir, formaður bankaráðs Seðlabankans og Ragnar Árnason, komi á fund nefndarinnar hið fyrsta og geri grein fyrir hvernig málum var háttað í umræðum um launahækkun seðlabankastjóra.
„Málefni er lúta að Seðlabanka Íslands heyra undir efnahags- og skattanefnd og í ljósi umræðna á Alþingi finnst mér einfaldlega þörf að kalla hið rétta fram í málinu þar sem orð bankaráðsmanna í Seðlabankanum hafa verið misvísandi gagnvart því sem ýmsir stjórnmálamenn hafa síðan haldið fram,“ segir Birkir.