Róstusamt Blaðamönnum á Bangkok Post taldist til að rauðliðar hefðu kveikt í 27 byggingum á tólfta tímanum í gærkvöldi að staðartíma.
Róstusamt Blaðamönnum á Bangkok Post taldist til að rauðliðar hefðu kveikt í 27 byggingum á tólfta tímanum í gærkvöldi að staðartíma. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
VIÐTALIÐ Baldur Arnarson baldura@mbl.is Hermenn stjórnarhersins vöktuðu hjarta Bangkok í nótt eftir að leiðtogar rauðliða voru þvingaðir til uppgjafar í áhlaupi hersins á vígi þeirra við helstu verslunargötu höfuðborgarinnar í gær.

VIÐTALIÐ

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Hermenn stjórnarhersins vöktuðu hjarta Bangkok í nótt eftir að leiðtogar rauðliða voru þvingaðir til uppgjafar í áhlaupi hersins á vígi þeirra við helstu verslunargötu höfuðborgarinnar í gær.

Minnst 6 féllu í átökum gærdagins og hafa því tugir fallið frá því mótmælin blossuðu upp í mars.

Útgöngubann var sett á síðdegis og stóð það fram undir morgun.

Eftir áhlaup hersins hóf hluti rauðliða að kveikja elda víða um borgina og lögðu þeir meðal annars eld að helstu verslunarmiðstöð borgarinnar og taílensku kauphöllinni.

Svartur reykjarmökkur lá yfir skýjakljúfum stórborgarinnar en mikinn reyk lagði einnig frá hjólbörðum og öðru lauslegu sem mótmælendur kveiktu í á götum úti.

Flúði borgina um leið

Páll Arnar Steinarsson, námsmaður í Bangkok, er búsettur skammt frá hringiðu mótmælanna.

Hann hefur fylgst með þeim úr návígi en var hætt að lítast á blikuna undir morgunsárið í gær.

„Ég fór um leið og ég frétti að herinn hefði farið inn á rauða svæðið. Það hafa verið gífurleg átök á svæðinu þar sem rauðliðar hreiðruðu um sig. Fyrir utan ofbeldið og lætin er búið að vera erfitt að dvelja í borginni þar sem hér hefur ekki verið nein sorphirða síðan í síðustu viku. Ruslahaugar hafa myndast á hverju götuhorni og leggur megnan óþef af rotnandi rusli í miðborginni.

Verslanir og veitingastaðir hafa lokað og þar sem enn er opið hefur borið á vöruskorti. Það hefur því verið erfitt að hafa ofan í sig.

Andrúmsloftið er skelfilegt. Fólk er hrætt. Tveir menn voru skotnir til bana rétt við heimili mitt á sunnudag. Sá dagur var verstur. Átökin voru þá hvað hörðust en rafmagnið var þá tekið af hverfinu,“ segir Páll Arnar en talið berst því næst að þeirri gjá sem er á milli ríkra og fátækra í Taílandi.

Berjast fyrir bættum kjörum

Auðkýfingurinn Thaksin Shinawatra, landflótta milljarðamæringur sem hrökklaðist úr stól forsætisráðherra eftir tilraunir til að kaupa sér hylli fátæks sveitafólks, nýtur stuðnings meirihluta rauðliða.

Inntur eftir þætti Thaksins leggur Páll Arnar áherslu á að þrátt fyrir umdeilda fortíð megi ekki gera lítið úr þeim lífskjarabótum sem hann beitti sér fyrir til sveita, svo sem með ódýrri heilsugæslu.

Spurður hvort almenn réttindabarátta sé því fremur hvatinn að þátttöku fátæks sveitafólks í mótmælunum en hugsjónir tekur Páll Arnar undir það og ítrekar að rauðliðar séu tvístraður hópur fólks sem deili reiði í garð valdhafanna.

Páll Arnar kveðst jafnframt hafa orðið þess áskynja að samúð almennings með rauðliðum hafi farið þverrandi og bendir á að með því að setja stöðugt fram nýjar kröfur í samningaviðræðum við stjórnvöld hafi fulltrúar rauðliða sýnt fram á að þeir færu fyrir sundurlausum hópi.

Þannig hafi stjórnin orðið við kröfu um að flýta kosningum og leysa upp þingið en rauðliðarnir þá lagt fram fleiri kröfur þar til samningaumleitanir fóru út um þúfur.

MÓTMÆLIN VALDA MIKLUM BÚSIFJUM

Ferðaþjónustunni blæðir

Áætlað er að umferð um nýja alþjóðaflugvöllinn í Bangkok hafi dregist saman um ríflega 50% vegna mótmælanna í borginni.

Þá hafa fyrirtæki jafnt sem einyrkjar tapað miklum viðskiptum svo ekki sé minnst á hótelin og verslanirnar í miðborginni.

Íkveikjur rauðliða hafa einnig valdið stórtjóni en á myndinni til hliðar sést ráðhús bæjar í austurhluta landsins í ljósum logum.