Kristín Bryndís Björnsdóttir fæddist á Skálum á Langanesi 10. mars 1924. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Eir 10. maí sl.

Útför Bryndísar fór fram frá Grafarvogskirkju 17. maí 2010.

Elsku amma okkar. Nú ertu komin til himnaríkis og ert við hlið afa. Það var alltaf svo dásamlegt að vera hjá þér og fá heimsins bestu vöfflur með rabarbarasultu og rjóma. Það var líka alltaf gotterí í silfurskál uppi á hillu í stofunni. Við systurnar lékum okkur endalaust með gamla apann sem hægt var að trekkja upp eða dönsuðum við lagið frá spiladósinni sem var inni í litla herberginu í Torfufellinu.

Einnig var yndislegt að koma í sumarbústaðinn sem þér þótti svo vænt um. Það var alltaf hægt að finna upp á ævintýralegum leik og fara með sykurskálina út í garð og borða rabarbara. Elsku amma okkar með fallega hvíta hárið og góða hjartað. Við söknum þín og óskum þér góðrar ferðar á þinni leið.

Ég kveð þig, hugann heillar minning blíð,

hjartans þakkir fyrir liðna tíð,

lifðu sæl á ljóssins friðar strönd,

leiði sjálfur Drottinn þig við hönd.

(Guðrún Jóhannsdóttir)

Katrín Sif og Svava Kristín.

Rósemd og góðmennska barst ávallt frá Bryndísi ömmu, og þau áhrif hafði hún á aðra í kringum sig. Sem börn, áður en við komumst til vits og ára, vissum við að henni þótti afskaplega vænt um okkur. Svo sterka nærveru hafði hún. Fjölskyldan var henni greinilega mjög mikilvæg sem sannaðist meðal annars í því hversu oft og fallega hún talaði um systkini sín. Þegar minnisleysið tók að sverfa að síðustu árin reyndi hún eftir fremsta megni að rifja upp fjölskyldumeðlimi og ættingja svo hún myndi ekki gleyma þeim. En núna ættu allar minningar hennar að vera komnar aftur. Og að auki verður minningin um hana ætíð sterk.

Einlægni og góðmennska ömmu birtist ekki aðeins í gjörðum hennar og tali, heldur einnig í listinni. Hún var fær á mörgum sviðum listsköpunar en málverkin báru af. Á því sviði hafði Bryndís amma þróað með sér einstaklega frumlegan og litríkan stíl, þar sem hún nýtti gjarnan grunnformin og bjarta liti til þess að skapa veröld án alls ills, og fulla af gamansemi. Amma hafði nefnilega sterka kímnigáfu og hló innilega að því þegar við sögðum einhverja kjánalega sögu. Þá skipti engu hvort sagan var af okkur sjálfum eða öðrum. Hún hlustaði og veitti öllum athygli.

Líkt og þegar afi kvaddi okkur fara ósjálfrátt af stað minningar um sumarbústaðinn góða; um vöfflurnar, berjatínsluna, ruggustólinn og litla sjónvarpið sem var rekið áfram af slitnum rafmagnskassa. Tvímælalaust hugsa öll barnabörnin þeirra til bústaðarins núna þegar þau eru farin, og það er ekki að undra, því með þessum heimilislega, vinalega – og ævintýralega heimi í augum barna – meitluðu þau frábærar og ómetanlegar minningar í huga okkar. Heimili þeirra mun einnig seint hverfa úr hugskotssjónum. Þegar við vorum í heimsókn var mikið á að líta, ýmiss konar hlutir og myndir sem vöktu forvitni. „Fullorðinsveislur“ geta oft verið ansi þreytandi fyrir börn, og við systkinin vorum þar ekki undanskilin, en svo var ekki heima hjá ömmu og afa. Alltaf var eitthvað nýtt til að skoða og velta fyrir sér.

Amma og afi voru ekki lengi aðskilin. Núna er þau saman á ný og á betri stað. Þau ólu af sér mörg börn, sem ólu aftur af sér enn fleiri börn og svo framvegis. Sem sagt, arfleifð þeirra lifir svo sannarlega áfram. Við kveðjum þig Bryndís amma með miklum söknuði og biðjum að heilsa afa.

Hörður, Emil, Víðir og Bryndís.

Nú hefur amma mín kvatt þetta jarðlíf. Reyndar hefur hún verið að að fara smátt og smátt undanfarin ár þar sem minnisleysi var farið að setja mark sitt á hana. Ég hef reynt að setja mig í spor hennar, en það hlýtur að vera erfitt og skapa óöryggi að þekkja ekki sína nánustu og muna ekki hvað á daga manns hefur drifið í gegnum lífið. En núna þegar amma er laus úr viðjum síns sjúkdóms trúi ég því að henni líði betur.

Margar minningar koma upp í hugann þegar ég hugsa um ömmu. Þegar ég var barn skruppum við oft í heimsókn í Torfufellið eða í sumarbústaðinn þar sem tekið var á móti okkur með gómsætum vöfflum eða pönnukökum. Einnig eru mér minnisstæð öll jólaboðin sem amma og afi héldu þar sem stórfjölskyldan hittist og borðaði saman ilmandi hangikjöt og tilheyrandi meðlæti sem amma kunni svo sannarlega að matreiða.

Amma var mikill listunnandi og tjáði sig í gegnum listina bæði í málverki og textíl. Það eru ófá verkin til eftir hana, olíumyndir, vatnslitamyndir og hekluð veggteppi og hélt hún nokkrar sýningar, meðal annars í Grafarvogskirkju. Hún heklaði líka og prjónaði á okkur systurnar þegar við vorum litlar. Þessar flíkur hefur verið haldið vel upp á og það er gaman að geta klætt barnið sitt í falleg föt sem amma hefur búið til af ást og alúð. Amma stundaði þessa iðju sína eins lengi og heilsan leyfði og það er ómetanlegt að eiga verk eftir hana sem geyma góðar minningar.

Amma vildi vera vel til fara og hafði gaman af að klæðast fötum í líflegum litum og hafa fallega hvíta hárið sitt smekklega greitt.

Mér er minnisstæður einn fallegur sumardagur þegar amma og afi komu í heimsókn til mín fyrir nokkrum árum þegar sonur minn, Marinó, var nýfæddur. Þau komu færandi hendi með teppi sem amma hafði heklað, afi reffilegur að vanda og amma í fallega grænum sumarkjól.

Síðast koma amma í heimsókn til mín eftir að dóttir mín Máney fæddist, en hún verður eins árs í sumar. Við áttum góða stund saman, borðuðum vöfflur og spjölluðum. Amma naut þess augljóslega að hitta börnin og lét sig ekki muna um að grínast svolítið í Marinó, sem kvaddi hana með knúsi og studdi út í bíl.

Það er gott að eiga þessar og margar fleiri góðar minningar um ömmu. Takk fyrir þær, amma mín. Hvíldu í friði.

Hilda.

Elsku amma. Ég var svo viss um að við myndum hittast aftur. Þótt þú ættir erfitt með að muna margt síðast þegar ég heimsótti þig, þá virtist þú enn svo sterk.

Við hittumst sjaldan þegar ég var barn og þegar við hittumst var allt fullt af fólki. En þegar ég fluttist til Reykjavíkur sem unglingur gátum við loks tengst á okkar forsendum.

Þá gat ég komið til þín í Breiðholtið og við gátum lokað okkur af, einar inni í eldhúsi, og talað um lífið og listina. Við lokuðum á afa úti í stofu svo hann sæi ekki módelteikningarnar þínar sem þú sýndir mér. Það var gott að koma til þín og vera bara vinkonur. Þegar ég flutti utan hitti ég þig sjaldnar en þá vorum við búnar að vefa okkar eigin vef og áttum traustan vinskap.

Seinna, áður en þú fórst að gleyma, töluðum við um trúna. Og um að ferðalagið byrjar og endar hjá Guði.

Ég óska þér góðrar ferðar amma mín.

Guðrún Tinna Lúðvíksdóttir.

Elskuleg systir mín er látin 86 ára. Við systkinin fimm fæddumst öll á Skálum á Langanesi, en fluttum til Vestmannaeyja árið 1934 og áttum þar yndislega æsku og unglingsár. Við áttum heima á Strembu (Lukku). Þar var dásamlegt útsýni yfir eyjarnar og mér finnst það hafa verið algjör forréttindi að hafa fengið að alast upp í Eyjum í leik og gleði og öll áttum við okkar vini. Við áttum fjögur hálfsystkini, öll fædd af sömu móður.

Bryndís var ung þegar hún gifti sig Jóel Þórðarsyni frá Ísafirði og bjuggu þau þar fyrri hluta ævi sinnar. Þau eignuðust sex börn sem öll eru myndarfólk og hafa komið sér vel áfram í lífinu. Þau fluttu til Reykjavíkur þegar börnin voru komin vel á legg, þá fór hún í nám sem sjúkraliði og vann við það í tuttugu ár. Einnig var hún mikil handverkskona og gerði mörg frábær veggteppi sem hún heklaði, einnig málaði hún mikið af málverkum sem hún hafði mjög gaman af.

Ég þakka systur minni samfylgdina í lífinu, blessuð sé minning hennar.

Þín systir,

Elín.