Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
„Það eru tvær bakteríur sem ég losna aldrei við; blaðamennskan og þessar hreyfingar í traffíkinni,“ segir Guðni Þórðarson, Guðni í Sunnu, eins og hann er gjarnan kallaður. Hann hefur marga fjöruna sopið, er enn á fullu og hefur stofnað fyrirtækið Heilsulind (heilsulind.is) í þeim tilgangi að bjóða upp á dekurferðir fyrir almenning.
Heilsa og menning
Sjö læknar eru í fjölskyldu Guðna og vegna áhrifa frá þeim segist hann hafa fundið hjá sér þörf til þess að bjóða upp á nýja tegund í túrisma, heilsu- og menningartengda ferðamennsku. „Hún felst í því að markaðssetja Ísland í útlöndum fyrir fólk sem vill fá létta heilsubót, stunda jóga og annað,“ segir hann.Fyrsti „dekurpakki“ Heilsulindar verður á hótelinu í Reykholti í Borgarfirði um hvítasunnuna, þar sem fólki 60 ára og eldra verður meðal annars boðið upp á fjölbreyttar líkamsæfingar og Gunnar Eyjólfsson kynnir chi-gong, heilsutöfra Austurlanda. Guðni segir að í kjölfarið verði ferðirnar markaðssettar í Noregi, Þýskalandi og víðar. Síðan sé hugmyndin að bjóða upp á heilsu- og menningarferðir fyrir Íslendinga til annarra landa, eins og til dæmis jógaferðir til Indlands, óperur, djass, leikhús og dekur í New York og ferðir í fótspor Davíðs Stefánssonar á Ítalíu.
Guðni leggur áherslu á að úti um allan heim sé verið að breyta lúxushótelum í svonefnd heilsuhótel og þar liggi framtíðin. „Þetta er rétt að byrja,“ segir hann, en Heilsulind er hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands í Íslandsbanka við Lækjargötu.
FERÐAFRÖMUÐUR