Erla Lára Guðmundsdóttir fæddist í Stykkishólmi 8. júlí 1930. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 7. maí síðastliðinn.
Foreldrar hennar voru Guðmundur Einarsson, kaupmaður í Stykkishólmi, f. í Dúná í Hörðudalshreppi í Dalasýslu 25. feb. 1888, d. 8. apríl 1933 og Aðalbjörg Helga Þorvarðardóttir, fædd á Seyðisfirði 2. desember 1899, d. 28. september 1981.
Erla giftist 20. desember 1952 Hauki Steinari Bjarnasyni frá Húsavík. Erla og Haukur eignuðust sjö börn. Þau eru: Helga, f. 6. apríl 1952, Bára, f. 9.janúar 1954, Anna Rut, f. 27. ágúst 1956, látin, Bjarni Steinar, f. 21.júní 1960, Haukur, f. 18.apríl 1963, Dagmar Krístín, f. 29. maí 1964 og Guðmundur Steinar, f. 10. mars 1968. Barnabörn eru 18 og barnabarnabörn 19. Erla var heimavinnandi húsmóðir til margra ára en árið 1968 fluttu þau hjón til Keflavíkur. Í nokkur ár vann Erla í fiski hjá Hraðfrystihúsi Keflavíkur og Útvegsmiðstöðinni ásamt því að sinna heimilisstörfum þar sem Haukur var mikið til sjós.
Útför Erlu fór fram frá Keflavíkurkirkju 14. maí 2010.
Elsku mamma mín. Ekki hefði ég trúað því að þessi fimmtudagur sem ég kom til þín yrði sá síðasti. Þegar ég kom baðstu mig að klára að skrifa það sem þú vildir láta syngja yfir þér og þær kveðjur sem þú vildir að kæmust til skila. Fannst mér þetta mjög erfitt en fór að óskum þínum. Þú ert nú ekkert venjuleg, vissir alltaf hvað þú vildir og varst mjög ákveðin. Það var ekki annað hægt en að hlæja stundum að því hvernig þú sagðir orðin. Þú varst alltaf svo traust, varst alltaf til staðar hvenær sem er fyrir mig, enda vorum við ekki bara mæðgur heldur bestu vinkonur. Alltaf gat ég leitað til þín og létt á hjarta mínu við þig.
Þegar pabbi dó þá dó mikið innra með þér sem var skiljanlegt þar sem þið voruð mjög samrýnd hjón. Elsku mamma mín, eitt veit ég, að þú átt bestu vinkonu í heimi hana Önnu. Þið áttuð alltaf góðar stundir saman og þar sem þið voruð var alltaf hægt að hlæja, einnig eru hjónin Jón og Benný þínir vinir á Framnesveginum. Ég kom oft til þín á Framnesveginn í kaffi og áttum við margar góðar stundir saman enda gátum við talað um allt saman. Jæja, elsku mamma mín, nú ertu komin til pabba og Önnu Rutar systur og veit ég að þér líður vel núna. Þú þurftir að glíma við slæman sjúkdóm sem var þér mjög erfiður. Það var einnig stutt stoppið á hjúkrunarheimilinu Garðvangi þar sem þú bjóst rétt um einn mánuð en kallið kom áður en þú snerir þangað aftur, elsku mamma mín. Mér finnst ég geta talað endalaust um okkar samskipti en ég geymi þau í hjarta mér.
Vil ég fyrir hönd okkar systkina þakka starfsfólki á hjúkrunarheimilinu og starfsfólki á sjúkrahúsi Keflavíkur fyrir frábæra umönnun og einnig vil ég sérstaklega þakka lækninum hennar, Sigurði Þór, fyrir hversu frábær læknir og einlægur hann var í garð móður okkar enda er það hann sem hún treysti best af öllum.
Elsku mamma mín, ég veit að nú líður þér vel og minning þín, pabba og Rutar systur lifi í hjarta mínu.
Þín dóttir,
Bára.
Ég á eftir að sakna þess mikið að geta ekki komið á Framnesveginn til þín í heimsókn, hlegið með þér og hlustað með þér á Vilhjálm Vilhjálmsson syngja lagið söknuður sem þér fannst svo fallegt og lagið Rósina með Jóni Sigurðssyni. Það var líka svo yndislegt að heyra hvað þú varst þakklát fyrir að eiga Önnu sem vinkonu, þér þótti ofboðslega vænt um hana, það veit ég, og þegar þú fórst á Garðvang hafðir þú rosalegar áhyggjur að því að Anna kæmist ekki í kaffi til þín á hverjum degi. Elsku Anna mín, ég veit að söknuður þinn er mikill.
Elsku amma, það var svo gaman að fara með þig í fatabúðir vegna þess að þú hélst oft á tíðum að þú værir 18 ára ekki að verða áttræð, alltaf fórstu að skoða rekkana sem voru fyrir ungu dömurnar en ekki fyrir konur á þínum aldri. Þegar ég benti þér á að þú værir við vitlausan rekka sagðir þú að hitt væri bara fyrir eldri konur og myndi sko ekki klæða þig. Ég get endalaust talið upp góðar og skemmtilegar minningar um þig, elsku rósin mín, en ætla að geyma það þangað til við hittumst aftur.
Elsku amma, ég á eftir að sakna þín mikið en veit að þú ert hjá afa og hann hugsar vel um þig. Elsku mamma, Bára, Haukur, Bjarni, Dagga, Gummi og aðrir aðstandendur, ykkur votta ég mína dýpstu samúð.
Legg ég nú bæði líf og önd,
ljúfi Jesús, í þína hönd,
síðast þegar ég sofna fer
sitji Guðs englar yfir mér.
(Hallgrímur Pétursson.)
Elsku amma, minning þín er ljós í lífi mínu.
Þín,
Aðalheiður Erla og fjölskylda.
Þín vinkona,
Anna Annelsdóttir.