Blúsmenn Andreu Verða án efa í stuði.
Blúsmenn Andreu Verða án efa í stuði. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Blásið verður til þriggja daga blúshátíðar í Rangárvallasýslu um hvítasunnuhelgina, dagana 21.-24. maí. Hekla Blúsfélag stendur fyrir þessari viðamiklu hátíð sem nú er haldin í annað sinn og ber nafnið Norden Blues Festival 2010.

Blásið verður til þriggja daga blúshátíðar í Rangárvallasýslu um hvítasunnuhelgina, dagana 21.-24. maí. Hekla Blúsfélag stendur fyrir þessari viðamiklu hátíð sem nú er haldin í annað sinn og ber nafnið Norden Blues Festival 2010.

Tónleikar verða á víð og dreif um héraðið, en svokallaðir útgangspunktar hátíðarinnar verða byggðarkjarnarnir Hella og Hvolsvöllur. Fjöldi þekktra listamanna mun stíga á svið, bæði innlendir sem erlendir.

Fyrst er að nefna erlenda gesti hátíðarinnar, norska blúsbandið Vetrhus Blusband, sem hefur hlotið þann heiður að vera kallað besta blúsband Skandinavíu.

Listinn yfir þá innlendu tónlistarmenn sem fram koma er nánast ótæmandi og má þar nefna Blúsmenn Andreu, KK band, Blue Ice Band, Síðasta Séns og Blússveit Þollýjar. Þá verða tvennir kirkjutónleikar með þeim systkinum KK og Ellen.

Á heimasíðu Blúsfélagsins segir að hátíðinni sé ætlað að efla tónlistarlíf í héraðinu og skemmta íbúum þess og gestum. Félagsmenn telja Blúshátíðina kærkomna, enda þungt yfir mönnum á tímum eldgosa og öskufalls.

Blúsáhugamenn mega ekki láta þennan einstaka viðburð framhjá sér fara. Frítt er inn á þá tónleika sem haldnir verða á veitingahúsum í héraðinu, en miðar á aðalsviðunum tveimur, Hvolnum á Hvolsvelli og í Hellubíói, eru til sölu við innganginn og á midi.is. Frekari uppýsingar má finna á blues.is.