Guðmundur Karl Jónsson
Guðmundur Karl Jónsson
Eftir Guðmund Karl Jónsson: "Of mörg dæmi eru til um að flutningabílar sem fara inn í göngin úr báðum áttum loki inni vegfarendur, lögreglu, slökkviliðs- og sjúkrabíla þegar mínútur skilja milli lífs og dauða."

Í framhaldi af opnun Múlaganganna fyrir tveimur áratugum samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um gerð vegganga ásamt vegarlagningu milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Þáverandi vegamálastjóri skipaði samstarfshóp sem í sátu fulltrúar allra aðliggjandi sveitarfélaga og Vegagerðarinnar. Hlutverk hans var að kanna hugsanleg jarðgöng ásamt athugun á uppbyggingu núverandi vegar um Lágheiði. Litið var til ýmissa þátta, svo sem kostnaðar, umferðar, vegalengda, byggðaþróunar, snjóþyngsla og jarðfræði.

Fyrir einum áratug lauk samstarfshópurinn störfum með gerð skýrslu þegar niðurstaðan var sú að jarðgangagerð um Héðinsfjörð væri besti kosturinn án þess að kannað væri hvort þar gætu leynst hættur á snjóflóðum. Í tíð Steingríms J. Sigfússonar, þáverandi samgönguráðherra, höfðu fyrrverandi þingmenn Norðlendinga aldrei vit á því að flytja þingsályktunartillögu um uppsetningu snjóflóðavarnargarða í Héðinsfirði áður en Alþingi samþykkti hina umdeildu jarðgangagerð á þessu snjóþunga svæði. Snjóflóð sem halda áfram að hrella vegfarendur á svæðinu sunnan Múlaganganna vekja spurningar um hvort óhjákvæmilegt sé að hraða undirbúningsrannsóknum á tvíbreiðum veggöngum sem grafin yrðu 2 km norðan Dalvíkur og kæmu út nálægt Ólafsfjarðarvatni. Allar tilraunir til að sameina Dalvíkur- og Fjallabyggð í eitt sveitarfélag munu renna út í sandinn þegar aurskriður sópa jarðveginum og hættulegasta hluta núverandi vegar sunnan Múlaganganna niður í fjörurnar. Fyrr eða síðar getur þetta kæruleysi kostað alltof mörg mannslíf.

Án árangurs hafa allir þingmenn Norðausturkjördæmis verið spurðir að því hvort það sé verjandi ef íbúar Fjallabyggðar yrðu að keyra til Akureyrar í gegnum Skagafjörð og um Öxnadalsheiði þegar aurskriður á hættulegasta svæðinu norðan Dalvíkur eyðileggja tengingu nýja sveitarfélagssins norður á Tröllaskaga við Eyjafjörð. Fyrir kjördæmabreytinguna svöruðu fyrrverandi þingmenn Norðurlands eystra og vestra sem töluðu gegn Austfjarðagöngum því aldrei hvers vegna þeir hefðu enga tillögu flutt á Alþingi um að Múlagöngin yrðu tvíbreið með útskotum báðum megin. Fátt var um svör þegar þeir viku sér undan í flæmingi til þess að þurfa ekki að svara spurningum heimamanna sem vildu að þessi veggöng yrðu grafin 2-3 km norðan Dalvíkur. Þarna hefðu heimamenn við utanverðan Eyjafjörð strax losnað við slysahættuna á þessu svæði sunnan einbreiðu Múlaganganna sem nú eru orðin flöskuháls og teljast ólögleg samkvæmt reglum ESB. Of mörg dæmi eru til um að flutningabílar sem fara inn í göngin úr báðum áttum loki inni vegfarendur, lögreglu, slökkviliðs- og sjúkrabíla þegar mínútur skilja milli lífs og dauða. Af þessu hafa heimamenn í Fjallabyggð, Dalvíkurbyggð, á Akureyri og víðar á Eyjafjarðarsvæðinu áhyggjur þegar neyðartilfelli koma upp. Öruggara er fyrir íbúa Fjallabyggðar að hafa áfram minnst tvo flugvelli til að þeir geti treyst á sjúkraflugið frá höfuðstað Norðurlands.

Að loknum framkvæmdum við Héðinsfjarðargöngin skulu þingmenn Norðausturkjördæmis berjast fyrir því að ríkisstjórnin taki á þessu vandamáli ef þeir ætlast til að íbúar Fjallabyggðar fái örugga heilsárstengingu við Eyjafjörð. Vestan gömlu Strákaganganna er slysahættan ekkert minni þegar haft er í huga 70 cm jarðsig á veginum í Almenningum sem nú er orðinn stórhættulegur. Spurningin er ekki hvort jarðvegurinn á þessu hættulega svæði hreinsist af klöppinni og taki núverandi veg vestan Strákaganganna með sér niður í fjörurnar, heldur hvenær. Þá verða íbúar nýja sveitarfélagsins norður á Tröllaskaga í vondum málum þegar aurskriður eyðileggja samgöngurnar við Skagafjörð. Fyrir löngu hefði átt að ákveða undirbúningsrannsóknir á jarðgangagerð undir Siglufjarðarskarð. Skammarlegt er að fyrrverandi bæjarstjórnir Siglufjarðar og Ólafsfjarðar skuli aldrei hafa fylgt þessu máli eftir. Tvíbreið jarðgöng norðan Dalvíkur og undir Siglufjarðarskarð munu tryggja íbúum Fjallabyggðar öruggari heilsárstengingu við byggðir Eyjafjarðar og Skagafjarðar heldur en einbreiðu flöskuhálsarnir sem standa alltof utarlega og uppfylla ekki hertar nútímaöryggiskröfur. Of mikil slysahætta verður af aukinni umferð í gegnum litlu sjávarþorpin nyrst á Tröllaskaga þegar kjörnir þingmenn svara aldrei spurningum heimamanna.

Höfundur er farandverkamaður.

Höf.: Guðmund Karl Jónsson