Guðrún Svava Þorsteinsdóttir fæddist í Köldukinn í Holtum 13. september 1920. Hún lést á líknardeild Landakotsspítala miðvikudaginn 29. apríl síðastliðinn.

Hún var dóttir hjónanna Þorsteins Einarssonar bónda, f. 1868, d. 1956 og seinni konu hans Guðrúnar Guðjónsdóttur, f. 1883, d. 1962. Alsystkini hennar vor Runólfur Guðsteinn, f. 1918, d. 1999 og Guðný Sigríður, f. 1922, d. 2007. Systkini samfeðra voru Einar, f. 1904, d. 1932, Karlotta Þórunn, f. 1907, d. 1986, Gunnar Gísli, f. 1909, d. 1980 og Guðbjörg, f. 1912, d. 1973.

Um tvítugt flutti hún til Reykjavíkur, þar sem hún vann við saumaskap, starfaði lengi í Þjóðleikhúsinu, um árabil á barnaheimilinu Dyngjuborg, ásamt því að vera fyrirmyndarhúsmóðir, en hún lauk ung prófi frá Húsmæðraskólanum í Hveragerði.

Guðrún Svava giftist Sigurjóni Ólafssyni, f. 21.4. 1922, d. 2002. Þau eignuðust 3 börn. Guðrún Sigurjónsdóttir f. 1946, maki Frans Guðbjartsson f. 1946, eignuðust þau 6 börn, Þorsteinn Sigurjónsson f. 1947, maki Ásthildur Snorradóttir, eignuðust 2 börn, Elín Sigurjónsdóttir f. 1951, maki Óttar Eggertsson f. 1949 eignuðust 3 börn. Guðrún Svava bjó í Efstasundi 9 í rúmlega 40 ár.

Útför hennar verður gerð í dag, miðvikudaginn 12. maí 2010, frá Áskirkju í Reykjavík, og hefst athöfnin kl. 13.

Í dag kveð ég ástkæra ömmu mína og langar mig til að minnast hennar. Það er margt sem kemur upp í hugann. Ég fór oft ein til ömmu sem krakki og gekk jafnvel langa leið til að komast til hennar en á þeim tíma bjó ég í Breiðholtinu. Við gátum dundað okkur allan daginn. Stundum gisti ég hjá henni og var hún vön að signa yfir mig og man ég alltaf eftir því. Ég hef haldið þeim sið við mín börn.

Amma átti fallegan garð sem hún hafði ræktað upp og hugsaði vel um, alveg fram á síðasta dag. Hún var nefnilega mikið náttúrubarn og notaði hvert tækifæri til að vera úti í garði að vinna. Það var oft glatt á hjalla í garðinum hjá ömmu á sumrin.

Amma kunni að njóta lífsins. Hún eldaði góðan mat handa sér og oftast gerði hún einnig flottan eftirrétt. Ég skildi ekki hvernig hún nennti þessu fyrir sig eina. Hún lét sér aldrei leiðast og gerði það sem henni fannst skemmtilegt og lét ekkert stoppa sig. Hún var mikill listamaður. Hún saumaði, málaði myndir, skar út klukkur o.fl., bjó til skartgripi, málaði á slæður, heklaði dúka og teppi og svo mætti lengi telja. Hún hafði þetta í sér að skapa eitthvað og er ég þakklát fyrir það sem ég á eftir hana.

Ég hef alltaf litið upp til ömmu og dáðst að henni því hún var glæsileg kona og hugsaði alla tíð vel um sig. Hún var sjálfstæð og ákveðin. Hún stóð fast á sínu og lét engan segja sér fyrir verkum. Hún hafði skoðanir á öllu mögulegu og gat stundum verið hvöss ef henni mislíkaði eitthvað, kannski svolítið dómhörð. Það risti þó ekki djúpt og var oft stutt í grínið.

Fyrir 10 árum fluttu mamma og pabbi á Langholtsveginn og þá var stutt að fara til ömmu. Það var gott fyrir hana að hafa mömmu svona nálægt. Þær voru svo nánar. Það voru margar ferðir farnar á milli. Það verður skrítið að geta ekki heimsótt ömmu lengur í Efstasundið. Ég er þakklát fyrir að hafa átt hana og kveð hana með söknuði.

Hvíl í friði elsku amma mín.

Þín nafna,

Svava.

Sæl „nafna“, já komdu sæll „nafni“, þannig heilsuðumst við ætíð er við hringdumst á, í þessari kveðju var gagnkvæm virðing. Alltaf þegar ég kom í heimsókn í Efstasundið þá var sami bragur á okkar fundum, léttur og afslappaður, enda notalegt að koma í bleika húsið hennar Svövu. Síðastliðin ár höfum við verið í góðu sambandi og heimsótti ég Svövu nokkuð reglulega. Ég kom æ ríkari af okkar fundum, því Svava var bæði víðlesin og fróð um margt. Svava hafði yndi af lestri góðra bóka auk þess að fylgjast vel með þjóðmálum. Gerði hún oft gamansaman samanburð á mönnum og málefnum fyrri tíma og þeirra sem sitja við kjötkatlana núna, því hún bjó yfir þeim fágæta hæfileika að hafa góða sagnagáfu, þannig að unun var að hlusta á, síðan hló hún oft manna mest að allri „vitleysunni“.

Sjálfgert er vel gert, eru orð sem eiga afar vel við Svövu, því varla féll henni verk úr hendi, hún var alla tíð eitthvað að sýsla og það fór ekki framhjá neinum sem hana þekkti að hún bjó yfir mikilli sköpunargleði. Í litla garðinum hennar má nú sjá glitra tár á einstöku vorblómi því Svava er ekki lengur til staðar til að vökva og strjúka þeim, blómin og náttúran var henni sönnun á tilgangi tilverunnar, hann var hennar yndi og sælureitur. Hún var einstaklega handlagin kona, lagfærði oftast sjálf það sem þurfti að lagfæra á heimilinu, ásamt því að mála fallegar landslagsmyndir auk þess að skera klukkur, skúlptúra o.fl. út í tré, háöldruð konan. Tréútskurði og öðrum listmunum eftir Svövu verður ekki lýst í orðum, þeir einir njóta þeirra sem eftir hana eiga listaverk.

Það bar þannig við um daginn að ég þurfti að spyrja hana um hvort 9 ára gutti fengi ekki vera hjá henni í dágóða eftirmiðdagsstund, vissi ég að það yrði auðsótt mál. Þegar ég kom að sækja guttann nokkrum tímum síðar, sem ég stend utan við útidyrahurðina, heyri ég líka þennan ofsamikla hlátur, kem inn, þá eru þau að spila „þjóf“, ég spyr þau: hver vann spilið? Bæði sögðust þau hafa unnið spilið, ekki nóg með það, þau virtust bæði hafa „svindlað“ svo mikill var galsinn í þeim, þó 80 ár skildu þau að mátti vart sjá hvort þeirra skemmti sér betur. Síðan er við komum út í bíl, þá segir Ágúst Logi við mig: „Amma svindlaði.“ Svona segir maður ekki, segi ég, en pabbi, getum við farið aftur til hennar á morgun? segir guttinn. Nú segi ég, viltu fara aftur til hennar á morgun. „Já, það er svo gaman að spila við hana,“ segir guttinn.

Er ég heimsótti hana á spítalann fyrir nokkrum dögum, færði ég henni lítið kerti, á kertinu var fallegt bleikt fiðrildi. Hún hélt í höndina á mér, horfði á kertið í dágóða stund, sagði síðan mjúkri, hljóðlátri röddu: „Bráðum verð ég fiðrildi.“

Lífið er lítil lukka

sem gæta verður vel,

hún hlýju gefur þér

þeirri sem hjartað þráir.

Sólin skín og fuglar syngja

sæll er fuglinn þar sem berin klingja,

rósir dafna, grasið sprettur,

þar til sólin fellur.

(Bríet Una Svavarsdóttir.)

Takk fyrir samveruna og allt sem þú gafst okkur, Guð geymi þig.

Svavar, Bríet, Kolbeinn

og Ágúst.