Meistarar Andres Palop markvörður Sevilla lyftir bikarnum á loft eftir sigur á Atletico Madrid í úrslitaleik spænsku bikarkeppninnar í gærkvöld. 3
Meistarar Andres Palop markvörður Sevilla lyftir bikarnum á loft eftir sigur á Atletico Madrid í úrslitaleik spænsku bikarkeppninnar í gærkvöld. 3 — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristján Jónsson kris@mbl.is Upp er komin heldur sérkennileg og óvenjuleg staða varðandi samningsmál handknattleiksmannsins efnilega, Antons Rúnarssonar. Valur gerði samning við Anton árið 2008 og gildir hann til ársins 2011.

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Upp er komin heldur sérkennileg og óvenjuleg staða varðandi samningsmál handknattleiksmannsins efnilega, Antons Rúnarssonar. Valur gerði samning við Anton árið 2008 og gildir hann til ársins 2011. Anton sagðist í samtali við Morgunblaðið í gær hafa staðið í þeirri meiningu að samningurinn væri uppsegjanlegur í sumar en raunin sé hins vegar að samningurinn hafi verið uppsegjanlegur 2009, sem sagt eftir eitt ár.

„Þegar ég skrifaði undir þennan samning við Val þá átti þetta að vera 2+1 samningur þannig að ég átti að geta sagt honum upp núna. Það hefur hins vegar einhver misskilningur orðið því í samningnum stendur 1+2. Það er náttúrlega ekki rétt enda gerir enginn 1+2 samning, þ.e. uppsegjanlegan eftir ár með tveggja ára viðbót,“ sagði Anton í samtali við Morgunblaðið í gær. Hann segist ekki hafa áhuga á því að láta þennan samning standa og segist helst vilja gera nýjan samning við Val. „Ég er því samningsbundinn Val en samningurinn er ekki réttur. Ég lít þannig á málið að Valur þurfi að semja við mig upp á nýtt,“ sagði Anton og spurður um fyrirætlanir sínar sagðist hann hafa áhuga á því að spila með Val á næstu leiktíð.„Ég neita því ekki að ég hef mikinn áhuga á því að spila með Val enda er hann mitt uppeldisfélag. Það hefur verið draumurinn lengi en ég hef ekki fengið tækifæri til þess síðustu tvö ár. Kannski er komið að því núna en það verður bara að koma í ljós. Ég veit af áhuga annarra liða og hef fengið símhringingar en hef ekki farið á neina fundi því ég hef ekki viljað fara á bak við Val,“ bætti Anton við.

Anton inni í áætlunum Júlíusar

Júlíus Jónasson, nýráðinn þjálfari karlaliðs Vals í handknattleik, segir Anton vera einn þeirra leikmanna sem hann ætlar að byggja á hjá Val. Anton er uppalinn Valsari en var í láni hjá Gróttu í vetur og hjá Akureyri tímabilið á undan. Júlíus tjáði Morgunblaðinu í gær að Anton væri samningsbundinn Val og ekki til sölu. „Það er alveg á kristaltæru og hann var bara lánaður til Gróttu. Anton var á æfingu hjá okkur í gær (á þriðjudag) og á fundi hjá okkur. Ég hef rætt við Anton og sagt honum að ég vildi fá hann til baka. Formaðurinn hefur einnig verið í sambandi við Anton. Það er ekki útlit fyrir annað en að Anton spili með Val næsta vetur og ekkert annað í boði,“ sagði Júlíus við Morgunblaðið.

Anton vakti talsverða athygli fyrir vasklega framgöngu með Gróttu í vetur og skoraði 116 mörk í 21 leik í deildakeppninni í vetur. Júlíus segist hafa hrifist af frammistöðu Antons með Gróttu. „Ég var ánægður með það sem ég sá til hans í vetur og ætlaði mér alltaf að fá hann aftur í Val. Hann er einn þeirra sem ég ætla að byggja á,“ sagði Júlíus ennfremur en hann tók við Valsliðinu af Óskari Bjarna Óskarssyni.