<strong>Samfélagssáttmáli</strong> Ef hægt er að tala um samfélagssáttmála hér á landi felst hann m.a. í því að fólk treystir því að lífeyrissjóðirnir muni geta greitt lífeyri þegar það fer loks á eftirlaun.
Samfélagssáttmáli Ef hægt er að tala um samfélagssáttmála hér á landi felst hann m.a. í því að fólk treystir því að lífeyrissjóðirnir muni geta greitt lífeyri þegar það fer loks á eftirlaun.
Grundvallarhugsunin á bak við lífeyrissjóðakerfið er, eins og gefur að skilja, sú að sjóðirnir tryggi öldruðum mannsæmandi tekjur með því að ávaxta iðgjöld þeirra yfir langan tíma.

Grundvallarhugsunin á bak við lífeyrissjóðakerfið er, eins og gefur að skilja, sú að sjóðirnir tryggi öldruðum mannsæmandi tekjur með því að ávaxta iðgjöld þeirra yfir langan tíma. Þetta er gríðarlega mikilvægt hlutverk sem lífeyrissjóðunum hefur verið falið. Eina skylda þeirra á að vera sú að ávaxta fé sjóðfélaga með öruggum hætti.

Það var því skelfilegt að heyra fjármálaráðherra ræða um það á aðalfundi Landssambands lífeyrissjóða að lífeyrissjóðirnir ættu í ákveðnum tilvikum að gefa afslátt af ávöxtunarkröfu sinni þegar um samfélagslega jákvæðar fjárfestingar væri að ræða.

Almennt er gert ráð fyrir því að til að geta staðið undir skuldbindingum sínum til lengri tíma þurfi lífeyrissjóðir að ná að minnsta kosti 3,5 prósent raunávöxtun á ári. Þegar horft er til þess að meðalaldur verður alltaf hærri og hærri og þeim fjölgar sem þiggja örorkulífeyri er hugsanlegt að 4,5 prósenta raunávöxtun sé nauðsynleg.

Lífeyrissjóðirnir fengu þungt högg í bankahruninu, sem eðlilegt er, og eru ekki búnir að vinna upp það tap sem varð þá. Tryggingafræðileg staða þeirra flestra er neikvæð, jafnvel þótt sumir hafi skert lífeyrisréttindi.

Engin ástæða er til annars en að ætla að lífeyrissjóðirnir rétti við stöðu sína fái þeir ráðrúm til þess, en eins og sakir standa eru þeir veikari en þeir hafa lengi verið.

Orð fjármálaráðherra verður að skoða í þessu samhengi og hann verður að horfast í augu við afleiðingar þess ef farið verður að óskum hans um minni arðsemi fjárfestinga lífeyrissjóðanna. Segir hann að horfa eigi til samfélagslegs ágóða af ákveðnum fjárfestingum og taka þennan ímyndaða gróða með í reikninginn, en ekki horfa eingöngu á kalda krónutöluna.

Allt útlit er fyrir að lífeyrissjóðirnir þurfi að setja markið á meiri raunávöxtun en þeir hafa þurft að gera hingað til, en hann vill hins vegar að þeir slái af arðsemiskröfum. Segjum sem svo að honum takist að fá sjóðina til að byggja einn spítala hér og eina brú þar á kostnaðarverði. Hver er hinn samfélagslegri gróði þegar sjóðirnir geta ekki staðið við lífeyrisskuldbindingar sínar áratugum síðar? Samfélagslegi ágóðinn verður ekki í aska ellilífeyrisþeganna látinn.

Steingrímur sagði að fjárhagslegur máttur ríkisvaldsins væri ekki hinn sami og hann var fyrir bankahrun og því gæti ríkissjóður ekki staðið í öllum þeim framkvæmdum sem stjórnvöld vilja fara í. Það er jákvætt að ráðherrann geri sér grein fyrir þessu.

Innherja rennur hins vegar kalt vatn milli skinns og hörunds þegar hann heyrir ráðherrann tala um að lífeyrissjóðirnir eigi að taka við af ríkissjóði í að fjármagna misviturlegar opinberar framkvæmdir.

Ef menn leggja í það erfiða verk að lesa á milli línanna mátti skilja það á orðum Steingríms að viðræður milli lífeyrissjóða og ríkis um fjármögnun á byggingu nýs Landspítala gangi ekki eins vel og hann myndi vilja. Er greinilegt að sjóðirnir hafa krafist þess að fá sæmilega ávöxtun á fé sínu, eins og þeim er reyndar skylt að gera. Þetta þykir ráðherra greinilega mikil frekja og dónaskapur og vill að sjóðirnir víki til hliðar mikilvægasta hlutverki sínu, að tryggja öldruðum sæmilega áhyggjulaust ævikvöld.

Það er greinilega ekki nóg fyrir ríkisstjórnina að skuldsetja ríkissjóð upp í topp og reka hann með gríðarlegum halla. Það á líka að fleyta ofan af ævisparnaði þjóðarinnar. Það er gott að vita að virðing vinstrimanna fyrir eignarréttinum er söm við sig.