Einar K. Guðfinnsson
Einar K. Guðfinnsson
Eftir Einar Kristin Guðfinnsson: "Teljum við það koma til greina að fjárveitingarvaldið, sem stjórnarskráin okkar hefur falið Alþingi, verði framvegis úti í Brussel?"

Þeirri skoðun vex nú sýnilega fiskur um hrygg að evrusamstarfið standist ekki að óbreyttu. Í fullri alvöru er rætt um að forsenda þess sé brostin. Þessi stórbrotna hugmynd um sameiginlega mynt, eigi sér því aðeins lífsvon að Evrópusambandið fái frekari ítök í efnahagsstjórn aðildarríkjanna, sérstaklega á sviði ríkisfjármála. Fall evrunnar síðustu vikur, vandræðin í efnahagsmálum einstakra ríkja og mikil almenn vantrú hefur kveikt þessa umræðu.

Í þessu sambandi hefur verið velt upp þeirri spurningu hvort samstarf eins og það sem Evrópuþjóðirnar eiga með sér um sameiginlegan gjaldmiðil, standist ekki mótvind. Hugmyndin um evruna naut sannarlega mikils stuðnings þegar flest lék í lyndi. En öðru máli gegnir nú þegar á reynir fyrir alvöru.

Rökin sem nú skjóta skyndilega upp kollinum eru okkur Íslendingum ekki alveg ókunn. Bent er á að til þess að vel takist til þurfi að vera samhljómur í stjórn ríkisfjármála og peningamála. Það dugi ekki að beita peningalegu aðhaldi nema því aðeins að samhliða sé gætt aðhalds á ríkisfjármálahliðinni. Þetta er boðskapur sem heita má viðtekinn og fáir hafa í sjálfu sér mótmælt.

Í löndum þar sem peningamálastjórn og stjórn ríkisfjármála er á hendi innlendra stjórnvalda má segja að verkefnið sé í raun einfaldara, eins og við blasir. Það er svo önnur saga hvernig mönnum finnst hafa tekist til í hverju tilviki.

Hvað er til ráða þegar ríkissjóðshallinn fer úr böndunum?

En öðru máli gegnir hins vegar þegar litið er til þeirra ríkja sem tekið hafa upp evruna. Þar er peningamálastjórnin í höndum hins evrópska seðlabanka. Stjórn ríkisfjármála er hins vegar verkefni ríkisstjórna einstakra ríkja. Að sönnu er það skilyrði sett fyrir aðild að myntbandalaginu að halli á ríkissjóði sé innan tiltekinna marka. Samkvæmt Maastricht-skilyrðunum ber ríkjum sem vilja taka upp evru að tryggja að halli á ríkissjóði sé ekki meiri en 3%.

Reynslan sýnir okkur að ríkjum sem nota evruna gengur ákaflega misjafnlega að halda sig innan þess ramma sem evrusamstarfinu er ætlað að marka. Nýlega birtist til dæmis yfirlit í breska blaðinu Sunday Times sem varpar á þetta ljósi. Í Portúgal er ríkissjóðshallinn 9,4% af vergri landsframleiðslu, Spáni 11,2%, Grikklandi 13,6% og Írlandi 14,3%. Sem sagt þrefalt til fimmfalt meiri ríkissjóðshalli en leikreglur Evrópusambandsins kveða á um gagnvart þeim ríkjum sem talin eru uppfylla skilyrði fyrir upptöku evrunnar.

Ábending Niall Ferguson

Það blasir því við að ríkisfjármálastefna þessara landa innan evrusamstarfsins er í hróplegri mótsögn við þær leikreglur sem gilda. Það er þessi staðreynd sem nú hefur fengið ýmsa aðdáendur evrusamstarfsins til þess að klóra sér rösklega í höfðinu og spyrja sjálfsagðrar og augljósrar spurningar: Hvað er til ráða?

Rétt eins og menn telja almennt að það þurfi að vera samræmi á milli ríkisfjármálastefnu og peningamálastefnu í einstökum ríkjum gildir hið sama vitaskuld í löndum innan myntsamstarfs. Á þetta benti hinn heimsþekkti sagnfræðiprófessor við Harward, Niall Ferguson í umtalaðri grein í Newsweek 7. maí sl. Hann vitnar til þess að mesti veikleiki evrusamstarfsins felist einmitt í því að binda sig við eina mynt en hafa ekkert vald á ríkisfjármálunum. Þrátt fyrir að reglurnar segi að ríkissjóðshallinn megi aldrei vera meiri en 3% sé vandfundið hvernig því eigi að fylgja eftir. Með öðrum orðum, hvað sé til ráða þegar einstök ríki víki svo gjörsamlega af þeirri leið í ríkisfjármálum sem Maastricht-samkomulagið varðaði.

Fjárveitingarvaldið til Brussel?

Krafan sem því er uppi er sú að valdið á ríkisfjármálunum verði meira á sam-evrópskum grunni. Með því að afhenda peningamálastjórnina yfirþjóðlegu valdi þurfi hið sama yfirþjóðlega vald líka að hafa sitt að segja um framkvæmd ríkisfjármála einstakra ríkja. Ella muni evrusamstarfið einfaldlega ekki ganga upp til lengdar. Þá fer nú heldur betur að sneiðast um hið innlenda vald og spurningar um fullveldi og sjálfstæði evruríkjanna að vakna fyrir alvöru.

Nú liggur fyrir vilji meirihluta Alþingis að óska eftir aðild að Evrópusambandinu. Rökin hafa ekki síst verið þau að okkar litli gjaldmiðill gangi ekki og sé kostnaðarsamur myllusteinn um háls þjóðarinnar. Hefur þá verið látið í léttu rúmi liggja þó að peningamálastjórnin sé flutt úr landi. En nú blasir önnur spurning við. Erum við líka reiðubúin til að gefa ríkisfjármálastjórnina frá okkur? Sættum við okkur við framsal valds til yfirþjóðlegrar stofnunar í slíkum grundvallarmálum? Teljum við það koma til greina að fjárveitingarvaldið, sem stjórnarskráin okkar hefur falið Alþingi, verði framvegis úti í Brussel?

Höfundur er þingmaður.

Höf.: Einar Kristin Guðfinnsson