Helga Þórðardóttir
Helga Þórðardóttir
Eftir Helgu Þórðardóttur: "Það er erfitt að spara þegar maður er góðu vanur en flestir draga úr óþarfa en halda í nauðsynjar þegar að kreppir. Við í Frjálslynda flokknum teljum velferðina vera nauðsyn og ætlum að verja hana."

Það er erfitt að spara þegar maður er góðu vanur en flestir draga úr óþarfa en halda í nauðsynjar þegar að kreppir. Við í Frjálslynda flokknum teljum velferðina vera nauðsyn og ætlum að verja hana. Við verðum að verja börnin okkar og einnig þá sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Það er óásættanlegt að börnin okkar borgi fyrir glæpi fjárglæframanna. Á krepputímum verðum við að draga úr allri yfirbyggingu. Þá eigum við við þau stjórnsýslustig sem mega missa sig án þess að grunnþjónustan skaðist. Allur lúxus eins og bílastyrkir, símastyrkir, einkabílstjórar, utanlandsferðir og fleira í þeim dúr sem ekki tengist velferð beint verður að bíða betri tíma.

Skattar á almenning hafa aukist verulega sem gerir einstaklingum erfitt fyrir, hvað þá að örva hagvöxt með neyslu. Frjálslyndi flokkurinn telur þá leið fullreynda.

Frjálslyndi flokkurinn er algjörlega andvígur sölu á auðlindum þjóðarinnar til erlendra aðila og mun gera allt til að Orkuveita Reykjavíkur verði áfram í eigu borgarbúa.

Frjálslyndi flokkurinn vill beita sér fyrir því að Reykjavíkurborg kaupi innlendar vörur til að efla íslensk fyrirtæki.

Mjög nauðsynlegt er að skapa fyrirtækjum möguleika á að vaxa og dafna í borginni. Tengja þarf grunnatvinnuvegi eins og sjávarútveg og iðnað við þekkingariðnað til að auka verðmæti. Sprotafyrirtæki atvinnulífsins verða að fá andrými, jafnvel með ívilnunum, ekki dugar að skattleggja hvert annað eða að við sitjum öll í nefndum á vegum hins opinbera. Það verður seint í askana látið.

Höfundur er oddviti Frjálslynda flokksins í Reykjavík.

Höf.: Helgu Þórðardóttur