Hinn mikli stuðningur Reykvíkinga við framboð Besta flokksins stafar ekki af því að borgarbúar hafi svo einstaklega mikla kímnigáfu að þeir vilji gera lýðræðislegar kosningar að sprelli. Stuðningurinn við Besta flokkinn stafar af því að kjósendur eru búnir að fá nóg af litlausum stjórnmálamönnum með hjarðeðli sem lofa öllu fögru fyrir kosningar en svíkja loforðin síðan við fyrsta hentugleika. Fólk nennir ekki lengur að greiða götu sljórra stjórnmálamanna sem stöðugt setja eigin hagsmuni í forgrunn.
Framboð Besta flokksins er ekki eintómt spaug þótt það sé bráðskemmtilegt. Þetta er framboð þar sem óspart er gert grín að fjórflokknum og innihaldslausum loforðum stjórnmálamanna. Þegar stjórnmálamennirnir sem Besti flokkurinn hæðist að koma síðan fram í fjölmiðlum og segjast vera alvarlegi valkosturinn í komandi borgarstjórnarkosningum er flestum ljóst að stjórnmálamennirnir skynja ekki takt tímans. Þeir ríghalda í þá draumsýn sína að ekkert hafi breyst og brýnt sé fyrir þjóðarhag að þeir nái kjöri. Ekki er ljóst hvaðan þeim kemur sú hugmynd að þeir séu ómissandi en það hvarflar að manni að sú hugmynd hafi fæðst sama kvöld og stjórnmálamaðurinn náði kjöri í borgarstjórn.
Stjórnmálamennirnir þora fæstir að lasta kröftuglega framboð Besta flokksins enda er ekki viturlegt að hæða það sem er fjörugt og frumlegt. Slíkt gera bara fýlupokar. Um daginn var Sóley Tómasdóttir reyndar í nokkru uppnámi vegna góðs gengis Besta flokksins í skoðanakönnunum. Hún sagði af miklum þunga að borgarbúar yrðu að muna að kosningarnar snerust um framtíð barnanna. Ekki verður með góðu móti séð hvaða ógn börnum stafi af því að Jón Gnarr setjist í borgarstjórn. Varla étur hann ungbörn í morgunmat.
Dagur B. Eggertsson tók svo fram í viðtali að á lista Samfylkingar væru ný andlit. Honum fannst það greinilegur kostur á framboði síns flokks. En þegar kemur að endurnýjun slær enginn út lista Besta flokksins. Þar eru allir frambjóðendur ný andlit í augum kjósenda. Engir prógrammeraðir stjórnmálamenn á þeim bænum.
Það er engin ástæða fyrir atvinnustjórnmálamennina að tala eins og ekki sé hægt að treysta frambjóðendum Besta flokksins fyrir nokkurs konar uppbyggingu í borginni. Þar er fólk sem hefur náð góðum árangri í lífinu, hefur sköpunarkraft, ríkt ímyndunarafl og kraft til að koma hugmyndum í framkvæmd. Þetta hljóta að vera eiginleikar sem henta í pólitík.
Mánuðum saman hefur almenningur reynt að koma þeim skilaboðum til stjórnmálamanna að þeir standi sig ekki. Stjórnmálamennirnir hafa ekki hlustað. Það eina sem fær þá til að vakna af doðanum er ef atkvæðin rata ekki til þeirra. Það þarf að koma stjórnmálamönnunum í snertingu við raunveruleikann. Sennilega er það helst gert með því að kjósa þá ekki. kolbrun@mbl.is
Kolbrún Bergþórsdóttir