Ingibjörg Sigríður Hjörleifsdóttir fæddist á Sólbakka í Önundarfirði 20. ágúst 1928. Hún lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði 5. apríl 2010.

Útför Ingibjargar fór fram frá Holtskirkju í Önundarfirði 21. apríl 2010.

Ingibjörg Sigríður Hjörleifsdóttir er dáin og blessuð sé minning hennar. Hún var fædd á Sólbakka í Önundarfirði og foreldrar hennar voru Hjörleifur Guðmundsson og Gunnjóna Sigrún Jónsdóttir og bjuggu þau alla tíð á Sólvöllum. Gunnjóna Sigrún var ömmusystir mín, amma mín var dáin og afi minn, dóu þau bæði úr berklum. Ég var eins og hálfs árs þegar foreldrar mínir skildu, eftir að vera búin að fæða allan barnahópinn tóku þau hjónin mig til sín, þannig kom ég til Önundarfjarðar og sá fjörður er mér afar kær. Ég fékk þá elsku og kærleika, Sigrún frænka var falleg og menntuð og Hjörleifur var vel gefinn og mikill atorkumaður. Á þessum árum sem ég ólst upp var mér gefið allt sem ég þurfti og er ég svo þakklát og bið góðan Guð að blessa allt skyldfólk. Ég er mjög hamingjusöm að hafa fengið svona gott uppeldi á menningarheimili, þar lærði ég að lesa og skrifa og ég man svo vel að ég var signd, bænirnar voru beðnar og mér kennt. Allar þær myndir er voru fyrir ofan rúmið mitt voru af ættmennum mínum og Jesú Kristi.

Heimilið var stórt, börnin farin og gift en komu aftur með maka sína og börn. Ég man svo vel þegar Inga frænka ól sinn fyrsta, Steinþór sinn, ég hélt mikið upp á hann, fannst mér hann vera svo góður og fallegur. Síðan gifti Inga sig, eiginmaðurinn hét Hjörtur, þau giftu sig á Sólvöllum og mér fannst þau vera svo falleg og það var sr. Jón í Holti sem gifti þau. Þau settust að á Ísafirði, síðan eignuðust þau synina Hrafn og Hjört. Mér fannst Inga vera svo falleg og jafnvel dulræn og tók ég alltaf mark á því sem hún sagði mér. Hún hafði góða frásagnargáfu, kunni vel að segja frá og þekkti margt, var listræn og hafði smekklegt heimili, góður var alltaf maturinn hjá henni. Inga frænka var mér svo góð og tók mig oft á sumrin, þar var ég hjá henni og oft fórum við í sumarbústaðinn í skóginum, henni fannst garðyrkjan skemmtileg.

Inga var tónelsk, málaði fallegar myndir, hún var trúuð og leitaði ég oft til hennar. Það var í síðasta sinn sem ég hitti Ingu á ættarmóti í Skorradal í Borgarfirði. Vegna veikinda minna hef ég ekki getað heimsótt hana en ég hringdi til hennar en þá var hún orðin veik. Ég bið góðan Guð að blessa skyldfólk hennar og Guð blessi hana.

Guðrún Ingibjörg

Jónsdóttir.