Forstjórinn Hagnaður af reglulegri starfsemi Saga nam tæplega 18 milljónum króna. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson segir að Saga muni halda eiginfjárhlutfallinu háu þangað til aðstæður á markaði skáni.
Forstjórinn Hagnaður af reglulegri starfsemi Saga nam tæplega 18 milljónum króna. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson segir að Saga muni halda eiginfjárhlutfallinu háu þangað til aðstæður á markaði skáni. — Morgunblaðið/G.Rúnar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Örn Arnarson ornarnar@mbl.is Þó svo aðstæðum á fjármálamörkuðum í fyrra verði seint lýst sem hagstæðum varð hóflegur hagnaður af reglulegri starfsemi Saga Capital Fjárfestingarbanka. Hann nam tæplega 18 milljónum króna.

Örn Arnarson

ornarnar@mbl.is

Þó svo aðstæðum á fjármálamörkuðum í fyrra verði seint lýst sem hagstæðum varð hóflegur hagnaður af reglulegri starfsemi Saga Capital Fjárfestingarbanka. Hann nam tæplega 18 milljónum króna. Óreglulegu liðirnir vógu hins vegar þungt og nam heildartapið í fyrra tæpum þremur milljörðum. Afkoma bankans endurspeglast að stærstum hluta af varúðarframlögum í afskriftarreikning, sem námu rúmum milljarði í fyrra, auk einskiptiskostnaðar sem má rekja til endurskipulagningar Saga Capital í vetur. Þá var félagið Hilda stofnað og tók það meðal annars yfir hluta af skuldbindingum bankans sem höfðu íþyngjandi áhrif á eiginfjárhlutfallið.

Við upphaf ársins nam afskriftarreikningur útlána Saga Capital 48% af heildarútlánum bankans og að sögn Þorvaldar Lúðvíks Sigurjónssonar, forstjóra bankans og eins af stærstu hluthöfum hans, er það trú forráðamanna bankans að hreinsunarstarfinu sé lokið og þeirri afskriftarþörf sem skapaðist vegna bankahrunsins mætt að fullu og þar með sé búið að tryggja rekstrarhæfi starfseminnar. Þorvaldur bendir á að góður hagnaður sé af rekstrinum fyrstu mánuði þessa árs sem sé til marks um að bankinn sé á réttri leið eftir fordæmalaust mótstreymi á fjármálamörkuðum frá því haustið 2008.

Samdráttur í vaxtatekjum en þóknanir aukast verulega

Vaxtatekjur bankans drógust saman í fyrra en hreinar vaxtatekjur lækkuðu um milljarð á milli ára. Hins vegar fimmfölduðust þóknunartekjur bankans á sama tímabili. Hreinar þóknunartekjur námu um 380 milljónum króna í fyrra. Þessa þróun má meðal annars rekja til þess að bankinn hefur verið stórtækur í umsjón með frumútgáfu á skuldabréfamarkaðnum. Fram hefur komið að Saga Capital ætli sér að leggja mesta áherslu á fjárfestingabankastarfsemi sem byggist ekki á því að nýta efnahagsreikning bankans.

Kostnaðarhlutfall bankans hlýtur að teljast nokkuð hátt en samkvæmt ársreikningnum er það um 98%. Þetta háa hlutfall er tilkomið vegna samdráttar vaxtatekna í fyrra en rekstrarkostnaðurinn breytist lítið á milli ára. Grunnrekstur batnaði þó en 150 milljóna króna einskiptiskostnaður féll til vegna áðurnefndrar endurskipulagningar bankans.

Hátt eiginfjárhlutfall

Efnahagsreikningur Saga Capital við árslok nam 12,6 milljörðum sem er um helmingsminnkun frá árinu áður. Eiginfjárhlutfallið hefur styrkst verulega en lögbundið eigið fé var 3,9 milljarðar við lok ársins og eiginfjárhlutfallið 36%.

ÞORVALDUR LÚÐVÍK

„Varnarsigur“

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital, telur afkomuna í fyrra vera varnarsigur í erfiðu árferði og er hóflega bjartsýnn á horfurnar: „Reksturinn einkennist af jafnvægi í reglulegri starfsemi, en gríðarlegur kostnaður vegna endurskipulagningar og framlags í afskriftareikning féll jafnframt til í fyrra. Það er varnarsigur fyrir okkur sem höfum þurft að berjast með báðar hendur fyrir aftan bak að sýna fram á rekstrarhæfi við verstu mögulegu aðstæður. Þóknunartekjur okkar fimmfölduðust en minni vaxtatekjur endurspegla slæm fjármögnunarkjör og minni efnahagsreikning. Við erum búin að veðra storminn og gera sjóklárt eftir að hafa hálfpartinn legið í slipp og þétt rifurnar, sem sést m.a. á miklu framlagi í afskriftareikning. Við erum með eitt hæsta eiginfjárhlutfall íslenskra bankastofnana, eða 36%, og hyggjumst halda því háu þar til viðrar til róðra á ný.“