Elísabet Jónsdóttir fæddist á Breiðabólstað í Miðdalahreppi í Dalasýslu hinn 11.10. 1924. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 11. maí síðastliðinn.

Útför Elísabetar fór fram frá Seljakirkju 19. maí 2010.

Við eigum óendanlega margar og góðar minningar um ömmu. Það var alltaf notalegt að koma til hennar og afa í Hamrahlíðina þar sem afi sat og las og amma prjónaði. Það var alltaf svo mikil ró yfir heimili ömmu og afa. Við vorum mikið hjá þeim systkinin þegar við vorum yngri og dagarnir þar voru allir með svipuðu sniði. Á morgnana fengum við ristað brauð sem var ristað eftir pöntun. Þegar afi kom heim í hádegismat vorum við búin að hræra skyr með ýsunni í hádeginu. Í minningunni gekk afi alltaf að ömmu við eldhúsvaskinn, kyssti hana á kinn og sagði „sæl Beta mín“. En afi var sá eini sem kallaði ömmu Betu. Af einskærri list bakaði amma sínar frægu pönnukökur eitthvað sem enginn getur leikið eftir og við mokuðum sykri yfir þær úr sykurkarinu sem hefur fylgt þeim alla okkar tíð. Þegar þau fluttu svo í Árskóga varð ekki mikil breyting á umhverfinu þar sem húsgögnum var nánast raðað inn á sama hátt og í Hamrahlíðinni. Þeirra heimili hefur því verið eitt af fáum hlutum sem hefur haldið sér nokkurn veginn óbreytt alla okkar ævi. Amma sat alltaf í sama stólnum, spjallaði við okkur og prjónaði enda var hún mikil hannyrðakona. Hún prjónaði óteljandi peysur á okkur auk þess sem hún reyndi að kenna okkur til verka með misgóðum árangri þó.

Amma var mikil fjölskyldukona, gerði allt fyrir sína og setti fjölskylduna alla tíð í forgang. Hún vildi hafa okkur hjá sér eins mikið og hægt var og það var alltaf gaman að koma í heimsókn. Ómissandi þáttur jólahátíðarinnar er jóladagur hjá ömmu og afa en þar hittist öll fjölskyldan í hangikjöt og uppstúf, ræðir þjóðmálin og krakkarnir spila. Vonandi höldum við þeirri hefð áfram og heiðrum þannig minningu ömmu okkar og afa.

Amma var alla tíð mjög félagslynd og starfaði af krafti með kvennadeild Rauða krossins. Þegar við vorum lítil fengum við stundum að vera í pössun hjá ömmu og afa og þá var mjög spennandi að fá að fara með ömmu á Landakot að útdeila bókum af bókavagninum. Þær ferðir voru mikil ævintýri og í lok dagsins, þegar búið var að heimsækja sjúklingana, fengum við svo stundum appelsín í gleri að launum.

Við getum verið þakklát fyrir hversu hress amma var fram á síðasta dag. Amma naut hvers dags og var glöð með lífið og tilveruna. Það var auðvelt að gleyma að aldurinn væri að færast yfir hana þar sem hún var alltaf vel með á nótunum, fylgdist vel með því sem var að gerast hjá okkur öllum og í þjóðfélaginu. Þrátt fyrir að það sé sárt að kveðja ömmu í dag þá er mikil huggun í því að vita af henni með afa núna.

Elsku amma þú skilur eftir þig stóra, samhenta og góða fjölskyldu sem mun ávallt minnast þín með hlýhug.

Þín barnabörn,

Ásdís Björg, Elísabet og Kjartan Ari.

Ég kynntist Elísabetu móður Bjargar, vinkonu minnar, fyrir margt löngu. Framan af voru samskipti okkar að mestu í kringum afmælisveislur og önnur tækifæri af slíku tagi. Nú á síðari árum hafa leiðir okkar legið saman í ýmsu öðru samhengi og kynnin aukist.

Eftir því sem ég kynntist Elísabetu betur varð mér ljóst að þar fór gáfuð og grandvör kona, með auga fyrir spaugilegri hliðum mannlífsins. Maður kom ekki að tómum kofunum í samræðum við hana, það var alltaf gefandi að hitta hana og ræða málin. Hún las mikið og fylgdist af áhuga með samfélagsmálum, menningu og sínu fólki.

Þegar hún missti Guðmund, lífsförunaut sinn, fyrir nokkrum árum var aðdáunarvert að sjá hvernig hún bjó sér líf við breyttar aðstæður með aðstoð barna sinna. Hún naut þess að umgangast vini og fjölskyldu, sækja listviðburði og fara í ferðalög og var virk fram á síðasta dag.

Ég tala fyrir hönd okkar hjóna þegar ég þakka henni fyrir gefandi samveru, nú síðast þegar við heimsóttum þær mæðgur í Hrunamannahreppi í sumar sem leið þar sem við nutum gestrisni og hlýju og skoðuðum markverðar minjar og náttúru. Ég veit að bæði Björg og aðrir afkomendur Elísabetar missa mikið en minningin um góða konu lifir.

Sigríður Jónsdóttir.

Elsku amma okkar er látin. Það er erfitt að átta sig á því til fulls því þetta gerðist svo snögglega og okkur fannst hún eiga mörg góð ár eftir.

Það var alltaf svo gott að fara í heimsókn til hennar. Ávallt var tekið vel á móti manni og vippað fram mörgum kextegundum, kökum og kaffi, og oftast ömmupönnsum og appelsíni líka. Það var samt ansi erfitt að fá uppskriftina að pönnsunum þar sem hún notaðist ekki við uppskrift, heldur fór eftir tilfinningunni með „smáeggjum, hveiti og mjólk þar til þær væru orðnar passlegar“. Hún fylgdist vel með þjóðmálunum og hafði sterkar skoðanir á flestu – enda var mjög gaman að rökræða við hana og þá sérstaklega þegar hún sagði eitthvað með stríðnisglampa í augum. Hún var líka mjög vel lesin, og þegar við vorum yngri og áttum að læra íslensk ljóð utanbókar kunni hún þau öll og fannst gaman að hlýða okkur yfir. Ef kom að því að við ættum sjálf að yrkja kvæði í skólanum og börmuðum okkur yfir að það ætti að vera með stuðlum og höfuðstöfum, þá var enga vorkunn að fá frá henni heldur sagði hún að það væri ekkert mál – við ættum bara að yrkja. Og viti menn – það var ekki mikið flóknara en svo þegar maður hætti að kvarta.

Reglulega spurði hún okkur hvort okkur vantaði ekki eitthvað sem hún gæti prjónað fyrir okkur, henni fannst svo gott að hafa alltaf eitthvað til að prjóna. Það eru ófáar sérpöntuðu ullarpeysurnar sem við fengum frá henni, og margar af ömmupeysunum tók maður svo miklu ástfóstri við að þær urðu gatslitnar.

Þó það sé sárt að hugsa til þess að við eigum aldrei eftir að geta farið í heimsókn til ömmu Elísabetar aftur þá er það okkur huggun hvað hún fékk að fara snögglega og þjáðist ekki. Þau afi áttu langt og gott líf saman. Við skynjuðum það hvað það var henni erfitt þegar afi átti í sínum veikindum undir það síðasta og líklegast hefði hún ekki viljað það fyrir sjálfa sig.

Elsku amma okkar, við erum þakklát fyrir stundirnar sem við áttum saman og við munum minnast þeirra með hlýju alla tíð. Við látum fylgja með tvö af ljóðunum sem hún hjálpaði okkur með og minna okkur á hana.

Ó, blessuð vertu, sumarsól,

er sveipar gulli dal og hól

og gyllir fjöllin himinhá

og heiðarvötnin blá.

(Páll Ólafsson.)

Þér frjálst er að sjá hve ég bólið mitt bjó

ef börnin mín smáu þú lætur í ró,

þú manst að þau eiga sér móður.

Og ef að þau lifa, þau syngja þér söng

um sumarið blíða og vorkvöldin löng,

þú gerir það vinur minn góður.

(Þorsteinn Erlingsson.)

Guð geymi þig og afa, þín barnabörn,

Elín Birna, Agnes Björg og Arnór Gunnar.