Guðni í Sunnu Það er glampi í augunum á karli sem vill auka vellíðan fólks og kynna því aukna menningu nær og fjær með því að bjóða upp á dekurpakka innanlands og menningar- og dekurferðir til framandi landa.
Guðni í Sunnu Það er glampi í augunum á karli sem vill auka vellíðan fólks og kynna því aukna menningu nær og fjær með því að bjóða upp á dekurpakka innanlands og menningar- og dekurferðir til framandi landa. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is „Það eru tvær bakteríur sem ég losna aldrei við; blaðamennskan og þessar hreyfingar í traffíkinni,“ segir Guðni Þórðarson, Guðni í Sunnu, eins og hann er gjarnan kallaður.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

„Það eru tvær bakteríur sem ég losna aldrei við; blaðamennskan og þessar hreyfingar í traffíkinni,“ segir Guðni Þórðarson, Guðni í Sunnu, eins og hann er gjarnan kallaður. Hann hefur marga fjöruna sopið, er enn á fullu og hefur stofnað fyrirtækið Heilsulind (heilsulind.is) í þeim tilgangi að bjóða upp á dekurferðir fyrir almenning.

Heilsa og menning

Sjö læknar eru í fjölskyldu Guðna og vegna áhrifa frá þeim segist hann hafa fundið hjá sér þörf til þess að bjóða upp á nýja tegund í túrisma, heilsu- og menningartengda ferðamennsku. „Hún felst í því að markaðssetja Ísland í útlöndum fyrir fólk sem vill fá létta heilsubót, stunda jóga og annað,“ segir hann.

Fyrsti „dekurpakki“ Heilsulindar verður á hótelinu í Reykholti í Borgarfirði um hvítasunnuna, þar sem fólki 60 ára og eldra verður meðal annars boðið upp á fjölbreyttar líkamsæfingar og Gunnar Eyjólfsson kynnir chi-gong, heilsutöfra Austurlanda. Guðni segir að í kjölfarið verði ferðirnar markaðssettar í Noregi, Þýskalandi og víðar. Síðan sé hugmyndin að bjóða upp á heilsu- og menningarferðir fyrir Íslendinga til annarra landa, eins og til dæmis jógaferðir til Indlands, óperur, djass, leikhús og dekur í New York og ferðir í fótspor Davíðs Stefánssonar á Ítalíu.

Guðni leggur áherslu á að úti um allan heim sé verið að breyta lúxushótelum í svonefnd heilsuhótel og þar liggi framtíðin. „Þetta er rétt að byrja,“ segir hann, en Heilsulind er hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands í Íslandsbanka við Lækjargötu.

FERÐAFRÖMUÐUR

Á ferðinni í hálfa öld

Guðni í Sunnu var blaðamaður á Tímanum og sem slíkur fór hann í margar ferðir til útlanda. Í þriggja mánaða fríi 1955 fór hann til dæmis um slóðir Íslendinga í Vesturheimi og myndaði mann og annan. Tæplega þremur árum síðar skipulagði hann sína fyrstu ferð að beiðni forstjóra Flugfélags Íslands, fór með fulla vél til Parísar um páskana og komust færri að en vildu. Um næstu páska skipulagði hann líka ferð til Parísar og auk þess var farið til Mallorca í sömu ferð. Í kjölfarið stofnaði hann Ferðaskrifstofuna Sunnu í þeim tilgangi að skipuleggja hópferðir til sólarlanda. Fyrsta ferðin til Kanaríeyja var farin 1962, nokkrum árum síðar bauð hann upp á siglingar með skemmtiferðaskipum og eftir að hafa boðið upp á leiguflug um tíma stofnaði Guðni flugfélagið Air Viking 1970 til að fljúga með farþega sína.