Sigrún Á. Kristjánsdóttir fæddist 26. apríl 1936 að Vestara-Landi í Öxarfirði. Hún lést á dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri þann 20. apríl sl.

Foreldrar Sigrúnar voru hjónin Kristján Jónsson, f. 15. október 1895 í Ási í Kelduhverfi, d. 14. janúar 1977, og Gunnína Sigtryggsdóttir, f. 2. janúar 1902 í Ási í Kelduhverfi, d. 27. apríl 1984. Sigrún var eina barn þeirra hjóna.

Sambýlismaður Sigrúnar var Aðalgeir Aðdal Jónsson, f. 18.3. 1935. Þau slitu samvistum. Synir Sigrúnar og Aðalgeirs eru 1) Sveinbjörn, bóndi á Vestara-Landi, f. 21.8. 1963, sonur hans er Erlendur Gestur, f. 3.3. 2007. 2) Vésteinn, sjómaður á Akureyri, f. 3.12. 1965, kona hans er Kristjana Sigurgeirsdóttir, f. 4.9. 1965. Börn þeirra eru Sindri, f. 27.4. 1992, Geir, f. 11.4. 1995, og Ninna Rún, f. 8.7. 2002.

Á unglingsárum sótti Sigrún nám við Héraðskólann í Reykholti og Húsmæðraskólann á Laugarvatni. Að lokinni skólagöngu bjó hún og starfaði á Vestara-Landi meðan heilsa og þrek leyfði, eða til ársloka 2009.

Útför Sigrúnar hefur farið fram í kyrrþey.

Í huganum hverf ég aftur í tímann. Ég er nýflutt í sveitina og úti ríkir norðlensk stórhríð sem dregur snjakahvítar gardínur fyrir hvern glugga. Ég rýni út um gluggann og sé glitta í örlitla ljóstýru í eldhúsglugga. Þessi litla tíra fyllir mig öryggi því ég veit hvað að baki hennar býr. Konan sem þekkir lífið á þessum forkunnafagra stað. Þegar ég hitti þessa konu með sína hvellu rödd og hreinskilni í fyrsta sinn grunaði mig ekki að hún yrði ein af okkar tryggustu vinum. Það eru margar dýrmætar stundir að minnast. Vorin og haustin, sauðburður og göngur, þegar við glöddumst yfir nýbornu lömbunum og biðum spenntar eftir að fá féð af fjalli. Oft var mikið verk að vinna en Sigrún hafði ánægju af stússinu við féð og unni sér ekki hvíldar ef hún vissi af einhverri skepnu í nauð. Hún sýndi þeim nærgætni, ávann sér traust þeirra og var einstakur græðari. Heyskapur, berjatími, reyking eða hvað annað sem þurfti að gera, alltaf sami dugnaðurinn og eljan uns verkinu lauk. Hún var bóndi af lífi og sál en unni líka leiklistinni og fögrum söng. Hún var í eðli sínu mannblendin þótt hún væri heimakær. Kunni vel við sig í góðum félagsskap, fylgdist grannt með málum líðandi stundar og hafði ákveðnar skoðanir á þeim. Hún var órög að segja mönnum til syndanna ef henni mislíkaði en kunni líka að hrósa. Hún var réttkjörinn málsvari málleysingjanna og ekki auðvelt að snúa henni ef hún var búin að bíta eitthvað í sig enda að eigin sögn, þrjóskari en sjálf sauðkindin. Hún var sjálfstæð bæði í orði og athöfnum, fór ekki endilega troðnar slóðir og þótti af sumum sérvitur en þá sérlega þeim sem ekki þekktu betur. Fyrir það var hún líka einstök. Hún unni landinu sínu og kunni að lesa í náttúruna. Þekkti hverja þúfu og hvert kennileiti. Vissi hvar best var að beita fénu, hvar hætturnar leyndust, hvar voru bestu berjalöndin og var þannig hafsjór fróðleiks. Hún var líka sjálfri sér samkvæm og bar höfuðið hátt þegar erfiðir tímar gengu í garð. Andinn var hugumstór, fullur af lífsvilja og baráttuþreki. Af æðruleysi barðist hún við vágestinn og við vorum bjartsýn. Svona kona sem er þverari en sauðkindin sjálf hlýtur að sigra. Um tíma hafði hún líka vinninginn. Sú reisn sem hún bjó yfir á þessum erfiðu tímum kom svo vel í ljós þegar vágesturinn bankaði aftur upp á. Allan þennan tíma stóð fjölskyldan sem klettur við hlið hennar sem var henni ómetanlegt. Ég heimsótti hana á spítalann og við spjölluðum saman á afar hreinskiptinn hátt. Með hreinskilni sinni gerði hún okkur þessi þungbæru skref auðveldari sem er verðugt til eftirbreytni. Enn birti um stund en skyndilega fór heilsunni hrakandi. Með dyggum stuðningi þinna nánustu varst þú búin að heyja harða baráttu og umvafin hlýju þeirra hvarfst þú á braut. Ég sé þig standa hjá mér í Sigtúnum á fallegum degi. Þú mundar kíkinn og skimar eftir þeirri gráu sem átti að vera niðri í Byrgi. Þannig vil ég minnast þín og þakka um leið fyrir allan þann trúnað og vináttu sem okkur fór á milli. Í mínum huga var það einstakt.

Helga Þorsteinsdóttir.

mbl.is/minningar