Launin lækkuð Með úrskurði sem kjararáð felldi í mars 2009 lækkuðu laun dómara, bæði við Hæstarétt og héraðsdóma landsins, um 10 til 15%.
Launin lækkuð Með úrskurði sem kjararáð felldi í mars 2009 lækkuðu laun dómara, bæði við Hæstarétt og héraðsdóma landsins, um 10 til 15%. — Morgunblaðið/G.Rúnar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
fréttaskýring Hlynur Orri Stefánsson hlynurorri@mbl.is Dómarafélag Íslands bíður eftir umsögn Evrópusamtaka dómara um 10 til 15% lækkun dómaralauna sem kjararáð ákvað í mars 2009.

fréttaskýring

Hlynur Orri Stefánsson

hlynurorri@mbl.is

Dómarafélag Íslands bíður eftir umsögn Evrópusamtaka dómara um 10 til 15% lækkun dómaralauna sem kjararáð ákvað í mars 2009. Dómarafélagið hefur mótmælt kjaraskerðingunni og lagði á fundi Evrópusamtakanna í byrjun maí fram gögn og bað samtökin að veita álit á því hvort skerðingin væri lögmæt og hvort jafnræðis hefði verið gætt.

„Viðbrögð Dómarafélagsins við kjaraskerðingunni munu meðal annars ráðast af því hver niðurstaða Evrópusamtakanna verður,“ segir Ingveldur Einarsdóttir, héraðsdómari og formaður félagsins.

Alþingi samþykkti í lok árs 2008 lög þar sem kveðið er á um 5 til 15% launalækkun ráðherra og alþingismanna og að kjararáð skuli til samræmis endurskoða kjör annarra sem undir það heyra. Jafnframt var kveðið á um að launin mættu ekki hækka til ársloka 2009, sem síðar var framlengt til 30. nóvember 2010.

Taki tillit til sérstöðu dómara

Í frumvarpi að lögunum segir sérstaklega að lækka skuli laun dómara til samræmis, en að teknu tilliti til stjórnskipulegrar sérstöðu þeirra – þ.e. mikilvægis þess að þeir séu óháðir löggjafar- og framkvæmdavaldinu. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur þó fram sú afstaða að sjálfstæði dómstóla komi ekki í veg fyrir að Alþingi lækki dómaralaun að því gefnu að lækkunin sé almenn en snúi ekki bara að dómurum.

Kjararáð klofnaði í afstöðu sinni til málsins er meirihluti þess ákvað í mars 2009 að lækka laun dómara á grundvelli laganna. Töldu tveir af fimm kjararáðsmönnum að ekki hefði átt sér stað sú almenna launalækkun sem vegna sérstöðu dómstóla er skilyrði þess að lækka megi laun dómara.

Athyglisvert er að þegar hækkunarbannið var framlengt með lögum sem samþykkt voru fyrir síðustu áramót, skilaði meirihluti efnahags- og skattanefndar áliti þar sem lögð er áhersla á að kjararáð nýti það svigrúm sem orðalag laganna veiti til að taka mið af sérstöðu dómsvaldsins.

Dómarafélagið sendi kjararáði í framhaldinu erindi þar sem meðal annars er vísað til álitsins og kjararáð beðið um að upplýsa hvort það telji jafnræðis hafa verið gætt við launalækkunina.

Telja forsendur óbreyttar

Í svarbréfi kjararáðs, sem sent var undir lok síðasta mánaðar, kemur fram að meirihluti ráðsins telur ekki tilefni til að endurskoða laun dómara. Segir þar að ráðinu hafi verið falið að lækka laun allra þeirra sem undir það heyra, en dómarar séu 8% af þeim hópi. Lækkunin sé því nægilega almenn til að lækkun dómaralauna vegi ekki að sjálfstæði dómstólanna. Þá bendir meirihlutinn á að Alþingi fjölgaði nýverið í þeim hópi sem fellur undir ráðið, en sem kunnugt er lækkaði ráðið laun svonefndra ríkisforstjóra sem áður heyrðu ekki undir það.

Minnihluti ráðsins áréttar hins vegar fyrri skoðun sína og segir ekkert hafa gerst síðan laun dómara voru lækkuð sem breyti þeirri afstöðu. Telur minnihlutinn rétt að taka launakjör dómara til endurskoðunar og að hafa beri hliðsjón af áðurnefndu áliti meirihluta efnahags- og skattanefndar um sérstöðu dómsvaldsins við þá endurskoðun.

ÁÐUR DÆMT UM LÆKKUN

Vegið að sjálfstæðinu

Héraðsdómur Reykjavíkur komst í lok árs 2006 að þeirri niðurstöðu að ákvörðun Alþingis um að afnema með lögum úrskurð Kjaradóms (sem nú heitir kjararáð) um hækkun dómaralauna samrýmdist ekki grunnreglum stjórnarskrárinnar um sjálfstæði dómstóla.

Kjaradómur hafði í lok árs 2005 hækkað laun forseta um 6,15% og annarra sem undir hann heyrðu um 8,16%. Hækkunin vakti hörð viðbrögð og felldi Alþingi dóminn ur gildi en ákvað að hækka þess í stað launin um 2,5%.

Guðjón St. Marteinsson, dómari við héraðsdóm Reykjavíkur, hafði höfðað mál gegn ríkinu sem var dæmt til að greiða honum vangreidd laun og málskostnað.