Hallgrímur Skúli Karlsson fæddist í Reykjavík 20. maí 1960. Hann lést 9. maí á heimili sínu Bugðutanga 9 í Mosfellsbæ.

Skúli var jarðsunginn frá Dómkirkjunni í Reykjavík 18. maí 2010.

Nú er hann fallinn frá langt, langt fyrir aldur fram hann Skúli frændi, góður vinur og vinnufélagi í áratugi. Með Skúla er genginn góður, hjartahlýr og vinnusamur maður sem gott var að eiga að, því bónbetri manni hef ég aldrei kynnst. Ef einhver möguleiki var á að hann gæti hjálpað gerði hann það umsvifalaust og margir voru þeir sem nutu þessarar hjálpsemi hans. Skúli var góður sögumaður með yfirgripsmikla þekkingu á mörgum málaflokkum. Afar sjaldgæft var að koma að tómum kofunum hjá honum; einna helst ef farið var að ræða knattspyrnu að svipurinn varð fjarræn og hann greinilega að hugsa um eitthvað allt annað. Margar eru minningarnar og góðar, bæði í starfi og leik. Fyrstu minningarnar frá fullorðinsárunum snúast um heilu næturnar við bílaviðgerðir á mismerkilegum jeppabifreiðum í Lágmúlanum um og fyrir 1980, til að komast á fjöll eða í torfærur. Þá var oft glatt á hjalla. Ekki eru þær fáar minningarnar úr Stíflisdalnum þar sem hann undi sér best við veiðar eða trjárækt, þó að helst vildi hann vera í stærri framkvæmdum. Alltaf var jafn gott að koma til feðganna og Bitten og síðar Bergrósar og barnanna í dalnum, hvort sem var til að hjálpa til, veiða eða bara til að fá kaffisopa og spjalla.

Margar eru einnig minningarnar úr samstarfinu hjá Ormsson en hvað skemmtilegastar að vera á töluverðum hraða á bíl um miðja nótt í Þýskalandi eða Ítalíu og ekki búnir að panta hótel.

Lífið er stjarna,

er ljómar um nótt,

hlær við sem snöggvast,

hrapar svo skjótt.

Er þá allt þrotið

við umskiptin hér?

Sólkerfahöfundur,

svaraðu mér.

(Kolbeinn Högnason.)

Elsku Bergrós, Ásdís, Ingibjörg og Gummi, Kalli, Þóra og Eiríkur, Guð veiti ykkur styrk í sorg ykkar.

Þorsteinn Björnsson.

Æðruleysi – sætta sig við það sem við fáum ekki breytt. Þetta eru orð sem koma upp í hugann þegar hoggið er svo nálægt hjarta okkar sem orðið er með sviplegu andláti Skúla Karlssonar. Það er erfitt að skrifa kveðjuorð til manns sem fellur frá í blóma lífsins fullur orku og lífi. En eins og hendi sé veifað er hann tekinn burtu frá okkur og við stöndum agndofa og hljóð hjá og getum ekkert gert.

Það sem við þó eigum er minning um góðan og ljúfan dreng og hún verður ekki frá okkur tekin.

Það er til margs að minnast og þakka fyrir samveru sem spannar yfir 30 ár. Skúla kynntist ég þegar mágkona mín, Bergrós, og hann kynntust. Bergrós sem ekki var mikið fyrir útilegur og þess háttar stúss, fór allt í einu að hafa áhuga á útilegum, ferðum um óbyggðir landsins og hundum. Við uppgötvuðum þá að eitthvað mikið var að gerast hjá henni og lífið að taka breytingum. Skúli var kominn inn í hennar líf og okkar. Árin sem á eftir komu voru annasöm við fæðingar barna þeirra, uppeldi og að hlúa að fjölskyldunni. Það var aldrei nein lognmolla í kringum líf þeirra, alltaf mikið um að vera.

Ferðalög áttu hug og hjarta Skúla og naut hann þess að ferðast um landið sitt, fjöll, jökla og óbyggðir á hinum ýmsu farartækjum. Einnig voru tíðar ferðir fjölskyldunnar erlendis. Þegar litið er um öxl og hugsað um þau ár sem við áttum með Skúla stendur upp úr mynd af stórum, hlýjum og góðum dreng sem tók á móti fjölskyldunni með opinn faðm. Hann bauð okkur velkomin og var höfðingi heim að sækja, hvort sem komið var á heimili fjölskyldunnar eða í sælureit í sveitinni þeirra Stíflisdal. Þar undi fjölskyldan sér vel við veiði í vatninu og gróðursetningu trjáa og bara naut samverunnar með fjölskyldu og vinum. Ávallt voru allir velkomnir og alltaf hlýja brosið og faðmurinn stóri.

Skúli tók sér margt fyrir hendur um ævina og féll sjaldan verk úr hendi. Hann naut þess sem hann gerði og þau verk sem liggja eftir hann sýna dugnað og mannkosti hans. Þeir sem hann þekktu voru stoltir af því að vera vinir hans.

Elsku Bergrós, Ásdís, Systa, Gummi og afastrákurinn Skúli Freyr, megi sá arfur sem bjó í lífsgildum Skúla verða ykkur hvatning og leiðarljós áfram veginn sem framundan er.

Tengdaforeldrum sínum var hann einstaklega góður og umhyggjusamur og vilja þau að komi hér fram þakklæti þeirra til hans fyrir allt og allt.

Það er hafsjór minninga sem fylla hugann þegar hugsað er um Skúla og það er gott að eiga þær til að hugga sig við og reyna að sætta sig við það sem við fáum ekki breytt.

Við Halldór og börn okkar þökkum þær stundir sem við áttum með Skúla og kveðjum góðan dreng með þakklæti og hlýju.

Sumarlína Pétursdóttir.

Boðskort í 50 ára afmælið hans Skúla barst fyrir nokkru; afmælisgjöfin innpökkuð og það átti að gleðjast með Skúla og fjölskyldu hinn 15. maí. Það varð ekkert afmælishóf þar sem Skúli er farinn í ferð sem aldrei tekur enda og fjölskyldan eftir heima í sorg.

Skúli var átta ára þegar ég kynntist honum og honum leist ekkert á mig svona til að byrja með. Ég var þá væntanleg eiginkona bróður hans sem hann dáði framar öðrum og honum leist ekki á að ég var rúmlega þremur árum eldri en bróðirinn. En vinátta átti eftir að verða á milli okkar með tímanum og þó að leiðir mínar og fjölskyldu hans ættu eftir að skilja var ég eftir sem áður hluti af hans fjölskyldu. Ég var síðast með fjölskyldu hans heima hjá honum annan í jólum. Þar mætti mér stór, sterkur og hlýr faðmur Skúla. Mér finnst ég enn finna fyrir faðmi hans nú þegar ég kveð hann um sinn.

Sem ungur maður varð hann fyrir mikilli sorg þegar æsku- og besti vinur, Guðmundur Kvaran, fórst í hörmulegu flugslysi í flugvél sem þeir nokkrir félagar höfðu keypt saman. Hugur Skúla stóð til að fara í flugið, fyrst til gamans, en kannski til framtíðar. Þarna varð þá endapunktur á því sviði.

Rúmum mánuði eftir lát Guðmundar bjargaði Skúli 10 mannslífum þegar þyrla frá Varnarliðinu hrapaði við björgunarstörf á Mosfellsheiði. Þyrlan var að sækja slasaða úr lítilli flugvél sem hafði hrapað á heiðinni. Skúli var ásamt föður sínum og bróður við litlu vélina og horfðu þeir á þyrluna fara í loftið með áhöfn, lækni og hina slösuðu. Þegar ljóst var að þyrlan væri að hrapa til jarðar geystist Skúli af stað við annan mann á vélsleða að staðnum sem ljóst var að þyrlan myndi skella í jörðina. Faðir Skúla sem á þessum tíma var í Rannsóknarnefnd flugslysa hafði sagt honum hve áríðandi væri að rjúfa straum við flugslys ef einhver væri í aðstöðu til þess. Það var efalaust það sem Skúli ætlaði að sjá til að gert yrði. Við aðkomuna að þyrlunni var bensín fljótandi, logar stóðu út úr öðrum mótornum, flugstjórinn fastur og gat ekkert að gert. Skúli spurði hvar höfuðrofinn væri. Í Vísi 19. des. 1979 segir „Flugstjórinn benti Hallgrími [Hallgrími Skúla] á rofann og rauf hann þegar strauminn. Þar með tókst honum að koma í veg fyrir, að eldur breiddist út í þyrlunni, en vart hefði þurft um að binda, ef eldur hefði blossað upp innan um stórslasað fólkið.“ Skúli var síðar heiðraður af Varnarliðinu fyrir björgunina og einnig af skátahreyfingunni, en Skúli var félagi í Hjálparsveit skáta í Reykjavík á þessum tíma.

Skúli átti miklu láni að fagna þegar hann og Bergrós Hauksdóttir gengu í hjónaband. Eiga þau þrjú börn og einn dótturson sem ber nafn afa síns. Þar fór samhent fjölskylda sem var Skúla allt.

Ég er viss um að margir taka vel á móti Skúla í öðrum heimi. Þar beið móðir hans, systir og bróðir ásamt horfnum ættmennum og ástvinum

Takk, Skúli minn, fyrir allt.

Margrét (Magga).

Hann Skúli Karlsson er dáinn, þetta fannst mér ótrúleg frétt, hélt fyrst að maðurinn sem færði mér þessa frétt hefði farið mannavillt, við ætluðum jú að halda upp á fimmtugsafmælið hans Skúla núna á laugardaginn.

Það var ég sem fór mannavillt, fattaði loksins að þetta væri hann Eyvi, besti vinur hans Skúla vinar míns að segja mér að hann Skúli væri dáinn.

„Hann Skúli dáinn“, ég hafði ekki frétt af neinu slysi, nei hann dó ekki í slysi, hafði fengið hjartaáfall heima hjá sér í gærkvöldi og dáið um nóttina.

Hvurslags vitleysa er þetta eiginlega, hann Skúli að deyja úr hjartaáfalli, fílhraustur maðurinn, þetta er bara svo eitthvað ólíkt honum Skúla.

Kannski er það satt sem sumir segja að Guð sé kona, það er engin leið að skilja þennan Guð.

Ég hringi í vinina, gömlu klíkuna sem myndaðist fyrir margt löngu í kringum hann Gumma Kvaran sáluga og hefur haldið hópinn í áratugi, færi þeim fréttir sem ég trúi varla sjálfur.

Ég virði fyrir mér vegginn í stigaganginum heima, þar hefur hún Sara mín hengt upp fjölskyldumyndir úr okkar 30 ára sambúð.

Ég rifja upp fimmtudagskvöld fyrir rúmum 30 árum, ekkert planað, Skúli kemur í heimsókn, vill fara í Klúbbinn, Jónki slæst í hópinn og við þrír förum í Klúbbinn, þar verð ég svo lánsamur að kynnast henni Söru minni, ægifagurri indverskri prinsessu frá Afríku, við höfum verið saman síðan og ég fer að hugleiða hvernig líf mitt hefði orðið ef Skúla hefði ekki langað að fara í Klúbbinn þetta kvöld.

Ég þakka frú Guði fyrir góðan vin.

Skúli minn, ég þakka þér fyrir samfylgdina og góðan vinskap öll þessi ár, skilaðu góðri kveðju til Gumma, þið þurfið samt ekkert að fara að plotta frekari reunion alveg á næstunni.

Elsku Begga, við Sara sendum þér og krökkunum okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Guðbjartur.

Það er sterkur strengurinn sem verður til milli tveggja stráka sem alast upp í skjóli vináttu foreldranna og nábýlis þeirra. Sá sem þessi orð ritar man þegar snáðinn kom í heiminn og bættist í þennan skemmtilega og samheldna hóp tveggja fjölskyldna sem umgengust hvor aðra nánast daglega um margra ára skeið. Heimilin stóðu báðum fjölskyldunum opin eins og þeirra eigin og samgangurinn var mikill. Þótt svo samskiptin hafi minnkað eftir að við komumst á fullorðinsárin rofnaði aldrei strengurinn sem stofnað var til á uppvaxtarárunum. Í hvert einasta skipti sem við hittumst var rétt eins og við hefðum alltaf hist, rétt eins og opnað væri skrín fullt af djásnum.

Foreldrar okkar Skúla voru nánir vinir og sérlega samrýmt fólk í alla staði. Feður okkar gengu báðir til liðs við Lionsklúbbinn Baldur á sjötta áratugnum, en sá klúbbur hefur gert sig gildandi við landgræðslu um margra áratuga skeið. Sælureiturinn Baldurshagi í Svartártorfum við Hvítárvatn ber þess glöggt vitni að þar voru sannir frumkvöðlar á ferð sem vildu vinna landinu gagn. Við Skúli fetuðum báðir í fótspor feðra okkar og gengum til liðs við klúbbinn eftir að við komumst á fullorðinsár. Þótt svo aðkoma okkar að starfsemi klúbbsins hafi verið mismikil í áranna rás voru tilfinningar okkar beggja til Baldurshaga sterkar og metnaðurinn mikill um vöxt og viðgang svæðisins. Skúli sýndi það og sannaði að hann var traustur og góður félagi sem lét til sín taka á þessum vettvangi, ekki einungis í Baldurshaga heldur einnig í Stíflisdal þar sem þeir feðgar hafa lyft Grettistaki í ræktun landsins.

Það er skarð fyrir skildi við ótímabært fráfall Skúla Karlssonar. Dugnaði hans og elju var við brugðið, enda aldrei slegið slöku við í þeim verkefnum sem hann tók sér fyrir hendur. Hann byggði upp traust og gott fyrirtæki og gat sér góðan orðstír meðal viðskiptafélaga sinna þar sem hann sýndi að hægt var að ná góðum og umtalsverðum árangri með þrotlausri vinnu, dugnaði og eljusemi.

Ég og aðrir félagar Skúla úr Lionsklúbbnum Baldri þökkum Skúla samfylgdina og hans mikilvæga framlag til hugðarefna klúbbfélaganna. Skúla verður sárt saknað, við minnumst hans með virðingu og þakklæti í huga. Við sendum föður hans og félaga okkar innilegar samúðarkveðjur, sem og Bergrósu eiginkonu hans, börnunum og barnabarninu. Minningin um góðan félaga og vin lifir.

Ásgeir Eiríksson.

Það var dapurt að frétta ótímabært fráfall Skúla Karlssonar. Það kom yfir mig sama tilfinning og þegar mér voru færðar fréttir af andláti sameiginlegs vinar okkar Skúla mörgum árum áður. Tvö skörð í vinahópinn, alltof snemmbær. Í fyrstu reiddist ég innra með mér og skammaðist yfir því að Skúli hefði ekki farið vel með sig, unnið of mikið og ekki gert nóg fyrir sjálfan sig. Fljótlega hvarf þessi hugsun og ég rifjaði upp vináttu okkar Skúla og örlæti hans. Margar af góðu minningum mínum frá æskuárunum tengjast samverustundum með honum. Skúli var afar rausnarlegur og gjafmildur drengur. Á æskuárum okkar hafði hann aðstöðu og möguleika – og hann gaf okkur félögunum óspart af þeim – ferðirnar í Þórsmörk á Unimognum, samveran í Stíflisdal, veiðiferðirnar, sjóskíðin, snjósleðar, fjórhjólin, jeppaferðirnar og fleira. Þessu hefði ég ekki átt kost á ef ekki hefði verið vegna vináttu hans og rausnarskapar. Í okkar vinasambandi var það hann sem gaf. Ég man ekki eftir að hafa gefið honum neitt nema nærveru mína sem ég hafði þó á tilfinningunni að hann kynni að meta. Skúli var afar traustur vinur og þjónustulundaður. Hann var alltaf boðinn og búinn að bjóða fram aðstoð ef einhver þurfti, þannig eru sumir og þannig munum við hjónin ávallt muna Skúla.

Á fullorðinsárum héldum við sambandi, vinahópurinn, og hittumst árlega – síðast hjá Skúla og Bergrósu. Þar var að sjálfsögðu rausnarlega boðið eins og venjulega. Skúli ætlaði að halda upp á 50 ára afmælisdaginn sinn nú í maí – nú er hann farinn að hitta vini sína og ættingja sem farnir eru úr þessu jarðlífi og ég er öruggur um að Guðmundur vinur okkar tekur á móti honum.

Elsku Bergrós og börn, við Malla biðjum Guð að hughreysta ykkur.

Vinarkveðja,

Gunnlaugur og Málfríður.

Vina- og kunningjahópurinn okkar er stór. Enn og aftur er skarð höggvið í þennan hóp. Við fengum þá harmafregn mánudagsmorguninn 10. maí að þú hefðir orðið brákvaddur kvöldið áður. Sú tilfinning sem helltist yfir okkur er hörmuleg og þín er sárt saknað.

Áhugamál tengja þennan góða hóp saman. Þar fórst þú fremstur í flokki með skipulagningu ferða á vélsleðum á vetrum eða á fjórhjólum á sumrum og fram á haust. Oftar en ekki voru Glaðheimar, skáli okkar í Jökuldölum, miðpunktur eða viðkomustaður í þessum ferðum. Við vitum að þér var annt um Glaðheima eins og öðrum vina okkar. Þar höfðu allir hlutverk, allt frá því að bera á blettinn til stærri tæknilegra verka. Þar varst þú á heimavelli. Ósérhlífinn og duglegur forkur, úrræðagóður með lausnir sem dugðu.

Við þökkum samverustundirnar sem við áttum í hjólferðum á hálendinu, sleðaferðirnar í Glaðheima og góðar stundir í Stíflisdalnum þar sem rennt var fyrir bleikju og hún grilluð á kvöldin.

Kæri vinur, það hefur verið höggvið stórt skarð í hópinn okkar og ferðirnar verða ekki samar. Við vottum Bergrós, börnunum þínum, Ásdísi, Systu og Gumma, dóttursyninum Skúla Frey innilega samúð okkar. Vertu sæll, kæri vinur, og hvíl í friði.

Guðmundur Jónsson,

Lilja Guðrún Halldórsdóttir, Páll Helgi Guðmundsson

og Guðleif Guðlaugsdóttir.

Það voru sorgartíðindi sem bárust að kvöldi 9. maí. Skúli vinur okkar hafði dáið um kvöldið. Ég vildi ekki trúa þessu, þetta gat ekki verið að gerast. Mikil sorg og reiði út í þetta ósanngjarna áfall tók völdin. Það var ekki mikið um svefn þessa nóttina, maður hugsaði margt og spurði sig af hverju maður á besta aldri væri tekinn frá okkur, við sem áttum eftir að bralla heilmikið saman, en engin svör. Það er á svona stundum sem maður verður vanmáttugur og bugaður. En við félagarnir vorum einmitt búnir að vera að tala um okkar á milli hversu kátur og glaður þú hefðir verið undanfarna mánuði og duglegur við að taka þátt í ferðum okkar í vetur og nú síðast ferð okkar vestur í Laugarás, þar var góður hópur manna sem áttu saman enn eina góðu ferðina. En ljósið í myrkrinu er allar þær góðu minningar sem við áttum saman í leik og starfi. Þær eru til endalausar margar skemmtilegar sögur af þeim tímum og mundi rúma heilu bókaflokkana ef ritað væri. Það verður sárt að koma í Storm í kaffisopa og þú ekki á sínum stað eins og þú varst alltaf, þá meina ég alltaf. En á þeim fundum þar voru rædd öll heimsins vandamál og leyst úr þeim og ferðir innan- jafnt sem utanlands og uppákomur skipulagðar, þetta var og verður miðpunktur alheimsins. Þau voru nokkur orðatiltækin sem rifjast upp í minningunni sem þú hafðir, eins og „það er eitt sem ég skil ekki af hverju er þetta ekki gert svona eða hinsegin o.s.frv. En það var það skemmtilegasta að þú fórst, held ég megi segja, aldrei sömu leið og aðrir og það skapaði oft skemmtileg tilvik og sögðum við félagarnir oft „eigum við að taka Skúlann á þetta“ en þá var rétt í þessu að hefjast aðferð sem var ekki beint hefðbundin. Það má segja að vel hafi átt við þig „maður sleppir ekki góðu basli“. Annað sagðirðu oft „hann er helvíti fínn kall“. Hlutverk þitt var margslungið og ekki síst hlutverk afa en þar eignaðist þú litla snáðann hann nafna þinn, Skúla Frey, hæfilega óþekkan og frískan gaur sem var farinn að apa upp þína takta og hann var ekki hár í loftinu þegar hann var farinn að rölta fram á brún á pallinum í Stífló og pissa fram af, þetta gerði afi alltaf og var það flottasta.

Það verður ekki einfalt að fylla skarð þitt fyrir vélsleða- og fjórhjólasportið í heild sinni, en þar varst þú mikilvægur hlekkur og studdir vel þau mál af miklum dugnaði með þátttöku í sýningum, ferðum og öðrum uppákomum og mikið starf sem lá þar að baki fyrir okkur alla sem stunda þá iðju. Hann var stór viðskiptahópurinn sem voru orðnir þínir menn, klárlega fyrir þær sakir að þú varst sanngjarn og hlúðir vel að þínum viðskiptavinum með miklum dugnaði, ósérhlífni og vinnusemi og of góður í mörgum tilfella að mínu mati eins og við ræddum oft mikið og lengi. Takk fyrir að fá að vera samferðafélagi þinn, Skúli, og megi þér ganga vel á nýjum vettvangi.

Elsku Begga, Ásdís, Systa, Gummi, Skúli Freyr og Kalli pabbi, Þóra og Eiríkur, á þessari miklu sorgarstund eru fá orð sem fá lýst, en megi Guð styrkja ykkur og varðveita inn í framtíðina.

Þínir vinir

Gunnar, Guðrún og Skúli.

Mér finnst ótrúlegt að vera að skrifa um fallinn félaga, sem svo skyndilega yfirgaf þennan heim á besta aldri. Þetta er svo skrítið, lífið er svo skrítið, og eftir sitjum við og reynum að skilja það.

Skúli var góður félagi. Hann var ekki sá sem stöðugt var að hringja í mann, en við hittumst oft í hverri viku, enda var annað heimili okkar strákanna, fyrirtæki Skúla, höfuðstöðvar Storms. Þetta er svo í leiðinni fyrir alla að fá sér kaffisopa á heimleiðinni, segja skemmtilegar sögur og skipuleggja ferðir, enda andrúmsloftið hjá öllum í Stormi frábært, eins og ein stór fjölskylda. Það er óhætt að segja að Stormur var og er okkar félagsheimili þó aldrei hafi leðursófinn okkar komið. Ég man ekki hvenær ég kynntist Skúla fyrst en árin eru orðin ansi mörg. Eflaust hafa fyrstu kynnin verið í kringum sleðasportið og eftir að Skúli byrjaði með Polaris-umboðið þá urðum við nánari. Eins ótrúlegt og það er höfðum við báðir óbilandi áhuga á mat, eins og mátti sjá á okkur. Þegar hjólatúrar eða sleðatúrar voru í vændum annaðhvort með viðskiptavini fyrir Storm, erlenda gesti eða þegar við vinirnir vorum að fara í sleðatúr þá passaði það að við höfðum puttana í matarmálum. Eitt sem Skúli lagði alltaf upp með var að það yrði að vera nóg af öllu enda höfðingi heim að sækja. Skúli var langt frá því að vera sá skipulegasti þegar að þessum málum kom. Hann átti það aðeins (kannski mikið) til að vera með skoðanir á öllu, oftast aðrar en allir hinir. Það var ósjaldan sem við hristum hausinn og skildum ekkert, en alltaf náðist að lenda málunum. En lífið snýst ekki um það að allir séu alltaf sammála enda væri það ótækt, en góða og trygga vini tínir maður ekki upp af götunni.

Ég gæti sagt margar góðar sögur af Skúla en læt það liggja á milli hluta núna. Mér er samt í fersku minni síðasta sleðaferð okkar félaganna vestur á firði um daginn í frábæru veðri, í góðum félagsskap og að sjálfsögðu borðandi góðan mat. Þar vorum við slakir í sundlauginni með kaldan á kantinum og kannski eitthvað sterkara eftir góðan sleðatúr. Þar var Skúli afslappaður í góðra vina hópi og naut sín vel eins og restin af vinahópnum.

Elsku Begga mín, Ásdís, Systa, Gummi og Skúli litli, ég veit að þetta er sárt en svona er lífið stundum ósanngjarnt gagnvart okkur öllum og þó mest ykkur. Við skulum öll leggjast á eitt við að styðja hvert annað í sorginni og hafa í hávegum þá minningu sem við höfum um Skúla Karlsson sem var umfram allt góður og trúr eiginmaður, elskulegur og traustur pabbi og frábær, traustur en skemmtilega þrjóskur félagi sem við söknum hrikalega.

Kv. Baugurinn,

Þórður Þórisson.

Það voru sorgarfréttir sem við fengum að morgni mánudagsins 10. maí. Hann Skúli, vinur okkar, hafði kvatt þennan heim kvöldið áður, án nokkurs fyrirvara. Hverjum hefði dottið það í hug. Hann rétt að verða fimmtugur og búinn að bjóða til veislu sem átti að halda laugardaginn 15. maí. Tilhlökkunin var mikil því alltaf var líf og fjör í kringum Skúla. Við kynntumst Skúla og fjölskyldu hans í gegnum sameiginleg áhugamál, vélsleðaferðir og útivist.

Skúli gaf sér alltaf tíma til að spjalla við vini sína þegar hann var heimsóttur í Storm þó að næg væru verkefnin. Hann lét sér umhugað um annað fólk og ekkert var honum óviðkomandi er varðaði vini hans enda var hann sannur vinur vina sinna. Við kveðjum Skúla með söknuði og virðingu í huga og munum halda minningu hans á lofti um ókomna framtíð.

Við erum þakklát fyrir að hafa kynnst honum og þökkum fyrir allar stundirnar sem við áttum með honum.

Elsku Bergrós, Ásdís, Systa, Gummi og Skúli Freyr, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð og biðjum guð að styrkja ykkur í sorginni.

Nú er tími birtu og blóma

hjá okkur hefur fallið skuggi þar á

að hugsa sér alla englana sem ljóma

þegar þeir fá Skúla að sjá.

Ég veit að á himnum er snjó að finna

dúnmjúkur og glansandi

nú hafa englarnir nóg að vinna

þegar kóngurinn kemur sleðanum á.

Elsku Bergrós og fallegu börnin

hugur minn er ykkur hjá

ein er sú huggun sem okkur er gefin

að aftur við hittumst himninum á.

(Bogga.)

Sveinn, Steinn Árni,

Sigurborg, Kristín og börn (Micro-fjölskyldan).

Vegir guðs eru órannsakanlegir, það hefur sannast enn og aftur. Ég vissi það þegar síminn hringdi eldsnemma á mánudagsmorgni að það væri ekki góðs viti og þau tíðindi sem mér voru færð voru hræðileg. Félagi minn og samstarfsmaður hafði skyndilega verið kvaddur á braut.

Ég kynntist Skúla fyrst árið 2003 þegar mér var treyst fyrir því ábyrgðarhlutverki að verða fjármálstjóri Bræðranna Ormsson. Mér varð það fljótt ljóst að þarna færi maður sem léti verkin tala, og þrátt fyrir að hann væri einn stærsti eigandi fyrirtækisins þá gekk hann í öll verk. Í hans augum var ekkert verk ómerkilegt, það þurfti bara að vinna þau. Hann nálgaðist hlutina á eigin forsendum sem ekki voru alltaf hefðbundnar. Á þann hátt náði hann oft að leysa margan vandann þegar hann kom fram með lausnir á málum sem enginn annar lét sér detta í hug.

Saga Skúla Karlssonar og Bræðranna Ormsson er samofin, rekstur Bræðranna Ormsson hefur alltaf verið hluti af lífi hans og hans fjölskyldu. Fjölskyldan seldi reksturinn fyrir nokkrum árum, nokkuð sem Skúli var aldrei fullkomlega sáttur við. Þegar okkur bauðst sumarið 2008 að koma aftur að rekstri félagsins var það ekki flókið mál að sannfæra Skúla um að taka þátt í því verkefni. Hann vildi mikið á sig leggja svo að vegsemd og virðing Bræðranna Ormsson yrði sem mest um ókomna tíð. Við félagarnir sátum ófáar kvöldstundir þetta sumarið uppi í Stormi spáðum og spekúleruðum reiknuðum og veltum fyrir okkur tölum og möguleikum í stöðunni. Í aðdraganda að bankahruni tókum við yfir rekstur félagsins, verkefni sem hefur verið mjög spennandi og lærdómsríkt ferli fyrir okkur alla. Það er að mörgu að hyggja í fyrirtækjarekstri þannig að við höfum eytt löngum stundum saman þar sem að við höfum þurft að finna lausnir á ýmsum málum. Á þessum tímum hefur Skúli reynst okkur ómetanlegur og hans nálganir við verkefnin hafa leyst margan hnútinn í þessu óvenjulega umhverfi sem við störfum í.

Skúli var mjög félagslyndur maður og það sem einkenndi Skúla í öllum samskiptum var hreinskilni, heiðarleiki, yfirvegun og umhyggja fyrir náunganum. Þetta mátti glögglega sjá í rekstri fyrirtækis hans, þetta var ekki bara fyrirtæki, þetta var samfélag sem hann hafði byggt upp þar sem að allir helstu kostir Skúla nutu sín.

Það er ljóst að okkur er öllum mikill missir að þessum góða manni sem því miður fékk allt of stuttum tíma úthlutaðan í þessu jarðlífi. Skúli var alla tíð klettur sem við samstarfsmenn hans gátum treyst á en hann var einnig traustur fjölskyldufaðir, afi og síðast en ekki síst stoð og stytta föður síns. Megi Guð vaka yfir styðja og styrkja fjölskyldu hans og vini sem eiga um sárt að binda.

Einar Þór Magnússon.

Enn er hoggið skarð í raðir okkar félaga í Lionsklúbbnum Baldri. Er nú brott kallaður einn af okkar yngri liðsmönnum. Skúli Karlsson tók árum saman virkan þátt í uppgræðslustarfi okkar félaga í Baldurshaga við Hvítárvatn á Kili. Hann kom þar fyrst ungur að árum til leiks og starfa, en vann síðan sem félagi af mikilli atorku við ræktun og uppgræðslu á þessari vin í hálendisauðninni, sem Lionsmenn hafa reynt að bjarga frá gróðureyðingu, en faðir hans Karl Eiríksson var fyrstur til að nota flugvél við fræ- og áburðardreifingu til uppgræðslu hér á landi. Skúli var áhugasamur í okkar félagsstarfi var í stjórn og formaður félagsins um tíma.

Við félagar í Lionsklúbbnum Baldri kveðjum góðan vin með söknuði og vottum aðstandendum innilega samúð.

Fyrir hönd Lionsfélagsins Baldurs,

Sturla Friðriksson.

Kveðja frá LÍV

Stórt skarð er nú höggvið í hóp okkar vélsleðamanna við andlát kærs félaga, Skúla Karlssonar.

Vélsleðamenn um allt land þekktu Skúla og kveðja hann nú með söknuði. Skúli var viðloðandi vélsleðasportið um áratuga bil, bæði sem umboðsaðili Polaris á Íslandi og sem virkur vélsleðamaður. Hann var ávallt reiðubúinn að veita öðrum vélsleðamönnum aðstoð sína og ráð og fengu þeir sem til hans leituðu góðar móttökur og úrlausn sinna mála.

Hvort sem vélsleðinn bilaði á fjöllum eða eitthvað þurfti að græja milli ferða þá var í öllum tilfellum hægt að leita til Skúla. Hjálpsemi hans átti engin takmörk. Hann var áhugasamur og menn dáðust að velvild hans og greiðvikni.

Vélsleðamenn hafa nú misst einn sinn tryggasta félaga og verður hans sárt saknað hvort sem er í sleðaspjalli, viðgerðarstoppi eða í einhverri vélsleðaferðinni um hálendi Íslands.

Landssamband íslenskra vélsleðamanna vill senda fjölskyldu Skúla sínar innilegustu samúðarkveðjur á þessum erfiðu tímum. Skúli verður í hugum okkar vélsleðamanna um ókomna tíð og verður hans minnst með virðingu og þökk.

Blessuð sé minning Skúla Karlssonar.

F.h. LÍV

Arnar Aðalgeirsson.

Hinsta kveðja

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum.)

Með þessum orðum viljum við starfsmenn þínir kveðja þig með virðingu og þakklæti.

Atli, Birgir, Haraldur, Jón, Kristján, Kristín og Nikulás.