Önnur veröld Grafíkin í tölvuleiknum Eve Online er stórbrotin.
Önnur veröld Grafíkin í tölvuleiknum Eve Online er stórbrotin.
Baldur Arnarson baldura@mbl.is „Markaðsaðstæður fela í sér sérstakt tækifæri fyrir leikjaiðnaðinn. Áhuginn á leikjum fer vaxandi og gróskan er að sama skapi mikil.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

„Markaðsaðstæður fela í sér sérstakt tækifæri fyrir leikjaiðnaðinn. Áhuginn á leikjum fer vaxandi og gróskan er að sama skapi mikil. Það er því tækifæri til að halda áfram á sömu braut og ýta undir þau fyrirtæki sem eru komin á skrið og að sama skapi koma öðrum af stað,“ segir Ólafur Andri Ragnarsson, aðjunkt við Háskólann í Reykjavík og yfirhönnuður hjá íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu Betware, um bjartar horfur í íslenskri hugbúnaðargerð á komandi árum.

Ólafur Andri situr jafnframt í stjórn Samtaka íslenskra tölvuleikjaframleiðenda, sem eru skammstöfuð IGI á ensku, en hann telur aðspurður að ef bjartsýnar spár gangi eftir gæti störfum í greininni fjölgað um nokkur þúsund í náinni framtíð.

Tölvuleikjagerð er stór atvinnugrein og tekur Ólafur Andri fram að umrædd aukning yrði aðeins dropi í hafið á heimsmarkaðnum.

Veltan komin í 10 milljarða

Að sögn Ólafs Andra er áætlað að velta íslensku leikjafyrirtækjanna sé í kringum 10 milljarðar á ári og er flaggskipið, CCP, sem hannar og rekur netleikinn Eve Online, þá meðtalið. Starfsmennirnir nálgast 700 og að því gefnu að aukin velta og starfsmannafjöldi haldist í hendur gæti veltan aukist í tugi milljarða.

Spurður um umgjörðina um greinina segir Ólafur Andri stjórnvöld hafa sýnt hagsmunum hennar áhuga og fyrirtækin til dæmis fengið aðstoð frá Útflutningsráði og Samtökum iðnaðarins. Og þótt hann sé ekki hlynntur sérstökum ívilnunum fyrir greinina þurfi að hafa í huga að íslensku fyrirtækin séu að keppa við fyrirtæki í löndum á borð við Kanada og Bretland þar sem stjórnvöld bjóði hugbúnaðarfyrirtækjum sérstakan skattaafslátt til að laða þau til sín.

„Almennt finnst mér að stjórnvöld hvers tíma eigi ekki að veita ákveðnum greinum sérstaka þjónustu heldur eigi þau fremur að skapa markaðsskilyrði sem eru góð fyrir allar atvinnugreinar. Hins vegar geta rök hnigið að því að styrkja nýjar greinar til að stuðla að aukinni fjölbreytni í atvinnulífinu, svo sem í formi sérstakra skattaívilnana.“

Tölvuleikir eru framtíðin

Sveinn Jóhannesson Kjarval deilir bjartsýninni með Ólafi Andra en hann er leikjameistari hjá CCP við Grandagarð í Reykjavík.

Sveinn lét þess getið í þættinum Spjallið með Sölva Tryggvasyni að hann sæi fyrir sér að 10.000 manns gætu starfað í greininni, spá sem hann segir runna undan rifjum IGI.

Netið hefur áhrif

» Leikjameistarinn Sveinn Kjarval telur leikina vera að taka við af fyrri gerðum afþreyingar, s.s. sjónvarpi.
» Framtíðin liggi í afþreyingu þar sem fólk taki virkari þátt en t.d. við sjónvarpsgláp.
» Spilarar séu á aldrinum 5 ára og upp í ellilífeyrisþega.
» Myndun tengslaneta á netinu á síðum eins og Facebook ýti undir notkun netleikja.