Sjónrænt Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Kristján Ingimarsson sem sambýlisfólkið Sara og Guðjón.
Sjónrænt Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Kristján Ingimarsson sem sambýlisfólkið Sara og Guðjón.
Leikritið Af ástum manns og hrærivélar verður frumsýnt í kvöld kl. 20:00 í Kassanum, litla sviði Þjóðleikhússins.

Leikritið Af ástum manns og hrærivélar verður frumsýnt í kvöld kl. 20:00 í Kassanum, litla sviði Þjóðleikhússins. Því hefur verið lýst sem heimilistækjasirkus frekar en leikriti, enda koma fyrir í því svo ólíkar uppákomur sem tugþraut í tengiflugi, Nilfisk sjónhverfingar, hrærivélasamdrættir, flögrandi forréttir og samhæfður klútadans.

Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Kristján Ingimarsson leika sambýlisfólk, Söru og Guðjón, en augasteinninn í lífi þeirra er Nilfisk ryksuga. Leikritið er eftir fjórmenningana Ilmi Stefánsdóttur, Kristján Ingimarsson, Ólafíu Hrönn Jónsdóttur og Val Frey Einarsson. Valur er jafnframt leikstjóri og Ilmur hannar sviðsmynd og búninga. Davíð Þór Jónsson er höfundur tónlistar og hljóðmyndar – spilar á steypuhrærivél, potta, pönnur, Nilfisk ryksugur og önnur helstu heimilistæki.

Sýningin er samstarfsverkefni Þjóðleikhússins, CommonNonsense og Listahátíðar í Reykjavík. CommonNonsense er félag þeirra Vals Freys og Ilmar og Valur segir að best sé að lýsa sýningunni sem svo að áhorfendur fái að kynnast þeim Söru og Guðjóni eins og þau hafi tekið ákvörðun um að gera heimildarþátt um daglegt amstur sitt.

Sýningin er mjög myndræn sem Valur rekur til þess að hún er sprottin útúr hugmynd myndlistarmanns, Ilmar, sem síðan var meðhöndluð af hópnum svo úr varð leikrit.

„Þetta eru þrír þættir; hugmyndin um aðgerðirnar sem fara fram, og svo sjónræn útfærsla á henni og svo tónlistin sem Davíð Þór gerir, en hann bjó til hljóðmyndirnar úr hinum og þessum hlutum og líka hljóðfærum.“