Halldóra Daníelsdóttir fæddist í Súðavík 30. ágúst 1929. Hún andaðist á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði að morgni þriðjudagsins 20. apríl 2010.
Útför Halldóru fór fram frá Ísafjarðarkirkju 27. apríl 2010.
Ég sendi þér kæra kveðju
nú komin er lífs þíns nótt,
þig umvefji blessun og bænir
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði nú sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því,
þú laus ert úr veikinda viðjum
þín veröld er björt á ný.
Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast
svo margt sem um hug minn fer,
þó þú sért horfinn úr heimi
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir.)
Nú þegar komið er að kveðjustund langar mig að minnast Dóru frænku í örfáum orðum. Það var alltaf mikið fjör í kringum Dóru og mikil tilhlökkun þegar von var á henni í heimsókn á Mýri. Hún rifjaði upp ótal sögur og síðan var hlegið og hlegið. Oft var rifjuð upp sagan af því, þegar það vantaði eitt sinn eitthvað í matinn. Þær leystu málið systurnar, mamma og Dóra, með því að sjóða fullt af hrísgrjónum og Dóra útbjó bollur sem líktust fiskibollum. Þetta bar hún fram með karrísósu, kartöflum og að sjálfsögðu hrísgrjónum. Mér skilst að bræður mínir, sem voru alltaf hungraðir sem úlfar, hafi borðað „fiskibollurnar“ með bestu lyst. Hún var stórglæsileg kona og sem ungar stúlkur líktust þær systur einna helst kvikmyndastjörnum. Dóra var líka almesta skvísan sem ég þekkti sem barn og ég man eftir mynd af henni sem var tekin var fyrir utan ömmu- og afahús í Sundstrætinu. Þar var Dóra í fjólubláum útvíðum buxum og skóm með þykkum og háum hælum í anda 7. áratugarins. Ég hafði aldrei séð jafn flott og dáðist mikið að hvað frænka var smart. Flest lék í höndunum á henni, hún var snillingur í matargerð og mikil hannyrðarkona og fengu dætur mínar að njóta þess.
Fyrir nokkrum árum varð hún mikið veik og var vart hugað líf, hún hafði verið í aðgerð í Reykjavík en var síðan flutt heim með flugi til að geta eytt síðustu stundunum hjá fjölskyldunni. Um leið og farið var að nálgast heimahagana hresstist hún við og ekki leið langur tími þar til hún gat farið heim á Hlíðarveginn. Hún átti góðan tíma heima en undanfarið var farið að halla undan fæti á ný og þá varð ekki aftur snúið.
Elsku Stígur, Soffía, Össi, Guffý, Sigga Rósa og fjölskyldur, við sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur og óskum þess að allar góðar vættir styðji ykkur á sorgartímum.
Salbjörg og fjölskylda.