Hrafndís og Garðar eru þáttagerðarmenn í sjónvarpi og starfa hjá framleiðslufyrirtæki og fá það verkefni að gera stutta heimildarmynd um fjölfatlaða stúlku að nafni Rakel. Hrafndís er uppstökk og sjálfhverf og telur að sér hafi verið ætlað að gera merkilegri hluti en þetta og er ekki spennt fyrir verkefninu, telur það „tilfinningarunk og leiðindi“. Rakel er andstæða Hrafndísar, lífsglöð og kát þrátt fyrir fötlun sína.
Þannig er söguþræði stuttmyndarinnar MeDía lýst en hún er lokaverkefni Hrafndísar Báru Einarsdóttur sem nemur leiklist við Kvikmyndaskóla Íslands. Hún segir myndina ádeilu á samfélagið. Með hlutverk fjölfötluðu stúlkunnar fer Rakel Árnadóttir en hún er bundin við hjólastól þar sem hún er fjölfötluð. Hrafndís segist hafa kynnst Rakel sl. haust og kynnst aðstæðum hennar og hvernig fólk sýni henni oft skilningsleysi og láti eins og hún sé hálfviti. Gamanmynd um sorglegan sannleik með falinni heimildamynd, eins og Hrafndís lýsir myndinni.
– Nú notarðu orðið „tilfinningarunk“, finnst þér það eiga oft við svona umfjallanir í sjónvarpi?
„Jú, jú, þetta orð hefur alveg ratað fram á varir mínar og fleiri innan fjölskyldunnar þegar kemur eitthvað svona hádramatískt með tilheyrandi tónlist og vellu,“ svarar Hrafndís. Hún fékk 60.000 kr. frá skólanum til að gera myndina en hún lét það fé renna í styrktarsjóð Rakelar í staðinn og greiddi framleiðslukostnað úr eigin vasa. Myndin verður frumsýnd á útskriftarsýningu skólans 21. maí. helgisnaer@mbl.is