Inarritu og Bardem Aðeins verið að þukla.
Inarritu og Bardem Aðeins verið að þukla.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nokkrar af skærustu stjörnum kvikmyndaheimsins hafa verið í miklu stuði á rauða dreglinum á kvikmyndahátíðinni í Cannes sem hófst 12. maí sl. Sumar hafa gerst fjölþreifnar og vart getað hamið sig í kossalátum.

Nokkrar af skærustu stjörnum kvikmyndaheimsins hafa verið í miklu stuði á rauða dreglinum á kvikmyndahátíðinni í Cannes sem hófst 12. maí sl. Sumar hafa gerst fjölþreifnar og vart getað hamið sig í kossalátum. Franski leikarinn Lambert Wilson hefur verið einna ákafastur í blíðuhótunum, ef marka má ljósmyndavef Reuters, sem hefur að geyma fjölda mynda af Wilson að kyssa vini sína í Cannes og þreifa á þjóhnöppum. Þá voru félagarnir Javier Bardem og Alejandro Gonzalez Inarritu í miklu stuði á dreglinum og kysstust innilega eins og sönnum karlmönnum sæmir á tímum „metrósexúalismans“. Bardem leikur í nýjustu mynd Inarritu, Biutiful , sem þykir afar sigurstrangleg í keppninni um Gullpálmann.

Grét út af hungurverkfalli

En Cannes er ekki eintómur glaumur og gleði. Leikkonan Juliette Binoche brast í grát á blaðamannafundi sem haldinn var vegna kvikmyndar sem hún leikur í, Copie Conforme , þegar hún frétti af því að íranskur kvikmyndagerðarmaður, Jafar Panahi, sem var handtekinn í mars fyrir ónefndar sakir og stungið í fangelsi, væri farinn í hungurverkfall. Pahani var viðstaddur tökur á Copie Conforme í nokkra daga og þar kynntist Binoche honum. Panahi hefur verið gagnrýninn á stjórnvöld í Íran en honum hafði verið boðið sæti í dómnefnd aðalkeppninnar í Cannes, sem ákveður hvaða mynd skuli hljóta Gullpálmann. Leikstjórarnir Steven Spielberg og Martin Scorsese eru meðal þeirra sem hafa farið fram á að honum verði sleppt úr haldi.

Panahi hefur á ferli sínum m.a. hlotið Gullljónið, aðalverðlaun kvikmyndahátíðarinnar í Feneyjum, og Camera d'Or-verðlaunin á Cannes og er einn þekktasti kvikmyndagerðarmaður Írans.

Abbas Kiarostami, leikstjóri Copie Conforme, sagði á blaðamannafundinum að með handtöku Panahi væri verið að ráðast á listina í heild sinni. Og Ísland hefur sett sitt mark á Cannes, nánar tiltekið gosið í Eyjafjallajökli og öskuskýin sem því fylgja. Sharon Stone komst t.d. ekki á góðgerðarkvöldverð Amfar, samtaka sem helga sig baráttunni gegn útbreiðslu HIV-veirunnar, en hún átti að vera veislustjóri í því teiti. helgisnaer@mbl.is