Guðni Ágústsson
Guðni Ágústsson
Eftir Guðna Ágústsson: "Atvinnuleysi verður aldrei afborið hér til lengdar en það er einn draugurinn sem fylgir Evrópusambandinu. Verði það blasir landflótti við."

Mikil tíðindi berast úr stjórnarráðinu af maraþonfundum um að endurskipuleggja stjórnarráðið.

Stjórnarsáttmáli Samfylkingar og Vinstri grænna innihélt boðskap um að stofna skyldi til atvinnumálaráðuneytis. Að landbúnaður og sjávarútvegur væru hvergi nefndir á nafn og sagt er að þessi blessun sé komin að utan frá Evrópusambandinu sjálfu. Ég held reyndar að Evrópusambandið sé í þessu tilfelli saklaust og hafi enga reglu mótað enn með sínum sambandsríkjum um einhliða stefnu um skipan stjórnarráðanna í löndunum. Þetta er að gerast á sama tíma og öllum landsmönnum er það deginum ljósara að þessir tveir grundvallaratvinnuvegir eru og verða gerendurnir í endurreisn Íslands.

Sjávarútvegurinn verður hinn stóri í að afla gjaldeyris úr gullkistum sínum eins og alltaf og þar er auðvelt og full rök fyrir að auka veiðina. Sjómaðurinn sækir björg í bú og flestir vita að fiskurinn, álið og ferðamaðurinn skila peningum heim í tóman ríkiskassann.

Landbúnaðurinn og bændurnir eru í lykilstöðu til að spara gjaldeyri sem er af skornum skammti eftir hrunið og framleiða hágæðavörur fyrir heimilin og fólkið í landinu. Landbúnaðurinn er allt í einu kominn í þá stöðu hvort þjóðin fær mat sinn eða ekki. Kjaftæði og tíska síðustu ára um að okkur beri að losa okkur við slorið og fjósalyktina hefur snúist við.

Hvert barn sem sest að matborði foreldra sinna veit í dag um þýðingu bóndans og að kýrin í fjósinu skiptir miklu máli fyrir okkur öll. Sauðkindin, svínið, kjúklingurinn og nautið færa okkur kjötið sem hefur lítið hækkað í verði frá hruni. Maturinn sem frá bóndanum kemur er gleði fjölskyldunnar og lífsöryggi.

Matvælaöryggi og gjaldeyrisöflun

Hvernig væri nú að leggja til hliðar umræðu um rangar kerfisbreytingar á erfiðum tímum. Hvernig væri að standa vörð um það sem skiptir Íslendinga mestu máli í endurreisninni, matvælaöryggið og gjaldeyrisöflunina. Hagfræði er góð menntun en að trúa blint á rök hagfræðinganna er skaðvænlegt.

Hverjum datt í hug að ein mynt hentaði allri Evrópu jafn ólíkir og framleiðsluhættir landanna eru? Evran er nú að sundrast og Evrópusambandið á nóg með sjálft sig. Eðlilegast væri að við hættum við kostnaðarsamt umsóknarferli strax. Steingrímur J., sem ber hitann og þungann af stjórnarsamstarfinu, hlýtur að höggva á þessa þráhyggju samstarfsflokksins á allra næstu vikum.

Nú vitum við reyndar það sem skiptir mestu máli, aðild að ESB snýst ekki um samninga heldur aðlögunarferli með tímabundnum undanþágum. Aðild myndi rústa íslenskan landbúnað og Bretarnir væru komnir inn í landhelgina á einu augabragði. Þeir hlakka til í Grimsby og Hull, sjómennirnir.

Við þurfum okkar mannafla allan í endurreisnina. Vitað er að mörg hundruð störf þess opinbera og atvinnulífsins eru bundin vinnu við umsóknina.

Kostnaður þjóðarbúsins við undirbúning samningsgerðar hleypur á milljörðum króna. Ég trúi illa að Vinstri grænir láti leiða sig lengra í þessu efni og taki nú fast á móti. Tryggi að hér verði ráðuneyti áfram um landbúnað og sjávarútveg, veiki ekki rödd þessara atvinnuvega við ríkisstjórnarborðið. Er það kannski mikilvægt að þagga niður í þeim sem tala fyrir þessa atvinnuvegi, „æra og færa hinn arma af veg“.

Að Alþingi höggvi á hnútinn

Alþingi sjálft hlýtur að stöðva sem fyrst dýra samningagerð við ESB um aðild sem allir sjá að er glórulaus við núverandi aðstæður. Við köllum eftir ábyrgri fjármálastefnu þegar niðurskurður bitnar á þeim sem erfiðast eiga. Það var líka fólk úr stjórnarandstöðunni sem studdi þessa vegferð. Ísland mun fyrst og fremst rísa sem efnahagslega sjálfstætt ríki á fáum árum á nýtingu auðlinda landsins og þeim krafti sem í þjóðinni býr.

Við eigum enga samningsstöðu í dag á hnjánum, litla virðingu og takmarkaða velvild við höfuðdyr Evrópusambandsins. Hættan er sú að öflin sem vilja inn í ESB og eru líklega sterk í báðum stjórnarflokkunum og það sé vilji til að fórna framtíðarmöguleikum landsins á altari ESB í bráðræði. Skil að vísu betur hvers vegna Vinstri grænir berast á banaspjótum, þekki vandamálið úr mínum gömlu herbúðum.

Bið lesendur þessarar greinar að fara yfir og rifja upp hverjar eru auðlindir okkar og sóknarfæri landsins og bera saman við tækifæri margra Evrópuríkja.

Hvað eigum við?

Við eigum gjöful fiskimið og einstakan landbúnað. Mannafla sem býr yfir löngun og kunnáttu og dugnaði til að vinna. Atvinnuleysi verður aldrei afborið hér til lengdar en það er einn draugurinn sem fylgir Evrópusambandinu. Verði það blasir landflótti við. Við búum við almenna góða menntun og sérþekkingu ekki síst á ýmsum tæknisviðum. Við eigum orku í ám og fallvötnum. Við eigum jarðvarma og háhita á flekamótum. Ferskvatnsauðlindir sem eru sagðar vera olía framtíðarinnar að verðgildi. Olíu á Drekasvæðinu að talið er. Opnun norðurslóðanna með ný tækifæri og siglingaleiðir í viðskiptum fyrir okkur og umheiminn. Í rauninni ónumið land á svo mörgum sviðum, við eigum tækifæri sem ekki eru til staðar í mörgum samstarfslöndum okkar.

Höfundur er framkvæmdastjóri SAM.

Höf.: Guðna Ágústsson