Morgunblaðið hefur fjallað reglulega um vandann árum saman. Á meðan hefur málið mallað í kerfinu.
Morgunblaðið hefur fjallað reglulega um vandann árum saman. Á meðan hefur málið mallað í kerfinu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Rúnar Pálmason runarp@mbl.is Hjá flestum sveitarfélögum sem liggja að hálendi Íslands er nú verið að ákveða hvaða vegi og vegslóða á hálendinu megi aka og hverja ekki. Sum eru reyndar búin og önnur alveg við að ljúka þessari vinnu.

Fréttaskýring

Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

Hjá flestum sveitarfélögum sem liggja að hálendi Íslands er nú verið að ákveða hvaða vegi og vegslóða á hálendinu megi aka og hverja ekki. Sum eru reyndar búin og önnur alveg við að ljúka þessari vinnu.

Á hálendi Íslands eru ótal vegir og slóðar sem hafa myndast utan við hið opinbera vegakerfi. Í mörgum tilfellum er deilt um hvort akstur um þá sé heimill. Niðurstaða í málinu ætti að liggja fyrir næsta vor, sjö árum eftir að umhverfisráðherra skipaði starfshóp til að vinna á vandanum. Til samanburðar má geta þess að bygging Kárahnjúkavirkjunar tók fimm ár.

Skipulagsvald á hálendinu er í höndum sveitarfélaganna og þegar þau hafa ákveðið hvað teljist vera vegur sem aka má eftir verður niðurstaðan sett inn í aðalskipulag viðkomandi sveitarfélaga. Vonast er til að þeirri vinnu ljúki í haust þótt reyndar sé viðbúið að í sumum tilvikum dragist hún eitthvað lengur.

Réttarbót en leysir ekki vandann

Þegar sveitarfélögin hafa lokið skipulagsvinnu sinni ætlar umhverfisráðuneytið að birta kort sem sýnir nákvæmlega hvar á hálendinu megi aka og hvar ekki, væntanlega næsta vor. Aksturinn verður takmarkaður við þessa kortlögðu vegi með reglugerð „Þar með ætti að vera hægt að útrýma óvissu í þessum málum og sakfella í utanvegaakstursmálum sem hingað til hefur lokið með sýknu,“ segir Sesselja Bjarnadóttir, sérfræðingur hjá umhverfisráðuneytinu og formaður starfshóps um skilgreiningu á vegum á hálendinu.

Það skyldi þó enginn ímynda sér að vandi vegna utanvegaaksturs verði úr sögunni um leið og kortið lítur dagsins ljós.

Sesselja minnir á að akstur utan vega sé bannaður með reglugerðum og lögum en hún segist heyra sömu söguna frá sveitarstjórnarmönnum í öllum landshlutum. „Það er verið að keyra uppi á heiðum, jafnvel á númerslausum hjólum, og spólað út um allt. Menn hringja í lögreglu sem er með fámenna vakt og á erfitt með að senda menn á svæði sem eru langt í burtu, jafnvel tveggja tíma akstur aðra leið. Svo er jeppamaðurinn eða mótorhjólamaðurinn farinn þegar lögreglan kemur. Þetta vandamál leysist ekki með breytingu á reglugerðum.“

Þarf meiri virðingu fyrir landinu

Sesselja segir nauðsynlegt að ná til þeirra sem stunda utanvegaakstur með öðrum hætti. „Við þurfum einhvern veginn að hafa áhrif á virðingu fólks fyrir náttúrunni. Það þarf að koma inn meiri umhverfisvitund hjá fólki. Í þessu óbyggða landi okkar felast mikil tækifæri, meðal annars fyrir ferðaþjónustu. Það má ekki skemma það,“ segir hún.

Starfshópur Sesselju var skipaður árið 2008 en vinna við viðbrögð við utanvegaakstri hófst árið 2004.Aðspurð hvers vegna starfi hefði tekið svo langan tíma sagði Sesselja að helsta skýringin væri sú að kortlagningin á hálendinu hefði verið tímafrekari en ráð var fyrir gert. Mælingarátakið hefði í raun ekki verið sett í gang fyrr en árið 2007. Sjálfsagt hefði mátt ljúka átakinu fyrr með meiri fjármunum.

NÆSTA VOR LIGGUR FYRIR HVAR MÁ AKA Á HÁLENDINU

Fóru ekki að tillögum árið 2005

Akstur utan vega hefur verið vandamál árum saman og með mikilli fjölgun torfæruhjóla í upphafi aldarinnar jókst vandinn enn. Töluvert hefur verið fjallað um utanvegaakstur torfæruhjóla í Morgunblaðinu og frá 2003 hefur verið bent á að hluti af vandanum felist í óskýrri lagaumgjörð.

Siv Friðleifsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, skipaði haustið 2004 starfshóp til að móta tillögur um viðbrögð við utanvegaakstri. Aðeins sjö mánuðum síðar lágu tillögur hans fyrir. Hópurinn taldi m.a. að með átaksvinnu mætti ljúka kortlagningu vega og slóða á hálendinu á árið 2007.

Farið var að sumum tillögum hópsins en öðrum ekki. Það sem mestu máli skiptir er að ekkert sérstakt átak var til dæmis gert í kortlagningu en án slíkrar kortlagningar er ekki hægt að ákveða hvar megi aka og hvar ekki. Nýr starfshópur var skipaður árið 2008. Skilgreiningu á vegum og slóðum á hálendinu lýkur væntanlega, í bili, vorið 2011.

VILLUR Á KORTUM MÁLS OG MENNINGAR

Vegir birtast upp úr þurru

Á korti Máls og menningar af Kili og nágrenni frá árinu 2009 eru tvö dæmi um að vegarslóði sé sýndur á kortinu á stöðum þar sem ekki má aka. Annars vegar er Kjalvegur hinn forni sýndur sem vegarslóði en er í raun göngustígur og reiðvegur. Í hinu tilfellinu er sýndur vegarslóði austur með Bláfelli en þar er enginn vegur. Þar hefur aldrei verið hægt að aka og það hefur heldur aldrei verið gert.

Örn Sigurðsson, ritstjóri kortadeildar hjá Máli og menningu, segir að þetta hafi verið mistök og kortagrunnur fyrirtækisins hafi verið leiðréttur. Mistökin eigi uppruna sinn hjá Landmælingum.

Því hafnar Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga. Athugun hjá stofnuninni hafi sýnt að merkingarnar hafi aldrei verið með þeim hætti sem sýnt er á kortum Máls og menningar. Villan sé því ekki hjá Landmælingum.

Á jeppavegi á Yaris

* Ferðamenn á smábíl á veginum meðfram Langasjó

* Nýr vegur þarf ekki samþykki til að birtast á korti

Engar reglugerðir gilda um kortagerð á Íslandi og ekkert eftirlit er haft með því að upplýsingar sem birtast á kortum séu réttar, að sögn Magnúsar Guðmundssonar, forstjóra Landmælinga Íslands. Ein af afleiðingunum er að kort af sama landsvæðinu getur sýnt mismunandi upplýsingar, eftir því hver það er sem gefur kortið út.

Dæmi um slíkt er við Langasjó þar sem GPS-kort frá Samsýn sýnir veg norðvestur með vatninu en sá vegur er ekki á kortagrunni Landmælinga Íslands, ekki heldur á kortum Máls og menningar né er hann á skipulagsuppdrætti sveitarfélagsins.

Eftir lagabreytingar árið 2006 hættu Landmælingar að gefa út prentuð kort en stofnunin gefur hins vegar út stafræna kortagrunna sem kortaútgefendur hér á landi kaupa og nýta við kortagerð. Útgefendur kortanna hafa síðan frjálsar hendur um hvort þeir bæta einhverjum upplýsingum við.

Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga, telur mikilvægt að ríkið og sveitarfélög láti gera kortagrunn sem sýni hvert sé hið opinbera vegakerfi landsins. Þeir sem geri landakort eða gefi út gps-leiðsögukerfi, verði síðan að taka afleiðingum þess að fylgja ekki þeim upplýsingum sem þar koma fram. Slíkur kortagrunnur þyrfti þó einnig að sýna þá vegi sem væri búið að loka því þannig upplýsingar gætu t.d. nýst björgunarsveitum. Sýna yrði á kortunum hvort viðkomandi vegum hefði verið lokað með greinilegum hætti.

Kristinn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samsýnar, segir að fyrirtækið sýni þá vegi og vegslóða sem sannarlega séu til og séu opnir. Á hálendinu séu ótal vegir og slóðar sem aldrei hafi verið formlega samþykktir. Þess vegna væri m.a. vegurinn norðvestur með Langasjó sýndur á korti Samsýnar en upplýsingar um hann komu frá Ferðaklúbbnum 4x4. Fái fyrirtækið ábendingu um að á kortum fyrirtækisins séu slóðar sem hafi verið lokað, séu þeir teknir út af kortunum. Slóðarnir séu hins vegar inni á eldri útgáfum kortagrunnsins, líkt og gildir um prentuð kort. „Það er ekki okkar vilji að sýna vegi sem bannað er að keyra eftir,“ segir Kristinn.

Á umræddu korti er ekki gerður greinarmunur á veginum upp með Langasjó og öðrum vegum í nágrenninu. Sverrir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Blue Mountain, hefur farið með ferðamenn um umræddan veg og í eitt skiptið mætti hann tveimur taílenskum ferðamönnum sem höfðu ekið af stað eftir veginum á Toyota Yaris-smábíl. Þeir komust þó ekki ýkja langt.

Kristinn segir að á nýrri útgáfum sé gerður greinarmunur á þeim vegum sem Vegagerðin hefur umsjón með og vegum fyrir utan hið opinbera vegakerfi sem nú séu sýndir með brotalínu, þ.e. sem jeppavegir.

„En þetta takmarkast af því hvaða tök gps-tækin hafa á að birta upplýsingar um mismunandi ástand vega,“ segir hann. Einnig verði að höfða skynsemi ferðamanna í þessum efnum.