Gjafavara „Askan fór fyrst í verslanir fyrir tíu dögum og seldist mjög fljótt upp. Nú er áfylling númer tvö að fara í verslanirnar,“ segir Kristján Freyr Kristjánsson, einn stofnenda Lava Productions.
Gjafavara „Askan fór fyrst í verslanir fyrir tíu dögum og seldist mjög fljótt upp. Nú er áfylling númer tvö að fara í verslanirnar,“ segir Kristján Freyr Kristjánsson, einn stofnenda Lava Productions. — Morgunblaðið/Ómar
Bjarni Ólafsson bjarni@mbl.is Fyrirtækið Lava Productions hefur gert það gott undanfarna daga við að selja ösku úr Eyjafjallajökli, en nokkrar íslenskar verslanir hafa öskuna til sölu.

Bjarni Ólafsson

bjarni@mbl.is

Fyrirtækið Lava Productions hefur gert það gott undanfarna daga við að selja ösku úr Eyjafjallajökli, en nokkrar íslenskar verslanir hafa öskuna til sölu.

Kristján Freyr Kristjánsson er einn stofnenda og eigenda fyrirtækisins. „Hugmyndin varð til í London, þar sem við vorum þrír fastir vegna eldgossins. Heimferðinni seinkaði um nokkra daga og urðum við fyrir fjárhagslegu tjóni vegna þess. Við fórum að ræða það okkar á milli hvernig við gætum hugsanlega unnið til baka hluta af þessu tjóni og þannig varð hugmyndin um öskusöluna til.“

Kristján segir að þeir hafi verið ágætlega til þess fallnir að framkvæma hugmyndina, en tveir þeirra eru viðskiptafræðingar og sá þriðji verkfræðingur. „Við þekkjum líka hönnuð, sem hjálpaði okkur að setja upp vörumerkið og bækling sem fylgir með flöskunum, og þá erum við með tengsl á Austurlandi og getum því með auðveldum hætti sótt ösku þangað.“

Þeir vildu þó ekki selja öskuna hráa, ef svo má að orði komast, því þeir höfðu heyrt af því að í henni gætu verið óheppileg snefilefni. „Við ræddum því við sérfræðing í jarðfræði, sem leiddi okkur í allan sannleik um það hvernig hreinsa má flúor úr öskunni. Flúormagnið í öskunni er reyndar ekki mikið, en við vildum hafa vaðið fyrir neðan okkur.“

Þeir félagar vildu búa til fallega gjafavöru og lögðu því mikið á sig til að finna rétta flösku utan um öskuna og að hönnunin væri öll sem best. Nánari upplýsingar um öskuna má sjá á vefsíðu fyrirtækisins, www.lavaproductions.org.

„Askan fór fyrst í verslanir fyrir tíu dögum og seldist mjög fljótt upp. Nú er áfylling númer tvö að fara í verslanirnar.“ Kristján segir að eins og staðan er núna séu þeir félagarnir einu starfsmenn fyrirtækisins. „Við sækjum öskuna sjálfir, hreinsum hana og fyllum á flöskurnar. Stofnkostnaður á svona fyrirtæki er meiri en fólk kannski heldur og markmiðið hjá okkur er fyrst að ná til baka þeim kostnaði áður en lengra er haldið. Það er hins vegar ótrúlega gaman að skapa eitthvað nýtt og vinna við að koma hugmyndum manns í framkvæmd,“ segir Kristján.